Norska golfsambandið hefur lýst yfir áhuga á að nota allt efni sem Golfsamband Íslands hefur gefið út í tengslum við Skólagolf, átak sem miðar að því að efla kennslu og kynningu golfíþróttarinnar í grunnskólum landsins. Norðmennirnir hafa hug á að nýta efnið í heimalandi sínu með sömu markmið að leiðarljósi.
Höfundar Skólagolfs eru íþróttakennarinn Jón H. Karlsson og þroskaþjálfinn Magnús Birgisson. Báðir eru þeir golfkennarar. Jón stundar nú golfkennslu í Noregi og fékk fyrirspurn frá forráðamönnum norska sambandsins hvort mögulegt væri að nýta bækling og myndband GSÍ til að efla barna- og unglingastarf í Noregi. Golfsamband Íslands fagnar áhuga norska sambandsins og lítur svo á að hann beri vott um ágæti Skólagolfsins.