Á sunnudaginn (29. mars 2004) sigraði hann eitt af stærstu mótum ársins, PLAYERS Championship, þar sem saman komu bestu kylfingar heims til að keppa um stærstu ávísun frá upphafi, $1.440.000 USD.
Með sigrinum varð Adam Scott yngsti spilari sögunnar til að vinna PLAYERS, aðeins 23ja ára gamall og um leið skaut hann sér upp í 12. sæti á heimslistanum. Sigurinn verður líklega þess valdandi að fólk fer að hætta að tala um hann sem einn efnilegasta kylfing heims og fer að setja hann í sama flokk og stjórstjörnurnar Tiger Woods, Ernie Els og Phil Mickelson svo einhverjir séu nefndir. Það er ljóst að Adam Scott er sigurvegari.
Adam Scott hefur bæði unnið mót á Evróputúrnum og PGA mótaröðinni. Fyrir 6 mánuðum sigraði hann Deutche Bank Championship á PGA sem haldið var í Boston. Samtals hefur hann unnið sex mót en það sem þykir athyglivert er að í öll skiptin hefur hann leitt fyrir síðasta hring og aðeins einu sinni hefur hann ekki unnið mót sem hann hefur leitt eftir 54 holur.
Adam Scott komst á Evrópumótaröðina árið 2001 aðeins tvítugur að aldri. Það kom engum á óvart því hann var talinn vera næstbesti áhugamaðurinn í heiminum á þeim tíma. Hann endaði í 13. sæti á peningalistanum það árið og næsta ár gerði hann enn betur þökk sé tveimur sigrum og endaði í 7. sæti. Í fyrra fékk hann þátttökurétt á fleiri mót á PGA mótaröðinni og tók hann þátt í 14 mótum. Samtals vann hann sér inn $1.238.736 USD það árið.
Í ár hefur hann byrjað hreint út sagt ótrúlega vel á PGA mótaröðinni og unnið sér inn $2.025.000 USD í aðeins 5 mótum (fjórum sinnum í topp 10). Adam lék aðallega á Evróputúrnum í fyrra og tók þátt í 19 mótum þar sem hann vann sér inn 1.152.526 evrur og endaði í 11. sæti. Sem stendur er Adam í 10. sæti á Evróputúrnum í ár þrátt fyrir að hafa aðeins tekið þátt í 3 mótum af 12.
Snúum okkur þá aftur að PLAYERS Championship mótinu sem haldið var um helgina.
Scott endaði á 12 höggum undir pari eða 276 höggum og sigraði með einu höggi. Sigurinn tryggði honum ekki aðeins 100 milljónir króna heldur fylgir honum 5 ára þátttökuréttur á PGA mótaröðina og 3ja ára þátttökuréttur á Masters. Að auki fá þeir sem sigra á PLAYERS Championship sinn eigin skáp í búningsherbergi meistaranna, merkta með nafni sínu og afrekum á mótinu.
Adam var með tveggja högga forystu fyrir lokahringinn og sýndi mikið öryggi allan hringinn, allt þar til kom að síðustu holunni en þá sló hann annað högg sitt í vatn rétt við flötina. Hann þurfti því að taka víti og slá fjórða höggið inn á flöt. Adam vissi að til þess að forðast bráðabana við Padraig Harrington mætti hann ekki fá meira en skolla. Adam Scott sló fjórða höggið 3 metra frá og setti niður fyrir sigrinum. Einlægt fagnið (sjá mynd) sýndi hve mikils virði sigurinn var honum. Adam varð þriðji Ástralinn til að sigra á PLAYERS því áður höfðu þeir Greg Norman og Steve Elkington sigrað á þessu sterkasta móti ársins.
Flestir eru sammála um að það golf sem Adam Scott sýndi um helgina hafi ekki verið þruma úr heiðskýru lofti. Hér er á ferðinni ný stjarna sem á framtíðina fyrir sér.
Adam Scott sýndi ótrúlega takta á síðustu holunum sem þykja mikil áskorun fyrir kylfinga á Stadium Course vellinum í Sawgrass. Oftar en einu sinni hefur PLAYERS Championship titillinn unnist og tapast á þessum síðustu holum. Þetta árið urðu þó engin stórslys.
Adam Scott kom á 17. teig með tveggja högga forystu, en holan er par þrjú og er flötin á lítilli eyju sem er umlukin vatni. Það er erfitt að ímynda sér hve taugatrekkjandi það hlýtur að vera að hitta þá flöt, með forystu á 8 milljón dollara móti. Adam sló aftur á móti yfirvegað á miðja flöt og átti mjög gott pútt fyrir fugli sem hann rétt missti.
18. holan er erfið par fjögur með vatni alla leið á vinstri hönd. Adam sló frábært teighögg með 2 járni og átti auðvelt 6 járn (að því er virtist) eftir inn á flöt en eins og fyrr sagði sló hann í vatnið og þurfti að sýna sitt besta til að bjarga verskulduðum sigri.
Adam Scott hefur skýrt frá því að þjálfari hans Butch Harmon hafi á æfingadögunum fyrir mótið kallað á Greg Norman, æskuhetju Scott, og beðið hann um að hjálpa honum með vippin. Hákarlinn var hjá honum í 90 mínútur og kenndi honum nýja aðferð sem átti eftir að sinna veigamiklu hlutverki. Scott notaði einmitt þessa aðferð á 72. holu þegar hann þurfti að vippa upp að stöng til að tryggja sér sigurinn. Aðspurður um þetta sagði Adam Scott: “I owe Greg a beer”. Greg Norman var skiljanlega mjög stoltur af samlanda sínum og sagði í viðtali að Adam Scott væri tæknilega betri en Tiger Woods þegar hann var 23 ára og hefði alla burði til þess að vinna frekari afrek á næstu árum.
Kylfusveinn Adam Scott heitir Alastair McLean og var áður hjá Colin Montgomerie þegar Skotinn réð yfir Evrópu. McLean tekur undir þetta hjá Greg Norman og segir að Adam Scott sé engum líkur og það besta í fari hans sé skapið og ótrúleg yfirvegun.
Adam Scott lærði hjá Charlie Earp í Ástralíu, sama kennara og kenndi Greg Norman á sínum tíma. Greg Norman var fyrsti Ástralinn til að gera það gott í golfinu og ruddi leiðina fyrir kylfinga eins og Adam Scott, Aron Baddeley, Steve Elkington, Stuart Appleby og fleiri.
NOKKRAR UPPLÝSINGAR UM ADAM SCOTT:
Þjóðerni: Ástrali
Fæddur: 16. júlí 1980
Hæð: 183cm
Þyngd: 77kg
Gerðist atvinnumaður: 2000 með +3 í forgjöf
Sigrar sem atvinnumaður:
2001 - Alfred Dunhill Championship (ET)
2002 - Qatar Masters (ET)
2002 - Diageo Scottish PGA Championship (ET)
2003 - Scandic Carlsberg Scandinavian Masters (ET)
2003 - Deutche Bank Championship (PGA)
2004 - PLAYERS Championship (PGA)
Helstu sigrar sem áhugamaður:
1996 - Australian Junior Championship
1996 - Queensland Junior Championship
1996 - New Zealand Junior Championship
1997 - Australian Junior Championship
1997 - Doug Sanders World Junior Championship
1997 - Queensland Junior Championship
1997 - International Junior Championship
Golfpokinn:
Bolti: Titleist ProV1x
Driver: Titleist 983E 8.5° m. stálskafti
Brautartré: Titleist PT 15°
Járn: Titleist 670 2-PW
Wedgar: Titleist Vokey Design 56° & 60°
Pútter: Titleist Scotty Cameron
——————-