Solheim Cup - RYDER CUP MEÐ VARALIT

Karsten Solheim ásamt konu sinni Louise Solheim langaði til að koma af stað liðakeppni milli bandarískra og evrópskra kvenna, svipaðri Ryder Cup. Þetta tókst þeim og árið 1990 fór fyrsta keppnin fram og fékk hún nafnið “Solheim Cup” í höfuðið á stofnendum hennar. Í dag er þetta mót orðið að stórum viðburði og er leikið annað hvert ár. Á útvöldum mótum á bæði evrópsku (LET) og bandarísku (LPGA) mótaröðinni fá keppendur stig sem telja til vals á liðinu. Það þykir mikill heiður að komast í liðið, aðeins 12 konur komast í hvort lið. Karsten Solheim er stofnandi Ping og eru þeir aðalstyrktaraðilar mótsins.

Solheim Cup er spilað á þremur dögum og leiknir eru samtals 28 leikir (8 foursome, 8 four-ball og 12 singles).

Solheim Cup fór fram í 8. sinn nú á dögunum. Leikið var í Svíþjóð 12.-14. september og fór evrópska liðið með sigur af hólmi. Samtals hefur lið Bandaríkjanna unnið 5 sinnum og lið Evrópu 3 sinnum.

Líkt og í Ryder Cup þá er mikill hiti í Solheim Cup og gríðarleg stemning hjá því liði sem vinnur. Hin bandaríska Dottie Pepper þótti fagna um of árið 1998 og það fór illa í þær evrópsku. Sögur segja að eftir mótið hafi Annika Sorenstam, Laura Davies og Helen Alfredsson hengt mynd af Pepper á boxpúða og hamrað á henni þar frekar en út á velli (kannski sem betur fer því Laura Davies er í stærri kantinum). Annað frægt atvik gerðist árið 2000 þegar Sorenstam chippaði í fyrir fugli og sigri á holunni en þurfti að endurtaka höggið að beiðni mótherja síns þar sem Sorenstam var örlítið nær holu. Sú sænska chippaði aftur en tapaði og brast í grát.

Það er nokkuð ljóst að lítill vinskapur er á milli liðanna og miklar tilfinningar í gangi þegar á mótinu stendur. Þessar sterku tilfinningar koma af tvennu. Í fyrsta lagi teljast þær bandarísku mun betri en þær evrópsku og þær gera allt til að sanna það. Í öðru lagi finnst þeim evrópsku þær vera vanmetnar og vilja sýna það sem í þeim býr.

Solheim Cup hefur verið kallað “Ryder Cup með varalit”. Mótið er í stöðugri sókn og hefur náð meiri og meiri vinsældum síðustu ár. Ekki furða því að í allri þeirri aukningu sem er að eiga sér stað í golfíþróttinni er hún hlutfallslega mest í kvennagolfi. Kvennagolfið fær meiri athygli en áður, gott dæmi er Annika Sorenstam.

Lið Evrópu 2003 var svo skipað:

1 Annika Sorenstam (SWE)
2 Sophie Gustafson (SWE)
3 Elisabeth Esterl (GER)
4 Laura Davies (ENG)
5 Iben Tinning (DEN)
6 Ana B Sanchez (ESP)
7 Mhairi McKay (SCO)
8 Patricia Meunier Lebouc (FRA)
9 Suzann Pettersen (SWE)
10 Carin Koch (SWE)
11 Catriona Matthew (SCO)
12 Janice Moodie (SCO)

Lið Bandaríkjanna 2003 var svo skipað:

1 Juli Inkster
2 Rosie Jones
3 Beth Daniel
4 Laura Diaz
5 Michele Redman
6 Cristie Kerr
7 Meg Mallon
8 Angela Stanford
9 Kelly Robbins
10 Wendy Ward
11 Heather Bowie
12 Kelli Kuehne

Frekari upplýsingar um mótið má finna á: www.solheimcup.com
——————-