Nú jæja.. Ég ákvað nú aðeins að gefa ykkur smá fróðleik um eldflaugararnar miklu ;)
Eldflaugar hafa þekkst í sjö hundruð ár. Á 13. öld skutu Kínverjar fyrstu eldflaugunum, sem um getur. Nefndust þær “eldörvar” og var skotið gegn innrásarliði Mongóla. Á endurreisnartímanum hundrað árum síðar eða svo höfðu Evrópumenn lært listina. Hugvitssamur Ítali fann upp eldflaugarknúinn veggjarbrjót til að mölva niður óvinavirki. Enda þótt eldflaugarhamarinn væri aldrei notaður, reyndust eldflaugarnar vel í sjóorrustum til að kveikja í tjörubornum reiða herskipanna.
Fyrir 1942 hafði stórri eldflaug aldrei verið skotið á loft. Aðeins fáar og smáar vökvaknúnar flaugar höfðu verið sendar upp og flugu hvorki langt né vel. Smíði V-2 (eða A-4, sem var hið upprunalega þýska dulnefni) var ef til vill stærsta stökk í tæknifræðum, sem tekið hafði verið til þess tíma. Ekkert sambærilegt var til fyrr en fáeinum árum síðar, er vísindamenn Manhatttan-áætlunarinnar tóku að hanna risastórar verksmiðjur, sem kostuðu óhemjufé, til að framleiða málm, sem aldrei hafði verið framleitt svo mikið af áður, að sýnilegt væri berum augum.
Vegna þess að undirstöðuatriði V-2 eru burðarásinn í öllum geimförum nú og verða það um langt skeið, er mikils um vert að skilja þaú vandamál, sem þýskir eldflaugasmiðir þurftur við að fást og hvernig þau voru leyst.
Þess verður að geta að enginn “fann upp” V-2. Konstantín Tsíolkovsky, Hermann Oberth og aðrir brautryðjendur höfðu áður gefið lýsingar á flestöllum hlutum stórrar vökvaeldflaugar. Og stillingarmaðurinn dr. Goddard hafði gert meira; hann hafði í rauninni smíðað og reynt flesta helstu málmhluti, sem eldflaug er gerð úr. Um 1935 hafði hann skotið eldflaugum, sem vógu tæp 45 kg upp í 2.300 metra hæð.
Hjarta eldflauganna er vélin eða hreyfillinn. Eldflaugarhreyfill er í stórum dráttum ofn, sem er opinn í annan endann þar sem eldsneyti brennur en áður voru dæmi til, en brunaefnin ryðjast á ofsahraða út um afturmjóan stút. Á pappírnum virðist ekkert einfaldara en eldflaugarhreyfillinn en hann verður örugglega að geta þolað ógnarlegan hita, titring og þrýsting svo að það getur kostað starfsævi þúsunda og milljónir dala að hanna hann og prófa.
Til að varpa 14 tonna skeyti 80 kílómetra út í geiminn þurfti hreyfillinn í V-2 að framleiða meira en hálfa milljón hestafla (formúlubíll er u.þ.b. 900 hestöfl). Þó var hreyfillinn varla meira en 1 og hálfur á lengd og 450 kg að þyngd, en náði þessari gífurlegu orkuframleiðslu með því að brenna á hverjum sjö sekúntum um einu tonni af blöndu alkóhóls og fljótandi súrefnis, en slík stærðargráða var þá óheyrileg.
Meira síðar ;)
Heimildir: Könnun Geimsins,
eftir Arthur C. Clarke