Mig langar til að segja ykkur frá kanínunni minni, honum Sebastían. Ég er núna búin að eiga hann í um 4 og hálfan mánuð (ég fékk hann hjá Tzu, TAKK TZU!!!), og ég verð að segja, að það að eiga kanínu er ALLT öðruvísi en ég bjóst við! Ég átti hamstur þegar ég var lítil og hélt að þetta yrði bara eitthvað svipað því, þ.e. kanínan myndi bara eiga heima í búrinu og eyða mestum sínum tíma þar, nema þegar að ég knúsaði og kelaði og léki við hana. Annað kom nú á daginn!
Núna er Sebastían laus, alltaf. Búrið hans stendur alltaf opið og hann fer bara þangað til að pissa, kúka og fá sér að borða. Mér finnst það frábært, ég vissi ekki að kanínur gætu orðið kassavanar, og það var meira að segja ekkert mál að kassavenja hann. Þegar hann pissaði eða kúkaði þar sem hann mátti ekki var ég fljót að grípa hann, segja nei, stinga nefinu á honum í það og setja hann svo inn í búr (en eins og auga gefur leið þurfti að fylgjast svolítið vel með honum fyrstu dagana). Svo verðlauna ég hann líka með því að alltaf þegar hann fer sjálfur inn í búr til að pissa, þá fær hann nammi. Hann er reyndar farinn að spila svolítið á það núna, því þegar ég stend við hliðina á búrinu þá drífur hann sig í að hlaupa inn í búr svo hann geti fengið kanínunammi! ;) Mig langar til að benda þeim sem ekki vita á, að það er hægt að kaupa svona “kanínuklósett” og setja í hornið á búrinu (þar sem kanínan pissar alltaf). Þetta sparar mikla fyrirhöfn, því þá þarf ekki að þrífa búrið sjálft eins oft, bara að skipta um í klósettinu ca annan hvern dag og þá vottar ekki fyrir vondri pissufýlu!
Sebastían er líka voða mikill kúrukall. Hann vill alltaf liggja hjá manni og láta klappa sér og sérstaklega finnst honum gott að láta klóra sér á enninu og á milli eyrnanna. Honum leiðist líka ofsalega mikið að vera einn, og þegar búið er að slökkva öll ljósin á kvöldin og við erum farin inn í rúm þá líður ekki langur tími áður en hann er kominn til að kúra hjá okkur. Stundum er hann reyndar alls ekkert tilbúinn til þess að fara að sofa og þá hoppar hann um allt rúmið og grefur í sængurnar (hann dýrkar það!) og reynir að fá okkur til að leika við sig. Sem minnir mig á það að ég fékk alveg frábært kanínuleikfang í útlöndum, það er bolti með gati á, sem maður setur nammi inn í og svo ýtir kanínan boltanum á undan sér þangað til hún nær namminu úr. Það er ótrúlega krúttlegt að sjá hann ýta boltanum á undan sér með nefinu. Á morgnana vekur Sebastían mann svo með því að sleikja mann í framan. Það er svo ótrúlega krúttlegt að vakna við það. Ef maður nennir svo ekki að vakna akkurat þegar hann byrjar að sleikja mann þá gefst hann upp og fer sjálfur að dunda frammi í stofu. En þegar hann heyrir svo í vekjaraklukkunni hjá okkur er hann ekki lengi að koma aftur inn í rúm, því hann veit að þá förum við á fætur og erum kannski til í að leika við hann.
Úff! Þetta er miklu lengra hjá mér en ég ætlaði að hafa það. Ég ætla ekki að skrifa svo mikið að enginn nenni að lesa það, en ef einhvern langar að heyra meira af Sebastían skrifa ég kannski meira seinna.
Að lokum vil ég benda öllum, sem eru kannski að spá í að fá sér kanínu sem gæludýr, að fara inn á <a href=”www.rabbit.org”<http://www.rabbit.org</a> og skoða þessa síðu. Hún er alveg frábær!