Golfklúbbur Suðurnesja var stofnaður þann 4. mars 1964 og voru stofnfélagar 96 talsins. Land undir aðstöðu sína fengu þeir í landi Leirujarðanna Stórhólms og Hrúðuness auk nokkurra kotjarða en vallarsvæðið var ræktað land, þó nokkur órækt hafi verið þar einnig. Hlaut völlurinn nafnið Hólmsvöllur og sú nafngift á rætur að rekja til hólma nokkurs rétt utan strandarinnar. Fyrstu árin miðuðust framkvæmdir við að rífa grjótgarða, grjóthreinsa mela og fullrækta svæðið auk þess að koma yfir sig þaki, en fyrsti golfskálinn, 80 fermetra járnbraggi, var fenginn að láni hjá Sölunefnd varnarliðseigna á öðru starfsári klúbbsins.
Árið 1973 ákváðu klúbbfélagar á aðalfundi að láta teikna fyrir sig 18 holu völl og var sænski golfvallararkitektinn Nils Skjöld fenginn í verkið. Skilaði hann fullunnum teikningum ári síðar og sú draumsýn sem þá birtist, varð að veruleika tólf árum síðar, nánar tiltekið þann 6. júlí 1986, að vígður var 18 holu golfvöllur og um leið var tekið í notkun nýtt og glæsilegt klúbbhús, sem félagar höfðu lagt af stað með nokkrum árum áður. Síðan þá hefur risið ný vélageymsla, skýli fyrir æfingaaðstöðu og kaffiskáli við 10. teig.
Í Leirunni er einnig 9 holu æfingavöllur nefndur Jóelinn og hafa margir kylfingar byrjað ferilinn þar en hann hentar einkar vel byrjendum í íþróttinni. Félagar í klúbbnum nálgast nú fjórða hundraðið og hefur klúbburinn á sínum snærum golfkennara til aðstoðar og kennslu en í salarkynnum hússins er starfrækt golfverslun og veitingarekstur. Það er því óhætt að segja að Golfklúbbur Suðurnesja bjóði upp á alla þá þjónustu og aðstöðu sem kylfingar geta óskað sér að ógleymdri allri dýrðinni, sem völlurinn og umhverfi hans býður upp á. Glæst útsýni er með allri strandlengjunni frá norðri til suðurs og fuglahljóðin í Bergvíkinni tekur undir þær stórbrotnu aðstæður vallarins, sem öldurót hafsins mótar á hverju ári.
Flatargjöld í Leiru 18 holur
Alla daga kr. 2.000,-
Á virkum dögum frá kl. 08:00 til 13:00 kr. 1.200,-
Sérgjald fyrir hjón kr. 2.200,-
Á virkum dögum frá kl. 08:00 til 13:00 kr. 1.500,-
Leikur á Jóel, par-3 velli GS er ókeypis og eru allir velkomnir hvenær sem er.
Ársgjöld G.S. fyrir árið 2000
Karlar kr. 34.000,-
Konur kr. 29.000,-
Unglingar 16 - 19 ára kr. 21.000,-
Námsfólk 19 ára og eldra kr. 21.000,-
Drengir og stúlkur 13 - 15 ára kr. 11.000,-
Drengir og stúlkur 12 ára og yngri kr. 7.000,-
Hjónagjald kr. 51.000,-
Fjölskyldugjald kr. 57.000,-
Eldri kylfingar sem náð hafa 67 ára aldri kr. 7.000,-
Nýliðagjald kr. 17.000,-