Margir hafa spáð Chad Campbell góðu gengi í framtíðinni. Fyrr í sumar var hann hársbreidd frá því að vinna “major” þegar aðeins eitt högg (með 7 járni á síðustu holu) skildi hann og Shaun Micheel að á PGA Championship risamótinu. Tiger Woods og Vijay Singh höfðu báðir sagt á árinu að það væri aðeins tímaspursmál hvenær Campbell sigraði sitt fyrsta PGA mót. Því var það mikill léttir fyrir hinn 29 ára gamla Campbell þegar hann sigraði loks og það í síðasta móti ársins þar sem aðeins þeir bestu tóku þátt.
Chad Campbell sigraði nú um helgina á THE TOUR Championship og hlaut fyrir það rétt yfir eina milljón dollara í verðlaun (alls ekki slæmt). Campbell endaði á -16 undir og sigraði með 3 höggum. Hann lagði grunninn að sigrinum á 3. degi þegar hann lék á 61 höggi eða -10 undir og setti nýtt vallarmet. Sá hringur var í raun ótrúlegur þar sem að næst besta skor mótsins var 66 högg sem segir bara að völlurinn var talsvert erfiður um helgina (just ask Tiger Woods). Úrslitin í ár eru einnig merkileg fyrir þær sakir að Chad Campbell varð sá fyrsti í sögunni sem að sigrar The TOUR Championship án þess að hafa unnið áður á PGA mótaröðinni, þ.e. sá fyrsti sem gerði TOUR Championship að sínu fyrsta sigri.
Svona fóru leikar:
Chad Campbell 1 70-69-61-68 268 $1,080,000.00
Charles Howell III 2 67-67-67-70 271 $648,000.00
Retief Goosen 3 69-67-67-69 272 $414,000.00
Chris Riley 4 69-68-66-70 273 $288,000.00
Davis Love III T5 73-67-67-69 276 $228,000.00
Vijay Singh T5 73-68-67-68 276 $228,000.00
…
Tiger Woods 26 70-70-71-74 285 $96,000.00
Vijay Singh endaði jafn í 5. sæti og er það því í 18. sinn á árinu sem hann endar í topp 10. Með þessu endaði Singh fjögurra ára sigurgöngu Tiger Woods og sigraði PGA Tour peningatitilinn með $7.573.907. Singh sem fær að launum Arnold Palmer bikarinn segir þetta mesta afrek sitt á ferlinum en á sama tíma gerir Tiger Woods lítið úr þessu og bendir á að Singh hafi spilað í 8 mótum fleiri en hann (þeir eru ekki miklir mátar).
Svona hefur þessi keppni endað síðstu 10 árin:
2003 Vijay Singh $7,573,907
2002 Tiger Woods $6,912,625
2001 Tiger Woods $6,687,777
2000 Tiger Woods $9,188,321
1999 Tiger Woods $6,616,585
1998 David Duval $2,591,031
1997 Tiger Woods $2,066,833
1996 Tom Lehman $1,780,159
1995 Greg Norman $1,654,959
1994 Nick Price $1,499,927
Tiger Woods sigraði bæði Vardon Trophy keppnina fyrir að enda með lægsta meðalskorið og Player of the Year keppnina fyrir að fá flest stig samkvæmt kerfi PGA Tour. Tiger hefur unnið báðar þessar keppnir 5 ár í röð.
Enn er mikið í húfi fyrir Singh og Woods því spilarar á mótaröðinni eiga eftir að velja PGA Tour Player of the Year sem mikill heiður er að vinna. Tiger Woods hefur sagt að hann hljóti að teljast sigurstranglegastur með 5 sigra og lægsta meðalskor ársins en Singh er ekki sammála. PGA Tour Player of the Year verður kynntur í byrjun desember. Allir spilarar á PGA Tour fá senda atkvæðaseðla í næstu viku.
——————-