Mjög gaman er að fylgjast með mótinu því á þessum tímapunkti reyna flestir kylfingar að toppa. Ástæðan er sú að um næstu helgi er Masters á Augusta. Þess má til gamans geta að Sýn mun sýna beint frá Players Championship nk. sunnudag eða sama dag og mótinu líkur. Frábært framtak hjá þeim og vonandi verður mikil spenna á síðustu 9 holunum!
Mótið fer fram á hinum erfiða Stadium Course á TPC í Sawgrass. Í fyrra sigraði Davis Love III eftir hreint frábæran síðasta hring sem nefndur hefur verið best spilaði hringurinn 2003. Þegar litið var til baka mátti ekki finna eitt högg sem mistókst hjá DL3 og er mjög sjaldgæft að það gerist, sérstaklega í eins slæmu veðri og var í boði þann daginn.
Aðeins einn leikmaður hefur bæði unnið Players Championship og Masters á sama árinu og kemur ekki á óvart að það sé Tiger Woods, meistari metanna. Eins og fyrir flest mót þá er Woods talinn sigurstranglegastur en slakt gengi hans á síðasta móti (Bay Hill) kom mörgum á óvart og virðist raunin vera sú að hann sé ekki upp á sitt besta þessa dagana. Þeir sem teljast sigurstranglegastir eru: Tiger Woods, Davis Love III, Phil Mickelson, Ernie Els, Vijay Singh, Mike Weir, Adam Scott, Darren Clarke og Chad Campbell sem vann um síðustu helgi eftir frábært golf.
Ein frægasta holan á vellinum er 17. sem er par 3. Þeirri holu má líkja við Bergvíkina því hún veldur svo mikilli streitu hjá keppendum og engin leið er að reyna að hunsa hana á meðan á hringnum stendur. Skiptar skoðanir eru um þá holu, sumir elska hana og aðrir hata hana. Fred Couples fékk eitt sinn par eftir að hafa slegið fyrsta höggið í vatn, tíað upp aftur og slegið ofan í. Af öllum holunum á vellinum hafa flest minnisstæðustu atvikin gerst á þeirri sautjándu og mótin oftar en einu sinni unnist þar.
Eins og áður sagði þá er Players Championship oft nefnt sem 5. risamótið. Ástæðan er einföld: erfiðasti völlurinn, sterkustu keppendurnir, mesti áhorfendafjöldinn og hæðsti vinningspotturinn. Aðeins eitt vantar svo Players sé talið sem risamót og er það hefðin. British Open, US Open, PGA Championship og Masters eru hafa mikla hefð enda hefur verið keppt í yfir 100 ár á þeim mótum. Players Championship er tiltölulega nýtt mót en nýtur mikillar virðingar engu að síður.
Ég vona að sem flestir fylgist með mótinu um helgina, sérstaklega á Sýn á sunnudaginn! Sjálfur held ég með Adam Scott.
——————-