Ertu í gæludýrahugleiðingum? Það verst sem ég veit er þegar verið er að lóga alheilbrigðum dýrum og mér finnst það mjög sárt að það þurfi að lóga þeim. Hér er því smá gátlisti sem ég vona að fólk hafi á bak við eyrað áður en það festir kaup á dýri. Ef ykkur finnst vanta einhvern punkt, ekki hika við að bæta við.

* Hefurðu nægan tíma fyrir dýri?
Er starf þitt þannig að þú gætir þurft að vera að heiman svo dögum skiptir, eða ertu mikið á ferðalögum? Ef svo er ættirðu alls ekki að fá þér dýr nema að þú getir gengið að einhverjum vísum til að fóstra dýrið þitt á meðan, þú mannst vonandi að dýrin þurfa mat og vatn til að lifa. Það þýðir ekkert að fylla bara matar- og vatnsdallinn og vona að það dugi.
Hvað ertu lengi að heiman í einu? Þú getur alls ekki boðið hundi upp á þennan venjulega 8 tíma vinnudag. Það er allt of langur tími fyir hund til að vera einn heima, þú ættir helst ekki að skilja hann eftir einan í meira en 4-6 tíma á dag.

* Hefur þú nægilegt fjármagn til að framfleyta dýri?
Það kostar að eiga dýr. Mismikið þó eftir dýrum. Þessi minni dýr eru yfirleytt ódýrari í fæðiskostnaði og ekki kostar mikið að fóðra hamstra eða litla hunda, en þegar þú ert komin í stór hundakyn er kostnaðurinn orðinn talsverður. Einnig verður þú að muna eftir sjúkrakostnaði. Þú verður að fara með hunda og ketti reglulega í ormahreinsun og fleira en dýrið getur líka fengið sjúkdóm eða lent í slysi og þá bætist við aukakostnaður vegna þess. Hundar eru misflökkugjarnir en tíkur á lóðeríi og hundar sem er allmennt illa sinnt og fá ónæga hreyfingu eiga það til að strjúka. Hundafangarar eru ekki ódýrir og hækkar gjaldið eftir fjölda brota.

* Ertu dugleg/ur að hreyfa þig?
Ef þú ætlar að fá þér hund, verður þú að muna eftir að leyfa hundinum að fá sína hreyfingu líka. Hann verður að fá að fara út að minnsta kosti tvisvar á dag – alveg sama hvernig veðrið er! Hundar þurfa mismikla hreyfingu og þú ættir að kanna vel tegundina sem þú ætlar að fá þér og athuga hversu mikla hreyfingu hann þarf og vera viss um að geta uppfyllt þær óskir á hverjum degi.

* Hvernig býrð þú?
Ætlarðu að fá þér stórt eða lítið dýr? Þú veist vonandi að þýðir ekkert að bjóða stórum hundum upp á pinkulitla íbúð. Ef þú býrð í blokk verður þú að vera viss um að allir í blokkinni séu samþykkir hundahaldi þínu. Það er heppilegra fyrir hund að hafa smá garð til að leika sér í. Eru fluttnigar nokkuð á döfinni, ef svo er vertu viss um að dýrahald sé leyfilegt á nýja staðnum.

* Ofnæmi
Þú verður að vera alveg 110% viss um að ekkert ofnæmi sé á heimilinu. Ef að ný börn eru væntanleg í heiminn ættirðu ef til vill að bíða aðein með dýrakaup þar til barnið er fætt og fullvissa þig um að það sé laust við ofnæmiseinkenni svo það þurfi ekki að senda dýrið í “sveitina”.
- www.dobermann.name -