Mjög mikil öryggisgæsla verður á og við Belfry-golfvöllinn í Englandi síðar í þessum mánuði þegar Ryder-keppnin verður haldin þar, viðureign úrvalsliðs Bandaríkjanna og Evrópu í golfi.
Keppnin átti að vera í fyrra en var frestað um ár vegna hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september.
Nú hefur verið ákveðið að herða öryggisgæslu á Ryder-keppninni enn frekar.
Áhorfendur mega hvorki fara með myndavélar né farsíma á svæðið og allir þurfa að fara í gegnum málmleitartæki svipuð þeim sem eru á flugvöllum. Erfitt verður að komast að vellinum á bílum því lítið er um bílastæði þar en þess í stað verða áhorfendur að skilja bílinn eftir í Birmingham og þaðan verður fólki skultað með strætisvögnum á keppnisstað.
“Vonandi finnst fólki þetta ekki of miklar varúðarráðstafanir, en því miður virðist sem svona lagað sé að verða nauðsynlegt á íþróttaviðburðum og öðrum stórviðburðum þar sem margir koma saman,” sagði talsmaður keppninnar.
Þess má geta að Ryder keppnin verður haldin 27-29 september.
——