Fyrir skömmu greindi evrópska geimvísindastofnunin (ESA) frá nýjum niðurstöðum Fourier-litrófsmæli Mars Express geimfarsins, sem renna stoðum undir þá von manna að litlir örveruhópar gætu þrifist undir yfirborði Mars. Gögnin sýna að vatnsgufa er í lofhjúpnum um 10-15 km fyrir ofan yfirborðið, en yfir þremur breiðum svæðum við miðbaug - Arabia Terra, Elysium Planum og Arcadia Memnonia - er hún nær yfirborðinu og í mun meiri mæli. Þessi svæði liggja ennfremur yfir vatnsíslögum sem Mars Odyssey geimfar NASA fann og eru fáeina sentímetra undir yfirborðinu. Við nánari athugun hefur einnig komið í ljós að metan finnst einnig í meiri mæli á þessum svæðum. Þetta bendir til sameiginlegs uppruna undir yfirborðinu. Einhver uppspretta - líffræðileg eða jarðfræðileg - hlýtur að endurnýja gasið stöðugt því metan brotnar hratt niður í lofthjúpi Mars, svo tilvist þess veldur mönnum miklum heilabrotum.
„Á hvorn veginn sem er, eru þetta spennandi niðurstöður, en mig langar að sjá gögnin“, sagði Michael J. Mumma, sem fyrstur fann metan í lofthjúpi Mars árið 2003. Mumma bendir á að litrófsgögnin sýni einungis eina línu sem tákni metan og það gæti hafa verið greint fyrir mistök. Línan gæti verið af völdum vatnsgufu eða einhvers annars efnasambands.
Verði niðurstöðurnar staðfestar, gætu það hugsanlega verið merki um líffræðilega virkni. „Ef metanið hefur líffræðilegan uppruna, myndi maður búast við því að vatnsgufa losnaði líka,“ segir Mumma. Metangasið gæti einnig verið afleiðing jarðvarma eða hægri losun metansameinda sem lengi hafa verið í ísnum. „Jarðvarmavirkni yrði að vera á a.m.k. eins km dýpi til að geimförin næðu ekki að greina hana,“ segir Mumma og bætir við að fundur annarra gastegunda gæti hjálpað til við að leysa ráðgátuna um metanið.
Í fréttatilkynningu frá ESA segir að litrófsmælirinn hafi fundið merki um aðrar gastegundir í lofthjúpnum en ekki hefur verið skýrt frá því nánar. Frekari rannsókna er þörf til að skilja þetta allt saman betur.
<b>Vísbendingar um vatnstap</b>
Á sama tíma hefur annað mælitæki Mars Express, ASPERA-3, sem mælir víxlverkun sólvindsins við lofthjúp Mars, komist að því að eitt kílógramm af gasi losnar á hverri sekúndu úr lofthjúpi Mars.
Mars verður stöðugt fyrir flóði hlaðinna agna frá sólinni, þ.e. sólvindinum svokallaða sem er úr rafgasi. ASPERA-3 hefur komist að því að sólvindurinn streymir í gegnum jónahvolfið og djúpt inn í lofthjúp Mars, allt niður í 270 km hæð yfir yfirborðinu. Þegar þetta gerist losna rokgjarnar gastegundir og vökvasambönd úr lofthjúpnum og virðist þetta ferla eiga sök á þunnum lofthjúpi og vatnstapi reikistjörnunnar.
<b>Mars Global Surveyor myndar slóð Spirit</b>
Mars Global Surveyor geimfarið heldur áfram að gleðja augu vísindamanna eftir að hafa verið sjö ár í geimnum og kortlagt Mars í fimm ár. Fjöldi mynda er nú kominn upp í 170.000 og enn bætist í safnið. Nú síðast tók geimfarið ótrúlega mynd af lendingarsvæði Marsjeppans Spirit með 50 cm upplausn á hverja myndeiningu. Á myndinni sést Spirit sem dökkur díll á yfirborðinu við Bonneville-gíginn og þunna dökka slóð sem liggur að lendingarfarinu.
Það þarf flókið ferli til að taka mynd af þessu tagi. Hún var tekin eftir að geimfarinu var snúið í heild sinni og snúningshraði þess látinn samsvara snúningshraða yfirborðsins undir, þ.e. snúningshraða Mars. Geimfarið ferðast 200 km á hverri sekúndu svo um afar vandasamt verk er að ræða, enda þarf myndavélin að hitta hárréttan stað á yfirborðinu á nákvæmlega réttu augnabliki. Niðurstöðurnar eru ekki alltaf jákvæðar enda hefur þetta verið reynt þrisvar sinnum áður (tvisvar í mars og einu sinni í júní) en án árangurs.
Fleiri fréttir af Mars og öðrum fyrirbærum himingeimsins er að finna á Stjörnufræðivefnum <a href="http://www.stjornuskodun.is“ target=”_blank">www.stjornuskodun.is</a>.