Ég er mikið búinn að velta fyrir mér hvaða kylfingur hefur verið bestur á þessu tímabili sem er að ljúka. Ernie Els byrjaði árið langbest allra, Kenny Perry og Davis Love III spiluðu best allra um miðbik tímabilsins, Mike Weir og Jim Furyk unnu risamót og hafa verið í góðu formi allt árið, Tiger Woods hefur ollið sumum vonbrigðum en hefur engu að síður sigrað 5 mót og að lokum hefur Vijay Singh verið í frábæru formi allt tímabilið en sérstaklega nú undir lok þess.
Að mínu mati koma þrír til greina sem besti kylfingur ársins 2003. Það eru þeir Ernie Els, Tiger Woods og Vijay Singh. Hér að neðan er smá texti um árangur hvers þeirra á tímabilinu og að lokum sendi ég inn könnun þar sem þið getið valið á milli þeirra.
ERNIE ELS:
Skipti úr Taylor Made yfir í Titleist í byrjun tímabilsins og fór hreinlega á kostum. Af fyrstu 6 mótum sínum vann hann fjögur og varð annar í tveimur þeirra. Meiddist svo og tók því rólega en vann samtals 7 mót og komst í gegnum niðurskurðinn í öllum þeim mótum sem hann tók þátt í. Var einn af fimm sem komst í gegnum niðurskurð allra risamótanna og var sá eini sem endaði í topp 20 í öllum þeirra. Endaði í fyrsta sinn í efsta sæti peningalista European Tour. Varð heimsmeistari í holukeppni í fimmta sinn á ferlinum sem aðeins Seve Ballesteros og Gary Player hafa einnig leikið eftir.
Meðalhögglengd af teig: 307 yardar
Meðalfjöldi pútta á hring: 29.3
Meðalskor: 68.9
Heildartekjur 2003: $5.730.717 USD
Fjöldi móta: 25
TIGER WOODS:
Var að jafna sig eftir hnéaðgerð í byrjun ársins. Spilaði aðeins í 18 mótum á tímabilinu en er þrátt fyrir það í 2. sæti PGA peningalistans. Sigraði fimm þeirra og komst í gegnum niðurskurðinn í öllum. Átti í raun aðeins 3 slök mót. Var einn af fimm sem komst í gegnum niðurskurð allra risamótanna. Setti nýtt met með því að komast í gegnum niðurskurðinn 114 mót í röð. Er með lægsta meðalskor af öllum og hlýtur sérstök verðlaun fyrir það í lok tímabilsins.
Meðalhögglengd af teig: 300,3 yardar
Meðalfjöldi pútta á hring: 28.52
Meðalskor: 68.19
Heildartekjur 2003: $6.604.288 USD
Fjöldi móta: 18
VIJAY SINGH:
Hefur verið ótrúlega jafn í ár. Spilaði í 27 mótum á tímabilinu og missti niðurskurðinn einu sinni. Af 27 mótum var hann 24 sinnum í topp 25 og 18 sinnum í topp 10. Sigraði 4 mót sem er hans besti árangur, varð annar í 5 mótum og komst í 2. sæti heimslistans í fyrsta sinn á ferlinum. Er nánast öruggur með að enda í efsta sæti PGA peninglistans í fyrsta sinn á ferlinum og rjúfa þar með fjögurra ára sigurgöngu Tiger Woods.
Meðalhögglengd af teig: 302 yardar
Meðalfjöldi pútta á hring: 28.63
Meðalskor: 68.61
Heildartekjur 2003: $7.411.461 USD
Fjöldi móta: 27
Koma Tiger Woods í golfheiminn hefur svo sannarlega hækkað staðalinn í greininni og stuðlað að framförum. Það er ljóst að Tiger Woods hefur ekki jafn mikla yfirburði og áður. Menn eins og Ernie Els og Vijay Singh hafa lagt mikið á sig til að ná honum að getu. Báðir hafa þeir átt ein sín bestu tímabil nú í ár. Spennandi verður að fylgjast með þessum þremur kylfingum á næstu árum og hægt að velta eftirfarandi fyrir sér:
Mun Tiger taka þátt í fleiri mótum á næsta ári? Eru fleiri sem hætta að hræðast Tiger og taka sig á og veita honum sömu samkeppni og Ernie Els og Vijay Singh? Er Tiger og mun alltaf vera langbestur?
——————-