Smástirnabeltið Gerði þess ritgerð einhvern tíman í vetur og ákvað að senda hana hingað inn líka.

Inngangur

Á því herrans ári 1772 setti þýski stjörnufræðingurinn Johann Elert Bode fram reglu. Þessi regla gaf ótrúlega nákvæmar tölur fyrir fjarlægðir reikistjarnanna frá sólu. Reglan er að taka talnarununa 0, 3, 6, 12, 24, 48, …, leggja fjóra við hverja tölu og deila með svo með tíu. Þá sést að útkoman er mjög nálægt raunverulegu fjarlægðinni, eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Reikniformúlan Útkoma formúlu Meðalfjarlægð Pláneta
(0 + 4)/10 —— 0.4 ————– 0,39 ———– Merkúr
(3 + 4)/10 —— 0.7 ————– 0,72 ———– Venus
(6 + 4)/10 —— 1.0 ————– 1,00 ———– Jörðin
(12 + 4)/10 —- 1.6 ————– 1,52 ———— Mars
(24 + 4)/10 —- 2.8 ————— — ————- Týnd reikistjarna?
(48 + 4)/10 —- 5.2 ————– 5,20 ———— Júpíter
(96 + 4)/10 —- 10.0 ————- 9,54 ———– Satúrnus
(192 + 4)/10 – 19.6 ————- 19,18 ———- Úranus
(384 + 4)/10 – 38.8 ————- 30,06 ———- Neptúnus
(768 + 4)/10 – 77.2 ————- 39,44 ———- Plútó

Reglan virkar ekki fyrir Neptúnus og Plútó eins og sjá má, en hvorug plánetan var uppgötvuð á tímanum sem reglan var sett fram. Hvers vegna þessi regla gengur svona upp veit enginn, en telja vísindamenn að um hreina tilviljun sé að ræða.
Eyðan milli Mars og Júpíter olli mönnum miklu hugarangri og töldu menn að þarna væri um týnda reikistjörnu að ræða og stofnuðu sex þýskir stjörnufræðingar hóp til að hefja leit að henni, og nefndu þeir sig í gríni himinlögregluna. Áður en leitin hófst, nánar tiltekið 1. janúar 1801, fengu þeir fregnir af því að ítalskur stjörnufræðingur hafi fundið plánetuna en þegar betur var gáð að kom í ljós að þessi hnöttur var of lítill til að vera reikistjarna. Þessi daufi hnöttur reyndist svo vera fyrsta smástirnið sem fannst í sólkerfinu og var það nefnt Seres. Ári seinna, 1802, fannst annar daufur hnöttur, Pallas, í svipaðri fjarlægð. Þessi hnöttur kom heldur ekki til greina þar sem hann var ennþá minni en Seres.
Vegna þessa var talið að þarna væru staðsettir fjölmargir litlir hnettir, tilkomnir af tvístraðri reikistjörnu milli Mars og Júpíters. Leitinni að reikistjörnunni var hætt og henni beint að þessum smástirnahópi. Ekki var hægt að kvarta undan árangri vegna þess að á árinu 1804 fannst annað smástirni, smástirnið Vesta og smástirnið Júnó fannst síðan 1807.
Þarna var staðsett smástirnabelti.

Meginmál

Sé þyngdarkraftur Júpíters ekki tekinn með í reikninginn sést að þarna hefði myndast fimmta innri reikistjarnan. Sé hann hins vegar tekinn með, eins og það er, næst ekki að myndast reikistjarna.
Þyngdarkrafturinn er nógu sterkur til að toga í reikisteina í beltinu og þeyta þeim úr sólkerfinu, eða hægja nógu mikið á þeim að þeir stoppuðu og féllu til sólar. Það gerðist með flesta steinana og afleiðingin varð að beltið nánast tæmdist áður en reikistjarna gat myndast þannig að þau stirni sem við sjáum í dag er aðeins brot af þeim stirnum sem upphaflega voru á braut um sólu. Athyglisvert væri ef einhvern tímann verður hægt að rannsaka svona stirni, vegna þess að í því gætu verið vísbendingar um efna- og eðlisfræðileg myndunarferli reikistjarnanna leynst.
Væri öllum smástirnunum hnoðað saman í einn hnött yrði hann rétt um 1.500 kílómetrar í þvermál. Samanborið við jörðina sem er um 13.000 kílómetrar í þvermál og tunglið sem er um 3.000 kílómetrar. Talið er að massinn væri einnig einungis um 1/20 af massa tunglsins og hefur stærsti hnötturinn, Seres, 30% massa alls smástirnabeltisins. Það er erfitt að mæla massa smástirna vegna þess að þau hafa enga fylgihnetti. Snúningstími smástirna er yfirleitt á bilinu fimm til tuttugu klukkustundir.
Það sem vefst þó enn fyrir stjörnufræðingum eru brautir smástirnanna, það er miðskekkja og halli í þeim miðað við sléttu sólkerfisins. Þetta skýrist ekki af þyngdarkrafti Júpíters, þó er talið líklegt að þetta stafi af smástirnum, sem mynduðust þarna, á stærð við Mars. Fræðingum finnst líklegt að litlu smástirnin hafi komið of nálægt þeim stærri og það hafi sett þau af braut.
Í dag þekkja menn brautir um 10.000 smástirna. Þrátt fyrir mikinn fjölda eru aðeins þrjú smástirni meira en 300 kílómetrar í þvermál. Þau Seres, sem er stærst, 930 kílómetrar, Pallas, sem er næst stærst, 522 kílómetrar, og Vesta, 510 kílómetrar.
Það eru 30 smástirni sem eru 200 – 300 kílómetrar í þvermál og um 200 sem eru meira en 100 kílómetrar í þvermál. Einnig er talið að 100.000 – 1.000.000 smástirni séu meira en einn kílómetri í þvermál. Meðalfjarlægð milli smástirna er í smástirnabeltinu er um tvöföld fjarlægðin milli tungls og jarðar, þannig að árekstrar eru sjaldgæfir.
Í hverjum mánuði eru fundnir tugir smástirna og fá þeir sem uppgötva smástirni að stinga upp á nafni á því, þó verður Alþjóðasamband stjarnfræðinga að samþykkja það.

Lokaorð

Smástirni eru lítil - innan við 1.000 kílómetrar - berg- og málm-kennd fyrirbæri í sólkerfinu sem hafa enga halastjörnuvirkni, ganga um sólina og eru ekki nógu stór til að teljast undir að vera plánetur. Oftast eru þau óreglulaga vegna þess að þyngdarkrafturinn er ekki nægur til að mynda kúlulaga hnött. Þau eru flest, um 75%, mjög dökkleit sökum kolefnissambanda á yfirborði þeirra og flokkast undir flokkinn „C” sem stendur fyrir „carbonaceous” eða kolefnakenndur, en hinir tveir stærstu smástirnahóparnir, S – „stony” eða bergkenndur og M – „metallic” eða málmkenndur, teljast um 20%, hafa bjartara yfirborð vegna annarrar efnasamsetningar.
Mest af okkar þekkingu á smástirnum kemur frá brotum sem falla á jörðina.
Oft hefur munað litlu á að smástirni í þessu belti rekist á jörðina en árið 1931 fór smástirnið 433 Eros framhjá jörðinni í 23 milljón kílómetra fjarlægð. Árið 1937 fór smástirnið Hermes fram hjá okkur í 900 þúsund kílómetra fjarlægð en minnstu munaði þegar smástirnið XM1 fór framhjá jörðinni í einungis 105 þúsund kílómetra fjarlægð.