Í gær laugardaginn 26. apríl opnaði völlur GKG í Garðabænum. Þar sem ég er klúbbmeðlimur í þessum ágæta klúbbi sló ég til og pantaði mér rástíma því auðvitað varð maður að prufa völlinn eftir svona langt frí og gá hvernig hann væri eftir veturinn (ef kalla skal vetur). Veðrið var frábært, sól, gola og hlýtt, tilvalið veður fyrir einn hring.

Völlurinn er iðagrænn en nokkuð blautur á stöku stað. Brautir 3, 13, 14 og 15 eru nokkuð blautar. Nýju grínin á vellinum sem komu í fyrrasumar eru orðin mikið mun betri og ég býst við að þessi grín verði frábær í sumar. Hinsvegar voru grínin mjög hæg og gróf. En eins og ég hef áður sagt var völlurinn iðagrænn og voru brautirnar mjög góðar þrátt fyrir smá bleytu þó að hún hafi ekki verið mikil.

Fyrsti hringur ársins tókst mjög vel og spilaði ég völlinn á 84 höggum eða 14 yfir pari (ég er með 15,8 í fgj). Nýi driverinn og nýju járnin mín voru að virka vel og ekki má gleyma pútternum. Miðað við þennan árangur leggst sumarið bara mjög vel í mig. En ég hef ekkert meira að segja um völlinn nema að þessi völlur er að sækja í sig veðrið og verður hann vonandi einn af bestu völlum landsins ef ekki sá besti eftir nokkur ár. Ég hvet alla til þess að fjölmenna í Garðabæinn til þess að spila völlinn.

Kveðja
Geithafu