Verður Tiger maður eða mús um helgina? Nú um helgina fer fram “FUNAI Classic” mótið á PGA mótaröðinni. Mótið er haldið á WALT DISNEY WORLD RESORT svæðinu í Flórída sem þýðir að flestir kylfingarnir koma til með að taka fjölskyldu sína með í för og skemmta sér í garðinum eftir hvern hring. Þeir kalla þetta að vinna í fríinu eða “Working Vacation”. Disney völlurinn þykir frekar léttur (hreinn barnaleikur) og reiknað er með að niðurskurðurinn verði –8 undir par eftir tvo hringi. Stærstu nöfnin sem leika um helgina eru: Tiger Woods, Vijay Singh, Davis Love III, Phil Mickhelson, Fred Couples, Jim Furyk og Retief Goosen.

Mikil spenna er fyrir mótið þar sem aðeins tvö mót eru eftir á tímabilinu og barist er á fleiri en einum stað á töflunni. Í fyrsta lagi eru í kringum 40 kylfingar sem berjast um að komast í topp 125 á peningalistanum svo þeir fái þátttökurétt á PGA mótaröðinni á næsta ári. Þeir þurfa nýta tækifærið í næstu tveimur mótum til að halda vinnunni.

Aðrir 20 kylfngar berjast um að komast í topp 30 á peningalistanum því þá öðlast þeir þátttökurétt á hinu arðvænlega móti “Tour Championship” sem haldið verður í byrjun Nóvember. Þar keppa aðeins 30 kylfingar og ekki verður skorið niður þannig að allir keppendur fá peningaverðlaun en sigurvegarinn fær yfir 1 milljón dollara í verðlaun.

Þrír menn berjast um efsta sæti peningalistans, þeir Tiger Woods, Vijay Singh og Davis Love III. Tiger Woods hefur $171.239 dollara forskot á Vijay Singh. Tiger bætir gamalt met á PGA mótaröðinni ef hann endar 5. árið í röð í efsta sæti peningalistans. Tiger Woods hefur lítið gert síðan hann kom fram á sjónarsviðið en að bæta met en sagt er að þetta met sé honum mjög mikils virði. Tiger verður helst að vinna þetta mót því að hann tekur sér frí í næstu viku þegar “Chrysler Championship” mótið fer fram en Vijay Singh er skráður í það mót og reikna má með að hann eigi eftir að næla sér í nokkra dollara þar enda stórt mót.

Að lokum er “Player of the Year” verðlaunin í húfi og stendur baráttan helst á milli Davis Love III og Tiger Woods. Því má segja að hinn skemmtilegi Disney garður sé ekki það eina sem trekkir kylfingana að í mótið að þessu sinni.

Sumum finnst að Tiger Woods spili í of fáum mótum. Vijay Singh hefur spilaði í 8 mótum fleiri en Tiger í ár. Tiger segir að hann spili í hæfilega mörgum mótum til að halda þorstanum fyrir sigur í gangi. Hann brenndi sig á því árið 1997 að spila of mikið í byrjun tímabilsins og varð orðinn steiktur undir lok þess. Tiger vinnur að meðaltali $391.000 dollara í hverju móti. Ef hann hefði leikið í jafn mörgum mótum í ár og Vijay Singh væri hann búinn að vinna ca. 9.4 milljón dollara á árinu.

Tiger Woods á möguleika á að jafna annað met um helgina. Ef hann kemst í gegnum niðurskurðinn verður það í 113. sinn í röð og jafnar hann því met Byron Nelson frá fimmta áratugnum. Í næstu tveimur mótum Tiger Woods verður svo enginn niðurskurður þannig að hann er öruggur með að bæta með Byron Nelson ef hann kemst í gegnum niðurskurðinn um helgina á FUNAI Classic mótinu. Spekingar segja að enginn muni ná að leika þetta eftir.

Nóg að gera hjá Tiger um helgina, tvö met í húfi. Nú er spurninginn: Er Tiger maður eða (Mikki) mús?



Heimildir:

www.pgatour.com
www.pga.com
www.golf.com
——————-