Innra sólkerfið
Í innra sólkerfinu má finna fjórar reikistjörnur sem allar eiga það sameiginlegt að þær eru samsettar úr föstu efni, ólíkt gasreikistjörnunum sem finna má í ytra sólkerfinu. Pláneturnar sem eru í innra sólkerfi eru Merkúríus, Venus, Jörðin og Mars. Allar þessar plánetur nema Merkúríus eiga það sameiginlegt að vera með fastan lofthjúp, en Merkúríus er svo nálægt sólu að það helst þar engin eiginlegur lofthjúpur. Innri reikistjörnurnar hafa fá eða engin tungl en hafa allar árekstrargíga og ýmis jarðfræðileg einkenni eins og sléttur, láglendi, hálendi, eldfjöll ofl. Algeng efni í þessum reikistjörnum eru málmar, járn (Fe) og nikkel (Ni) eru algeng efni í kjörnum þessara reikistjarna. Sú staðreynd að reikistjörnurnar eru allar úr föstum efnum hefur orðið til þess að þær eru oft kallaðar bergreikistjörnurnar eða á ensku ,,The Rocky Planets”. Í þessari ritgerð verður farið ítarlega í reikistjörnurnar hverja fyrir sig.

Merkúríus
Merkúríus er innsta (57,91km * 106 frá sólu) og minnsta reikistjarna sólkerfisins. Hún fær nafn sitt frá rómverskum sendiboða guðanna, sem er viðeigandi af því að hún reikar mjög hratt um himingeiminn. Tákn plánetunnar táknar vængjahjálm og vönd guðs. Vegna þess hve nálægt hún er sólu er mjög heitt á þeirri hlið sem snýr að sólu (uþb. 480° C), en algjör andstæða er hins vegar á þeirri hlið sem snýr frá sólu, en þar getur hitinn farið niður í -180° C. Eins og er nefnt hér að ofan er stjarnan mjög lítil, en er uþb. 4878 km í þvermál. Þrátt fyrir mjög litla stærð þá er stjarnan samt með mikinn massa (3,303 * 1023 kg), sem er ekki ósvipaður massa Jarðarinnar, sem er þó töluvert stærri stjarna. Merkúríus hefur engan eiginlegan lofthjúp en samt má finna þunnt lag ýmissa efna í kringum plánetuna, en þau efni eru: 42% natríum (Na), 42% vetni (H₂), 15% súrefni (O₂) og önnur efni.

Vegna mikils eðlismassa plánetunnar miðað við stærð er talið að innviðir hennar séu ríkir í járni. Talið er að járnið hafi sokkið niður að miðju plánetunnar og myndað stóran kjarna, eða um 1800 km í radíus, og er því 42% af rúmmáli Merkúríusar. Hugsanlegt er að ysta lag kjarnans geti enn verið bráðinn. Kjarninn er í miðju plánetunnar og er umlykinn af möttli. Hann er talinn vera að mestu úr kísli (Si), áli (Al) og súrefni (O), eins og í möttuli jarðarinnar. Möttullinn er talinn hafa kólnað hægt í gegnum tíðina og er að öllum líkindum storknaður þar sem engin jarðfræðileg virkni hefur átt sér stað síðustu 4 milljarð ára.

Yfirborð plánetunnar einkennist af mjög gömlum sléttum, sem þekja um 70% yfirborðs, en einnig er þar að finna mikið af loftsteinagígjum. Sumir þessara gígja eru svo djúpir að sólin nær aldrei að skína alveg ofan í þá, og talið er að þar geti mögulega leynst köldustu staðir sólkerfisins og jafnvel má telja að finnist þar vatnsís þar sem loftmyndir hafa sýnt fram á að þessir staðir eru óvenju bjartir. Einnig er hugsanlegt að í þessum gígjum sé hægt að finna gastegundir sem annars væru horfnar vegna nálægðar við sólu. Flestar sléttur á Merkúríusi mynduðust fyrir um 3,8 milljörðum ára og gígarnir mynduðust líklega um 700 milljónum ára eftir að reikistjörnurnar mynduðust. Þeir koma til vegna loftsteina sem féllu á reikistjörnuna. Einnig má finna ýmsar dældir á yfirborði Merkúríusar og er þá vert að nefna Kalorisdældina, en hún er um 1550 km í þvermál, sem er stærra en Texas fylki Bandaríkjanna. Talið er að dældin hafi myndast fyrir um 4 milljörðum ára og loftsteinninn sem myndaði dældina braut sig í gegnum yfirborðið þannig að brot úr loftsteininum og plánetunni þeyttust yfir allt nágrennið. Höggbylgjurnar sem fylgdu í kjölfarið mynduðu risastóra fjallagarða á víð og dreif og þessi árekstur hafði þau áhrif að eldvirkni hófst á ný, þannig að hraun flæddi ofan í dældina og aðra staði á plánetunni, en sú eldvirkni hætti fljótlega.

Venus
Venus dregur nafn sitt af rómverskri gyðju ásta og fegurðar, sem er einstaklega viðeigandi vegna þess hve falleg stjarnan er á himinhvelfingunni. Tákn hennar táknar spegil gyðjunnar og er einnig líffræðitáknið fyrir kvenkyn. Venus er oft nefnd systurpláneta Jarðar vegna hve svipaðar þær eru í stærð og massa, auk þess að þær hafa svipaðan aðdráttarkraft. Þessi sameiginlegu einkenni Venusar og Jarðar fengu fólk til þess að telja í langan tíma að líf gæti fundist á plánetunni. Við nánari athugun eru pláneturnar þó ólíkar að mörgu leyti, en eins og er vitað í dag er ekkert líf á plánetunni. Venus er önnur pláneta frá sólu (108,20 * 106) og það er mjög heitt á henni, en meðalhiti yfirborðs er um 460°C. Plánetan er svipuð Jörðinni í stærð, en þvermál hennar er 12.104 km. Einnig hefur hún svipaðan massa og Jörðin, en massinn er 4,869 * 1024 kg. Venus hefur mjög sérstakan lofthjúp en 96% hans er samsettur úr koltvíoxíði (CO₂), en þar má einnig finna 3,5% nitur (N2) og ýmis önnur efni eins og vatn (H₂O), argon (Ar) ofl.

Innri gerð Venusar er talin vera mjög svipuð innri gerð Jarðar. Kjarninn skiptist í innri og ytri kjarna. Innri kjarninn er talinn vera úr málmríku, föstu bergi og ytri kjarninn er að öllum líkindum úr bræddu málmríku bergi. Utan um kjarnann liggur möttullinn sem nær um skorpu plánetunnar og talið er að hann sé að hluta til bráðinn og úr svipaðri efnasamsentningu og möttull Jarðar. Ekkert flekarek finnst þó á plánetunni eins og finnst hér á Jörðu, þar sem skorpan er of þétt, líklega vegna þess að of lítið vatn er í skorpunni. Þetta þýðir að skorpan myndar í raun einn stórann fleka.

Yfirborð Venusar er mjög flatt, en um 80% yfirborðsins er þakið hraunsléttum. Gögn frá Pioneer Venus og Magellan geimförunum sýna að það má skipta yfirborði Venusar í þrennt; sléttur, láglendi og hálendi. Munurinn á hæsta og lægsta punkti yfirborðs er aðeis um 13 km. Gríðarlegur þrýstingur er við yfirborð Venusar, 90 sinnum meiri þrýstingur en við yfirborð sjávar á Jörðu. Margar víðamiklar dældir finnast á plánetunni, t.d. Atlanta Planitia, Guinevere Planitia og Lavinia Planitia. Það eru eldfjöll á Venusi en ekki er vitað hvort þau séu virk. Elstu landsvæði Venusar virðast vera um 800 milljón ára gömul en mikil eldvirkni frá þeim tíma hefur hulið eldra yfirborð og fyllt marga gíga sem hafa myndast á plánetunni. Tvö áberandi hálendissvæði er að finna bæði norðan og sunnan miðbaugs, en á norðurhveli er Ishtar Terra hálendissvæðið en það er á stærð við Ástralíu. Stærsta fjallagarð plánetunnar má finna á þessu hálendissvæði og nefnist hann Maxwell fjallagarðurinn. Hæð hans er um 11 km að meðaltali. Á suðurhveli er hálendissvæðið Afródíta Terra að finna, sem er álíka stórt og Suður Ameríka. Fáir gígar eru á yfirborði Venusar sem gefur til kynna að yfirborðið sé ungt. Eitt athyglistverðasta kennileiti á yfirborði plánetunnar eru pönnukökueldfjöllin svokölluðu sem eru útbrot mikils og þykks hrauns sem hefur fallið saman yfir stórum kvikuþróm.

Lofthjúpur Venusar er eflaust athyglisverðasta kennileiti plánetunnar en hann er mjög þykkur og að mestu leyti úr koltvíoxíði sem gerir það að verkum að mjög mikil gróðurhúsaáhrif eru til staðar á plánetunni. Hann nær um það bil 50 km frá yfirborði. Þykk ský hylja plánetuna og þessi skýjahula skiptist í 3 lög. Lagið næst plánetunni er þéttast og inniheldur mikið af brennisteinssýru sem rignir í dropum á yfirborðið. Dropunum fækkar þegar ofar dregur og eru fáir í efsta laginu. Við yfirborðið færist lofthjúpurinn afar hægt og er í takt við snúning plánetunnar. Hærra uppi í lofthjúpnum blása sterkir vindar í vestur og fara um plánetuna einu sinni á hverjum fjórum jarðardögum. Skýjin endurspegla flesta sólargeisla aftur út í geiminn sem gefur plánetunni mest af sínum rauða lit.

Jörðin
Jörðin er þriðja reikistjarnan frá sólu (149,60km * 106 km frá sólu) og er sú stærsta í innra sólkerfinu (12712,4 km í þvermál). Plánetan hefur eitt fylgitungl sem við köllum einfaldlega Tunglið. Jörðin á sér mikla sérstöðu í sólkerfinu en ýmsir hlutir skilja hana að frá hinum plánetunum, t.d. fyrst og fremst líf, ferskvatn og höf, flekarek, mikil eldvirkni, veðrun, sterkt segulsvið og svo lengi mætti telja. Nafnið kemur frá engil-saxneska orðinu “Erda” sem þýðir jörð, mold eða jarðvegur. Tákn Jarðarinnar er hringur með krossi inni í, sem táknar höfuðáttirnar fjórar. Meðalhiti yfirborðsins er í kringum 19° C. Aðalefni lofthjúpsins okkar er: 78,1% nitur (N₂), 20,9% súrefni (O₂) og 1% aðrar lofttegundir. Massi Jarðarinnar er 5,9742 * 1024 kg.

Innri gerð Jarðarinnar er samsett úr innri og ytri kjarna og síðan möttli sem nær að jarðskorpunni. Kjarninn er samtals um það bil 7000 km í þvermál. Innri kjarninn er úr föstu bergi og samsettur úr járni (Fe) og nikkeli (Ni). Hitinn þar er gífurlegur og er jafnvel talinn vera meiri en á yfirborði sólarinnar. Ytri kjarninn er fljótandi og að mestu einnig samsettur úr járni og nikkeli. Mötullinn liggur frá um 2800 km dýpi og alveg að jarðskorpunni og er að mestu samansettur úr magnesíumi (Mg) og járni. Möttullinn er að miklu leyti fastur, en á sumum stöðum er hann að hluta bráðinn. Á 100-200 km dýpi er möttullinn deigur vegna snöggra hita- og þrýstingsbreytinga, þetta kallast deighvel og gegnir mikilvægu hlutverki í t.d. flekareki jarðar.

Yfirborð Jarðar skiptist í úthafs- og meginlandsskorpu. 70,8% jarðskorpunnar er hulin ferskvatni og sjó. Eitt stærsta séreinkenni plánetunnar er það að á flestum stöðum er allt iðandi í lífi. Landslag er mjög fjölbreytt, en ofansjávar er að finna allt frá stórum fjöllum, kæfandi eyðimörkum, frjósömum skógum ofl. Jörðin skiptist í sjö stóra fleka sem fljóta um á möttlinum og mynda flekarek. Flekarekið veldur síðan því að jarðskorpan færist niður í möttulinn og eyðist upp við flekamót, þá skapast ný jarðskorpa með tilheyrandi eldgosum.

Við árekstur tveggja meginlandsfleka myndast stærstu fjallgarðar jarðarinnar, t.d. mynduðust Himalaya fjöllin við slíkan atburð. Stærsta fjall jarðarinnar er að finna í Himalaya fjallgarðinum, en það er Mount Everest sem nær 8848 km frá sjávarmáli. Neðansjávarlandslag er mjög fjölbreytt, þar má t.d. finna fjöll, neðansjávareldfjöll, sléttur, dældir ofl. Ef yfirborð Jarðar er borið saman við yfirborð annarra reikistjarna er athyglistvert að hér eru mjög fáir loftsteinagígar. Ástæðan fyrir því er að eldvirkni og rof eru mjög virk og hafa fyllt upp í eða veðrað flest alla loftsteinagíga sem myndast hafa í jarðsögunni.

Jörðin hefur einnig það séreinkenni að vera með mjög flókið segulsvið en það er talið eiga upptök sín í ytri kjarnanum. Ástæðan fyrir því er að hraður snúningstími jarðar og rafstraumar sem myndast í kjarnanum. Segulsviðið umlykur alla jörðina og er í samræmi við snúningsás hennar. Segulpólarnir tveir eru ekki alveg á sama stað og jarðfræðilegu pólarnir, og breytast hægt með tímanum. Hlutverk segulsviðsins er að mynda vörn í kringum jörðina frá skaðlegum áhrifum sólvinda. Segulsviðið hefur minnsta virkni í kringum Norður- og Suðurpólinn, og þar sleppur hluti agnanna í gegn og veldur Norðurljósum.

Lofthjúpur Jarðarinnar er afar þunnt gaslag sem umlykur reikistjörnuna. Hann er að mestu leyti úr nitri og súrefni. Þessi gasblanda nefnist í daglegu tali andrúmsloft og myndaðist að líkindum fyrir tilstilli eldfjallagufa snemma í jarðsögunni. Lofthjúpurinn er viðkvæmasti en um leið mikilvægasti hluti jarðarinnar. Hann ver lífið gegn skaðlegri geislum frá sólinni og geimnum og heldur hitastiginu jöfnu. Án hans væri líf á jörðu óhugsandi.
Lofthjúpurinn er lagskiptur og skiptist í: veðrahvolf, heiðhvolf, miðhvolf og hitahvolf. Veðrahvolfið er næst yfirborði og nær að minnsta kosti upp um 11 km. Hitastigið fer frá 18° næst yfirborði og fer niður í -55° við efri mörk. Innan þess verða flest veðurbrigði jharðar. Heiðhvolfið nær upp í 50 km hæð, hitinn fer hækkandi þar og nær mest um 0° við efstu mörkin. Ósonlagið er að finna að mestu í þessu hvolfi. Miðhvolfið nær upp í 85 km. Flestir loftsteinar brenna upp í þessu hvolfi. Hitahvolfið nær upp í allt að 640 km hæð, hitastigið þar fer hækkandi þar sem gastegundir í hvolfinu gleypa í sig sólarorku.

Mars
Mars er fjórða reikistjarnan frá sólu en hún er í 227,9 * 106 km fjarlægð. Á Mars er frekar kalt, vegna þess hve langt hún er frá sólu en hitinn fer frá -125°C til 25°C. Hún er minni en Jörðin og er 6780 km í þvermál. Mars dregur nafn sitt frá rómverska guði stríðs. Tákn reikistjörnunnar, hringur með ör sem bendir upp út frá hringnum, er stjörnuspekilegt tákn Mars. Táknar það skjöld og spjót sem rómverski guðinn Mars átti og notaði. Táknið er einnig þekkt í líffræði og lýsir karlkyni. Massi Mars er 6,421 * 1025 kg. Aðalefni lofthjúpsins eru 95,32% koltvíoxíð (CO), 2,7% nitur (N), 1,6% argon (Ar) og 0,13% súrefni (O).

Vegna fjarlægðar frá sólu kólnaði Mars mun hraðar en Jörðin og því eru kenningar um að kjarninn sé aðeins að hluta til bráðinn, eða alveg fastur. Eðlismassi kjarnans er lítill miðað við aðrar plánetur og því er talið að hann sé úr léttari frumefnum eins og súlfíði, þá í formi járnsúlfíðs, og einnig brennisteini. Þykkur möttull úr sílikati umlykur kjarna plánetunnar. Áður fyrr var mikil eldvirkni í möttlinum. Úr honum steig kvika upp á yfirborðið sem myndaði meðal annars öll eldfjöllin á plánetunni. Talið er að flekahreyfingar hafi átt sér stað fyrstu 500 milljón árin. Ástæðan fyrir stærð eldfjallana á Mars er vegna þess að heitu reitirnir héldust á sama stað í milljónir ára og því náðu gosefnin að hlaðast upp eins og raun ber vitni um. Engin eldvirkni virðist þó vera í möttlinum núna, og því er talið að hann sé óvirkur. Jarðskorpan er misþykk eftir hvelum, en á suðurhvelinu er hún að meðaltali 80 km þykk en á norðurhvelinu aðeins um 35 km þykk.

Eins og aðstæður eru í dag á Mars getur vatn ekki runnið þar í fljótandi formi, en þó finnst vatn á báðum heimskautasvæðunum, einnig er það í miklu magni sem sífreri undir yfirborðinu víða um reikistjörnuna. Víða á yfirborðinu finnast ótvíræð ummerki fljótandi vatns á borð við uppþornuð stöðuvötn, strandlínur og árfarvegi. Þetta bendir allt sterklega til þess að vatn hafi einhverntíman runnið um reikistjörnuna. Uppþornaðar vatsnrásir finnast víða á hálendissvæðum suðurhvelsins en á fremur fáum stöðum á láglendi norðurhvelsins.

Lofthjúpur Mars er örþunnur og er að mestu leyti úr koldíoxíði, nitri og argoni en auk þess finnast önnur efni í minna magni. Vegna vísbendinganna um fljótandi vatn á yfirborði má telja að lofthjúpurinn hafi eitt sinn verið þykkari og hlýrri.

Heimildaskrá

David Hughes, Ian Ridpath, Robert Dinwidde og fleiri. The Universe. 2007.

Stjörnufræðivefurinn. Jörðin. http://stjornuskodun.is/forsida/38-solkerfi/81-joerein
Skoðað 11.10.08

Stjörnufræðivefurinn. Merkúríus. http://stjornuskodun.is/forsida/38-solkerfi/79-merkurius
Skoðað 11.10.08

Stjörnufræðivefurinn. Venus. http://stjornuskodun.is/forsida/38-solkerfi/80-venus
Skoðað 10.10.08

Sævar Helgi Bragason, Vísindavefur Háskóla Íslands. Getið þið sagt mér eitthvað um Venus?
http://visindavefur.is/svar.php?id=2254
Skoðað 10.10.08

Vilhelm Sigmundsson. Nútíma stjörnufræði – frá sólkerfinu okkar til vetrarbrauta og endamarka alheimsins. 2007.

Wikipedia – The Free Encyclopedia. Astrological symbols. http://en.wikipedia.org/wiki/Astrological_symbols
Skoðað 12.10.08

Wikipedia – The Free Encyclopedia. Earth. http://en.wikipedia.org/wiki/Earth
Skoðað 10.10.08

Wikipedia – The Free Encyclopedia. Mercury.
http://en.wikipedia.org/wiki/Mercury_(planet)
Skoðað 11.10.08

Wikipedia – The Free Encyclopedia. Solar System – Inner Solar System. http://en.wikipedia.org/wiki/Solar_system#Inner_Solar_System
Skoðað 12.10.08

Wikipedia – The Free Encyclopedia. Venus. http://en.wikipedia.org/wiki/Venus
Skoðað 10.10.08

ATH:
Þetta er ritgerð sem ég gerði í stjörnufræði. Hún er eflaust ekki gallalaus og það má eflaust gagnrýna hana að mörgu leyti, en þetta er grunnáfangi og ég er í þessu sem valfagi á útskriftarönn þannig það má ekki segja að ég hafi eytt mikilli orku í þessa ritgerð :P Ég fékk nú frábæra einkunn og fæ að sleppa lokaprófinu í áfanganum þannig ég er bara mjög sátt :) Langaði bara til að deila þessu hérna með ykkur og kannski skapa einhverja umræðu, þar sem áfanginn hefur vakið áhuga minn á efninu.