Fyrir um ári síðan var ég í stjörnufræði og skrifaði þar nokkrar ritgerðir (flestar stuttar), ég ákvað að grípa tækifærið þar sem greinasamkeppnin er í gangi og senda inn eina af þessum ritgerðum.

Um Venus:
Venus er önnur pláneta frá Sólinni okkar. Hún ferðast umhverfis sólina í um 108,2 milljón km fjarlægð frá Sólinni.
Þar sem Venus er um 94,5% stærð Jarðar, eða um 12.103 km í þvermál, og um 81,5% massa Jarðar, eða um 4.8685 x 1024 kg (4.868.500.000.000.000.000.000.000 kg), er oft talað um Venus sem tvíbura Jarðarinar.

Eitt ár á Venusi eru um 224,7 jarðar dagar en einn Venus dagur er 5832 klst (eða um 243 jarðar dagar) sem þíðir að árið er styttra en dagurinn.
Venus hefur lítinn halla á möndli sínum, um 2,64° meðan jörðin hefur 23,5°.Hinsvegar er snúningur Venusar um möndul sinn öfugur miða við aðrar plánetur. Sú skýring sem menn telja líklegasta til að útskýra snúning Venusar er árekstur við aðra plánetu.

Nafngiftin:
Venus dregur nafn sitt af gyðju ástar og fegurðar úr rómverskri goðafræði og talið er að hún fái þetta nafn vegna þess hve björt og falleg á litin hún er ef litið er á hana frá jörðu. Venus er bjartasta pláneta á himninum þegar hún sést.

Hinsvegar á nafnið alls ekki við ef menn skoða plánetuna nær, þá sjá þeir bannvænt umhverfi; hita allt uppí 462°C, kolefnisríkt andrúmsloft, mettað af brennisteinssýru og mjög mikinn þrýsting (um 90 sinnum meiri þrýsting en við yfirborð jarðar).

Lofthjúpur Venusar:
Á Venusi er öflugt vindakerfi, um 83 m/s vindur efst í lofthjúpnum en aðeins örfáir metrar við yfirborðið.

Í lofthjúp Venusar eru líka ský. Þau eru aðalega úr brennisteinssýru í efstu lögum lofthjúpsins en úr brennisteinsoxíði neðar í skýja breiðunum. Þar sem skýin umlykja alla plánetuna er erfitt að sjá yfirborð venusar og hafa vísindamenn því tekið uppá því að nota radar til að kortleggja yfirborð Venusar. Einnig er ekki hægt að sjá stjörnur eða Sólina frá yfirborði Venusar.

Innri gerð Venusar:
Vegna fárra gíga er talið að yfirborð Venusar sé ungt, vísindamenn telji að Venus hafi verið mjög eldvirk fyrir um 300-500 milljónum ára síðan og að þá hafi yfirborð Venusar allt endurnýjast með basalthrauni. Engin eiginleg gögn eru um innri gerð Venusar en menn telja að Venus sé svipuð og jörðin að innan. Innst inni er fastur járnkjarni og því næst tekur bráðinn járn og nikkel kjarni við og því næst bergmötull, yst er svo jarðskorpan sem talin er að sé þykkari en jarðskorpan okkar hér á Jörð. Venus hefur ekkert segulsvið sem gæti stafað af hægum snúning Venusar.

Tungl Venusar:
Árið 1672 fann Giovanni Cassini lítinn hlut nálægt Venusi sem hann sýndi ekki mikin áhuga fyrr en hann sá það aftur 1686, þá taldi hann að þessi hlutur væri tungl Venusar. Hann kallaði þennan hlut Neith. Í dag er vitað að Venus hefur ekkert tungl. Neith var bara stjarna sem var miklu lengra í burtu en var bara á réttum stað til að plata Giocanni Cassini.

Rannsóknir á Venusi:
Þrátt fyrir það hvað Venus er nálægt okkur þá vitum við sáralítið um plánettuna. Yfir 20 rannsóknarför hafa lagt leið sína til Venusar í þeim tilgang að fræða okkur meira um þessa stórmerkilegu plánetu.

Mariner 2 flaug framhjá Venusi í desember 1962 og var það þá fyrsta farið til að fara framhjá Venusi. Mariner 2 mældi m.a. hita á Venusi og staðfesti sérkennilegan snúning Venusar sem áður var talað um.
En árið 1967 lenti sovíeska rannsóknarfarið Venera 4 á Venusi en það lifði aðeins örfáar mínútur á yfirborðinu áður en það kramdist sökum þrýstings. Alls fóru 16 sovíesk Venera för til Venusar á árunum 1961-1983.

Í dag eru menn ennþá að reyna að skilja Venus og vonast til að geta komist nær því að skilja okkar eigin plánetu og hvernig lífið kveiknaði hér á jörðu. Síðasta far sem skotið var til Venusar var Venus Express farið frá evrópsku geimstofnunarinnar (ESA) en það fór á loft í nóvember 2005. Vonast er til að Venus Express sveimi í kringum Venus í tvö ár og geri þar rannsóknir á lofthjúp og yfirborði Venusar. Vísindamenn vonast til að Venus Express geti fundið útskýringar á sterkum vindum Venusar og hvernig lofthjúpurinn virkar á Venusi og hvort jarðhræringar séu til staðar á Venusi.

Morgunstjarnan eða kvöldstjarnan:

Áður fyrr töldu menn að Venus væri tvær plánetur, annars vegar morgunstjarnan Eosphorus og hinsvegar kvöldstjarnan Hesperus. Þegar Venus sést í vesturhimni rétt eftir sólsetur er hún kölluð Hesperus en þegar hún sést í austurhimni um morgun er hún kölluð Eosphorus. Hinsvegar vissu grískir stjörnufræðingar að þetta var sama plánetan.


Takk fyrir.
kv. Gíslinn