Karrie Webb nær sögulegum árangri
AP
Karrie Webb var hugsað til afa síns eftir að hún hafði lokið keppni.
Ástralski kvenkylfingurinn Karrie Webb náði sögulegum áfanga í gær er hún sigraði á LPGA meistaramótinu í golfi. Webb, sem er 26 ára gömul, hefur þar með sigrað á öllum fjórum risamótunum í kvennagolfi. Fyrir þremur vikum sigraði hún á opna bandaríska mótinu. Í fyrra sigraði hún á Nabisco meistaramótinu og á Maurier Classic árið 1999.
Webb lék síðasta hringinn á 69 höggum og samanlagt á 270 höggum sem samsvarar 14 höggum undir pari vallarins. Webb hugleiddi þó að hætta við keppni á mótinu, sökum þess að afi hennar liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Ástralíu eftir að hafa fengið hjartaáfall. Webb er yngsta konan sem nær “slemmunni” eftirsóttu í golfi, en hún hefur tekið þátt í átta risamótum og sigraði í fimm þeirra. Má því segja að árangur hennar sé sambærilegur við árangur Tiger Woods hjá körlunum.
forsíða mbl.is 25/6/01