Af mörgum talið hefur Davis Love III leikið sitt besta golf í ár. Hann hefur einnig sagt að þetta sé hans besta tímabil frá upphafi þrátt fyrir að hann sigraði ekki á neinu risamóti. Mörgum fannst DL3 gleymast í umræðunni um hver ætti að hljóta “Player of the Year” viðurkenninguna vegna þess að DL3 sigraði fjögur mót á árinu og þar á meðal hið stóra og virta mót “The Players Championship” við erfiðar aðstæður á Sawgrass vellinum þar sem hann lék óaðfinnanlega og fékk mikið lof fyrir.
Víkjum okkur þá að móti helgarinnar. Þá fór fram “The Target World Challenge”, boðsmót sem Tiger Woods stofnaði til fyrir 6 árum. Í ár voru keppendurnir 16 talsins (flestir af bestu kylfingum heims). Heildarvinningsupphæð mótsins var $5 milljónir dala og af því fékk sigurvegarinn $1.2 milljónir sem er stærsta vinningsupphæð ársins. Allur ágóði af mótinu rann til sérstaks málefnis sem TW er verndari yfir og kallast “Tiger Woods Learning Center”. Málefnið er ætlað að styrka ungt fólk til náms.
Davis Love III og Tiger Woods léku saman á þriðja degi mótsins og þegar þeir röltu upp á fyrsta teig öskraði einn aðdáandi Tigers: “GO WIN TODAY TIGER”. Tiger brosti og hugsaði með sér að ekki væri hægt að sigra mót á þriðja degi. DL3 sannaði hið gagnstæða því hann lék ótrúlegt golf og tryggði sér nánast sigurinn fyrir síðasta hring. Eftir fyrri níu holurnar grínaði TW og sagði við DL3 að hann ætti 2 högg á hann. DL3 spurði hvernig hann fengi það út og TW sagði að miðað við hversu vel DL3 léki þá ætti hann að fá eitt högg í forgjöf á hverja holu. Davis Love III hafði unnið 7 högg af Tiger Woods á fyrstu 9 holunum og endaði daginn á 63 höggum (jöfnun á mótsmeti), 9 höggum betri en TW sem endaði á parinu eða á 72 höggum.
Fyrir síðasta hringinn var Davis Love III með þriggja högga forystu á K.J. Choi. Þrátt fyrir það var það ekki Choi sem veitti honum mestu keppnina á lokadeginum heldur Tiger Woods sem lék sinn besta hring þrátt fyrir slæmar aðstæður, rok og rigningu. TW lék á 65 höggum og lét DL3 vinna fyrir hverri krónu því á tímabili var munurinn á milli þeirra aðeins eitt högg og rigningin sem lak niður Titleist derhúfu DL3 gæti þess vegna hafa verið sviti.
Davis Love endaði hringinn á pari og vann sér inn $1.2 milljónir dala, hans stærstu ávísun á ferlinum. Alls ekki slæmur endir á frábæru ári! Þrátt fyrir að sigurlaunin telji ekki með á peningalistanum var þetta mikilvægur sigur fyrir sjálfstraust DL3 því hann vann 16 af bestu kylfingum heims, þar á meðal Tiger Woods og Vijay Singh.
Svona urðu annars úrslit mótsins:
1. Davis Love III $1,200,000 70-72-63-72–277 -11
2. Tiger Woods $700,000 71-71-72-65–279 -9
3. Padraig Harrington $500,000 74-67-70-71–282 -6
4. Justin Leonard $317,500 71-72-70-71–284 -4
4. Mike Weir $317,500 75-68-69-72–284 -4
6. K.J. Choi $225,000 72-71-65-77–285 -3
7. Vijay Singh $205,000 74-69-73-70–286 -2
8. Robert Allenby $195,000 72-71-72-74–289 +1
9. Fred Couples $185,000 73-72-69-76–290 +2
10. Nick Price $177,500 74-69-75-73–291 +3
10. Chris DiMarco $177,500 74-68-72-77–291 +3
12. Shaun Micheel $170,000 76-69-73-75–293 +5
13. Jay Haas $165,000 76-72-75-72–295 +7
14. Ben Curtis $160,000 78-74-72-72–296 +8
15. Kenny Perry $155,000 71-77-75-74–297 +9
16. Darren Clarke $150,000 81-73-70-75–299 +11
——————-