Í þessari grein ætla ég að gefa nokkrar almennar leiðbeiningar fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.
Fyrsta og jafnframt mikilvægasta reglan við stjörnuskoðun er góður klæðnaður. Það er bara ekki hægt að leggja of mikla áherslu á þetta. Það er fátt sem eyðileggur hraðar skemmtunina af því að skoða stjörnurnar en kaldar tær og dofnir fingur.
Þegar búið er að finna til góðan fatnað er hægt að fara út og byrja að skoða himininn. Það sem gjarnan vekur áhuga fólks á stjörnuskoðun eru sumarbústaðaferðir á vetrum. Þá fyrst tekur fólk eftir öllum þeim aragrúa af stjörnum sem príða himinhvolfið. Gaman er að láta augun líða um himinhvolfið og byrja að átta sig á því sem maður er að sjá; stjörnurnar eru ekki bara mis bjartar heldur einnig mismunandi á litinn, sumstaðar eru þær þéttari en annarsstaðar og ef lítið er um lýsingu í nágreninu (ljósmengun) þá má sjá að stjörnurnar eru þéttastar á belti sem nær þvert yfir allan himininn. Þetta er Vetrarbrautin. Á Íslandi líður einnig vart sú nótt að ekki sjáist eitthvað til norðurljósa, þau eru mest um níu leitið á kvöldin og aftur frá um klukkan hálf tólf og fram eftir nóttu.
Ef áhugi er fyrir hendi að skoða stjörnurnar frekar þá er æskilegt næsta skref að verða sér úti um stjörnukort. Ekki er æskilegt að kortið sé of ýtarlegt og sýni of mikið af upplýsingum, það er ávísun á erfiðleika fyrir byrjendur. Bestu kortin fyrir byrjendur eru einföld kort sem sýna stjörnumerkin og lítið meira. Slík kort er hægt að fá í bókabúðum og einnig fylgja þau tímaritum um stjörnuskoðun, t.d. Sky&Telescope. Einnig er hægt að nálgast stjörnukort á netinu, til dæmis hér http://www.astro.wisc.edu/~dolan/constellations/constel lationjavalist.html einnig eru mörg forrit til sem hægt er að sækja að kostnaðar lausu á netið, Cartes du Ciel er mjög öflut stjörnu forrit (planetarium), það er hægt að nálgast hér: http://www.stargazing.net/astropc/ Það tekur nokkurn tíma að læra á svona forrit, en þegar búið er að leggja á sig að læra grunninn þá eru þessi forrit ómetanleg hjálp fyrir áhugastjörnuskoðarann. Maður slær inn staðsetningu sína á jörðinni og forritið sýnir manni stjörnuhimininn eins og hann lítur út þá stundina, einnig er hægt að láta það sýna manni himininn fram og aftur í tímann (hvaða stjörnur sáu til dæmis farþegar Titanic þegar skipið var að sökkva?). Þau geta einnig sýnt manni stöðu plánetanna og kvartilaskipti tunglsins auk margs fleira.
Næsta atriði er svo að læra að þekkja stjörnumerkin. Margir þekkja t.d. Karlsvagninn, en vita ekki að hann er hluti af stærra stjörnumerki, Stóra Birni (lat. Ursa Major). Auðveldast er að byrja á stjörnumerkjum með mörgum björtum stjörnum, eins og Stóra Birni, Óríon , Kassíópeu, eða Svaninum (lat. Ursa Major, Orion, Cassiopeia, Cygnus). Ég læt latnesku heiti stjörnumerkjanna fylgja innan sviga vegna þess hve þau eru mikið notuð á stjörnukortum og í textum á netinu. Þegar búið er að læra nokkur bjartari og auðveldari merkin er best að reyna að komast eitthvað frá björtustu borgaljósunum til að auðveldara sé að sjá dimmari merkin. Reykvíkingar geta t.d. farið upp í Heiðmörk, út í Kaldársel austan Hafnarfjarðar eða út á Seltjarnarnes. Til að sjá dimmustu merkin getur verið nauðsynlegt að tunglið sé ekki á lofti, eða að það sé langt frá viðkomandi merki.
Þegar fólk er farið að þekkja nokkur stjörnumerki er kominn tími til að læra að finna pláneturnar á himnum. Pláneturnar líta með berum augum út eins og hver önnur stjarna, en ólíkt þeim þá færast þær á milli stjörnumerkja. Til að vita hvar og hvenær hægt er að sjá pláneturnar er best að fletta þeim upp í t.d. Almanaki Háskólans (http://almanak.hi.is/), tímaritum eða í fyrr nefndum stjörnu forritum. Á heimasíðu Sky&Telescope (http://skyandtelescope.com) er að finna stjörnukort sem sýnir stöðu plánetanna.
Þegar búið er að leggja nokkuð góðan grunn að frekar stjörnuskoðun með því að læra stjörnumerkin og vilji er fyrir hendi að skoða meira, er næst að ná sér í sjónauka. Með sjónauka á ég ekki við rándýran stjönruskjónauka heldu venjulegan lítinn handsjónauka. Til að hægt sé að njóta stjörnuskoðunar með handsjónauka er nauðsynlegt að koma sér vel fyrir. Einna best er að leggjast á bakið, t.d. á sólbekk, og hafa stuðning undir olnbogana. Þannig nær maður að halda sjónaukanum nokkuð stöðugum. En hvert á svo að beina honum? Hvað á að skoða? Sjónaukinn stækkar ekki bara það sem við sjáum, heldur safnar hann meira ljósi en augað getur gert óstutt og því verður myndin sem við sjáum bjartari en ella og margar daufar stjörnur sem ekki sjást með berum augum koma í ljós. Það opnast því alveg nýr heimur þegar litið er á stjörnurnar í gegnum sjónauka í fyrsta skipti.
Til að byrja með er gaman að láta sjónaukan renna rólega eftir stjörnumerkjunum og sjá allan þann aragrúa af stjörnum sem kemur í ljós, fljótlega vill maður þó beina sjónaukanum að einhverju ákveðnu og sjá eitthvað fleira en bara punkta. Nokkur áhugaverð fyrirbæri til að skoða eru t.d. Sjöstirnið (M45 lat. Pleiades) í Nautinu (lat. Taurus), Andrómedu vetrarbrautin (M31) í samnefndu stjörnumerki (lat. Andromeda), Sverðþokan (M42) í Oríon, Galileo tungl Júpíters (4 stærstu tungl Júpíters) og margt fleira. M45, M31 og M42 vísar til númera í skrá sem franski stjörnufræðingurinn Charles Messier tók saman yfir fyrirbæri sem auðvelt er að rugla saman við halastjörnur, en hann stundaði leit að halastjörnum. Lista yfir öll 110 Messier fyrirbærin auk mynda af þeim og frekari upplýsinga er að finna hér: http://www.seds.org/messier/ Þessi listi er í dag mest notaður af áhugamönnum um stjörnuskoðun enda er þetta listi yfir björtustu og flottustu þokur, vetrarbrautir og þyrpingar sem sjá má á himinhvolfinu.
Fyrir þá sem vilja halda áfram að skoða er hægt að setja sig í samband við Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness (http://club.snerpa.is/astro) og fá að skoða í sjónauka þeirra. Einnig getur höfundur veitt frekari upplýsingar ef einhver óskar þeirra.