Hugtakið „fljúgandi diskur“ eða „fljúgandi súpuskál“ („flying saucer“) á uppruna sinn að rekja til þess þegar orrystuflugmaðurinn Kenneth Arnold sá fljúgandi furðuhluti (FFH, UFO) 24. júní 1947 við Rainier fjall í Washingtonríki í Bandaríkjunum. Nokkrum dögum síðar eða þann 8. júlí 1947 birtist frásögn blaðamanns af atburðinum þar sem hann lýsti fyrirbærunum sem Kenneth sá sem „fljúgandi undirskálum“. Eftir þetta var orðið á allra vörum.
Það sem er sérstakt við frásögnina er að Arnold sagðist ekki hafa séð fyrirbæri sem líktust fljúgandi undirskálum heldur virtist honum þau frekar vera eins og bjúgverplar (búmeröng) eða í ætt við fljúgandi vængi (líkt og B-2 orrystuþotan). Misskilningur blaðamannsins felst væntanlega í því að Kenneth sagði að þessir furðuhlutir hefðu hreyfst upp og niður líkt og ef súpudiskur væri látinn fleyta kerlingar á vatnsfleti. Blaðamaðurinn Bill Bequette misskildi Kenneth og sendi frásögnina af atburðinum til Associated Press (AP). Brátt birtust frásagnir af „fljúgandi diskum“ í dagblöðum um gervöll Bandaríkin. Tveimur vikum síðar birtist hugtakið „fljúgandi undirskál“ í fyrsta sinn í blaðinu Times of London.
Kenneth Arnold reyndi að leiðrétta þennan misskilning sem kominn var upp en án árangurs. Enn þann dag í dag sjá margir fyrir sér geimfar sem lítur út eins og tvær súpuskálar sem skellt hefur verið saman þegar þeir heyra hugtakið fljúgandi furðuhlutur.
Lausleg þýðing af vefsíðunni Wordorigins.org
Mynd: Vetrarbrautin NGC 1381 minnir óneitanlega á fljúgandi furðuhlut!