Núna á dögunum lýsti forseti Bandaríkjanna því yfir að stefnan hafi verið sett á að senda mannað geimfar til Mars. Hef verið nokkuð hugsi yfir þessari stefnumótun. Ég er þeirrar skoðunar að það skili okkur alltof litlu til að réttlæta kostnaðinn við hana. Mun meiri hagur er að halda áfram að þróa geimþjarka tækni (róbóta) við að kanna yfirborð Mars. Markmiðið væri að byggja um háþróað þjarkasamfélag sem byggir á gríðarlegri gervigreind, aðlögunahæfni og samskiptum manns og tölvu.
Það að senda mannað geimfar til Mars skilar hlutfallslega litlu til geimferða og enn minna fyrir daglegt líf okkar hér á jörðinni. Fyrir utan framlag til aukinnar þekkingar á geimnum og geimkönnun þá má réttlæta kostnað vegna geimferða í tækni sem má nota beint á jörðu niðri. Ég er ekki að sjá að lending mannaðs geimfars á Mars sé að skila sér í mikilli tækni og aukinni þekkingu fyrir okkur á jörðinni. Uppbygging geimþjarkanýlendu á Mars myndi hins vegar skila okkur gríðar mikilli þekkingu og tækni, sem nýtist okkur á mörgum sviðum.
Rannsóknir á gervigreind myndi fleygja fram. Þróun á róbótum sem eru færir um að læra, aðlagast nýjum kringum og taka sjálfstæðar ákvarðanir myndu margfaldast. Ekki síður myndi tækni í fjarskiptum fleygja fram og má þar sjá fyrir sér fjarskipti byggðum á skammtafræði þar sem reynt yrði að brjóta ljóshraðamúrinn. Þróun sýndarveruleika þar sem róbót á fjarlægum stað væri skynfæri manna yrði líka sett í forgang. Við gætum jafnvel séð fyrir okkur þróun á tækni sem má líkja við sálfarir þar sem geimþjarki á Mars myndi senda skynboð beint til taugakerfisins okkar þannig að við myndum skynja umhverfi Mars nánast algjörlega eins og við værum stödd þar sjálf. Þannig má lengi telja upp ýmiskonar tækni sem við yrðum að leysa við það að byggja upp þjarkanýlendu á Mars.
Því miður þá virðist stjórn Bush Bandaríkjaforseta vera íhaldssöm og heimsk. Henni detta fáir frumlegir hlutir í hug. Úreltar hugmyndir manna um geimferðir virðast ráða þar ríkjum, svo ekki sé minnst á úreltar hugmyndir um lausnir á vanda okkar hér á jörðu niðri. Allan vanda skal leysa með ófriði og stríði. Vona bara að þessi stjórn fari frá, þannig að heimspólitíkin geti aftur tekið réttan kúrs, hvort heldur það er í stefnumótun um geimrannsóknir eða lausnir á félagslegum vanda okkur hér á jörðinni.
M.