Hér er smá útdráttur úr ritgerð sem ég gerði.
Nifteindastjörnur eru merkileg fyrirbæri sem sett var fyrst fræðilega fram árið 1934 en fyrsta nifteindastjarnan fannst síðan árið 1967.
Nifteindastjörnur myndast eftir sprengistjörnu ef lokamassinn eftir sprenginguna er frá 1,4 – 3 sólarmössum. Í því tilfelli gefur rafeindaþrýstingurinn eftir en þá þjappast rafeindir og róteindir saman og mynda nifteindaakúlu sem er aðeins 10-15km í þvermál. Útaf þessum mikla þéttleika efnisins er lausnarhraði nifteindastjarna ná næst mesti sem þekkist eða um 1/3 til hálfur ljóshraðinn. En sterki kjarnakrafturinn kemur í veg fyrir frekari samþjöppun, en ef það gerist verður til svarthol.
Nifteindastjörnur snúast nokkur hundruð hringi á sekúndu vegna varðveislu hverfiþungans og einnig varðveitist segulfæðið svo segulsviðsstyrkurinn er verulega mikill. Því hafa nifteindastjörnur öflugasta segulsviðið sem þekkist eða um 10^8 Tesla en til samanburðar er segulsviðið á jörðinni um 5*10^-5 T.
Innri gerð nifteindastjarna er nokkuð sérstök en má skipta í innri kjarna, ofurflæðandi vökva (ytri kjarna) og skorpu. Innri kjarninn er nokkuð stór og er líklega úr nifteindum(en hugsanlegt er að kjarinn sé úr kvörkum!). Hitinn í kjarnanum hár, eða um 100 milljón K og eðlismassinn er um 10^15 g/cm3. Ytri kjarninn er ofurflæðandi vökvi en þar flæða án núninings róteindir, rafeindir. Þessi „vökvi“ er einnig mjög eðlisþungur og myndi ein teskeið af honum vega 10 milljarða tonna. Utar kemur „skorpa“,sem skiptist í innri og ytri skorpu. Í innri skorpunni eru ofurflæðandi nifteindir, rafeindir og þungir frumeindakjarnar s.s. krypton en í ytri skorpunni er rafeindasjór og frumeindakjarnar, s.s. járnsamsætur.
Stjörnuskjálftar eiga sér stað í skorpunni en ofurflæðandi vökvinn veldur þeim í tifstjörnum en í segulstjörnum er það segulsviðið sem veldum þessum skjálftum.Yfirborð nifteindastjarna er slétt og stöðugt en yst er „lofthjúpur“ úr heitu plasma og nær lofthjúpurinn frá nokkurra cm til eins metra hæð. Nifteindastjörnur eru því ekki einungis úr nifteindum, því annars væri ekkert segulsvið enda hafa nifteindar enga hleðslu.
Tifstjörnur(e. pulsar) eru algengustu nifteindastjörnurnar en fyrsta tifstjarnan og jafnframt fyrsta nifteindastjarnan fannst árið 1967 af Anthony Hewish og Jocelyn Bell en þeir greindu reglulegar útvarpsbylgjur sem komu frá Krabbaþokunni sem er í 6000 ljósára fjarlægð. Fljótlega var ályktað að þar væri hnöttur sem snerist mjög hratt og gæfi frá sér geisla, en aðeins nifteindastjörnur gætu hafa haft nóg þyngdarafl til að snúast svo hratt og jafnframt haldast saman. Reyndist tifstjarnan vera eftir sprengistjörnu sem sást árið 1054 og mun hafa sést í 653 nætur, þar af í 23 daga að degi til.
Tifstjörnur senda frá sér mjög reglulega púlsa útfrá segulásnum og eru því einsog vitar.
En þessi útgeislun tifstjarna er á kostnað snúningsorku svo það hægir smám saman á snúningnum, en snúningstíminn lengist ekki nema um 10^-12 til 10^-19s á öld og því geta tifstjörnur lifað í hundruð milljón ára.
Önnur gerð nifteindastjarna eru segulstjörnur (e. Magnetars) sem eru talsvert frábrugðnar hinum venjulegu tifstjörnum en það helsta sem einkennir þær er mjög sterkt segulsvið sem er 10^11 Tesla sem orsakast af miklum snúningshraða sem er allt að 1000 snúningar á sekúndu. Yfirborð segulstjarna er mjög óstöðugt vegna segulkraftsins sem hefur mikil áhrif á skorpuna, sem lætur undan og veldur það miklum stjörnuskjálftum en við það verður bæði til sterk Gamma- og Röntgengeislun. Líftími segulstjarna er hins vegar stuttur vegna þess að hin mikla útgeislun hægir hratt á snúningnum og veikir segulsviðið, svo að á aðeins 10 - 20.000 árum verður segulstjarnan líflaus.