Davis Love III er búinn að vera óstöðvandi á þessu tímabili. Nú um helgina vann hann International golfmótið sem haldið var í Colorado. Hann leiddi frá fyrsta degi að þeim síðasta sem er mjög sjaldgæft. Þetta mót er talið stórt enda taka þátt helstu stjörnur golfheimsins (fyrir utan Tiger Woods sem er að undirbúa sig fyrir síðasta “majorinn” í ár).

Þetta var 18. sigur Love á PGA Tour og sá fjórði á þessu ári. Hann bætist því í hóp með Tiger Woods. Með sigrinum er Love orðinn efstur á peningalistanum með 5.1 milljón USD. Næsta mót er PGA Championship, síðasti risatitillinn í ár. Það er víst að baráttan verður á milli Davis Love og Tiger Woods.

International golfmótið er frábrugðið hinum mótunum því ekki er leikinn höggleikur. Spilað er punktakeppni þar sem 8 punktar fást fyrir albatros, 5 punktar fyrir örn, 2 punktar fyrir fugl, 0 punktar fyrir par, -1 punktur fyrir skolla og -3 punktar fyrir skramba eða verra.

Í svona keppni sigrar sá sem fær flesta erni og fugla. Davis Love gerði einmitt það, fékk 20 fugla og 3 erni. Love endaði mótið með 46 punkta (36 pkt. eftir 36 holur) en næstu menn voru Vijay Singh og Retief Goosen með 12 punktum minna. Aldrei hefur International mótið unnist með svo miklum mun. Love setti annað met á öðrum degi þegar hann fékk 3 erni á einum hring.

Með sigrinum færist Love nær því að vera valinn leikmaður ársins en Tiger Woods hefur hlotið þann heiður 4 ár í röð. Það er óhætt að segja að 2003 er ár Davis Love III.
——————-