Ég var að horfa á frábæra þætti um upphaf heimsins og langar að deila með ykkur pælingum mínum. Ég vil taka það fram að ég er enginn geimvísindamaður svo ekki skamma mig voða mikið ef ég fer ekki rétt með.
Í stuttu máli þá tala vísindamenn víst um að heimurinn samanstandi af atómum, aðdráttarafli og hinu undarlega svarta efni*, eða dark matter eins og þeir kalla það á enskunni.
Þeir hafa nú komist að því að þetta óskilgreinanlega svarta efni spannar ein 85% af geimnum. (Smá útúrsnúningur: Ef við drægjum 85 frá hundraði fengjum við út 15, ekki satt ;) ? Svo er þá óhætt að segja að við höfum nokkra þekkingu á sirka 15% geimsins? híhí)
En það sem sló mig þegar ég horfði á þennan þátt var það hvernig þeir lýsa þessu svarta efni. Fyrst er þeir töluðu um atómin og orkuna sem heldur þeim saman og þvíumlíkt, virtust þeir hafa ótrúlega mörg svör á takteinum og virkuðu sannfærðir um réttmæti þess sem var rætt. En þegar kom að svarta efninu virtist sem allt loft væri úr þeim og þeir viðurkenndu að þeir vita (nánast) ekkert um það. Allt sem þeir gátu sagt um þetta efni var að það væri einhvers konar orka og að án þess væri ekkert til. Efnið væri sem sagt orka sem heldur öllu saman. Það svífur víst í gegnum okkur, undir og yfir og er partur af öllu í veröldinni.
Það var eitthvað í lýsingum vísindamannanna á svarta efninu sem kveikti í mér. Skyndilega flaug í hausinn á mér fyrirbærið eða hugmyndin andi! Lýsingarnar þeirra minntu mig á anda, einhvers konar verund eða tilvist eða orkuna sem hreinlega felst í því að vera.
Nú má vera að sumum hér þyki þetta algjör della, og já mér ætti sennilega einnig að finnast það eftir allt mitt heimspekibrolt, en þetta kom sér bara svo sérlega vel fyrir í huga mínum.
Sá andi sem ég hef í huga er ekki endilega sá sem við þekkjum eftir viðteknum skilgreiningum á anda sem slíkum. Ekki mannsandi, hvað sem það nú er, eða guðlegur andi, heldur andi sem er eins og ég sagði áður, einhvers konar lífskraftur eða verund. Menn geta svo kallað hann þeim nöfnum sem þeir vilja, guð, náttúra, eða hvað annað sem hentar.
Af pælingum vísindamanna um svarta efnið að dæma mætti skilja veröldina sem eitt heljarinnar síflæðandi orkuhaf. Meira að segja við menn erum ekkert nema gangandi steinefnis- og rafkarlar smíðaðir úr stjörnum.
Er þá andinn eða tilvistin sjálf ekki falin í þessu svarta efni? Mér fannst bara eins og þarna væri loks komin einhver ákveðin óáþreifanleg heild eins og tilvistin, einhver undirliggjandi orka, andi og líf.
Jæja ég veit ekki hvort nokkuð vit er í þessum pælingum mínum, enda ætlunin ekki sú að varpa einhverju fram heldur deila með ykkur vangaveltum. Ég hefði gaman af að heyra ykkar álit.
Ég get samt ekki útskýrt alveg hvað gerðist í huga mínum þegar ég horfði á þennan þátt, það var bara sem minn gamli góði efasemdahugur hefði loks komið löngutíndu púsli á sinn stað.
Kær kveðja,
Persefone
*Vona þetta sé rétt þýðing hjá mér.