Fuglinn minn, Nova Ég átti lítinn páfagauks-gára sem hét Kíkí og mér þótti alveg ofsalega vænt um hann. En svo fyrir alls ekki svo löngu veiktist hann og dó greyið. Eiginlega gat ég ekki hugsað mér annan fugl, því Kíkí var svo spes, ég fékk hann mjög ungan og ófleygan og ég held svei mér þá að hann hafi haldið að ég væri mamma sín :) Kom alltaf og kúrði hjá mér og vildi helst láta mig mata sig… Ég vissi því alveg að kæmi enginn í staðinn fyrir hann, það yrði ekki eins. En jæja, ég endaði samt sem áður í gæludýraverslun og var að kíkja á fuglanna. Mér fannst líka eiginlega verra að horfa upp á búrið svona tómt. Gárarnir í dýrabúðinni heilluðu mig ekki neitt, en ég rak augun í lítinn krúttlegan kanarífugl. Hann var í búri með nokkrum öðrum kanarífuglum og líka nokkrum finkum. Ég hef áður átt finkur og systir mín á líka finkur, og ég get ekki sagt að mér finnist þær beint skemmtilegar. Þær eru svo svakalega styggar að maður má ekki horfa í áttina til þeirra og þá er allt komið í háaloft. Þessi fugl hinsvegar, sem ég barði augun á, var sallarrólegur og yfirvegaður. Það endaði sem sagt með því að ég keypti hann. Hann fékk nafnið Nova, sem er stytting á Casanova þar sem hann er svo mikið augnaryndi :) Hann hefur síður en svo valdið mér vonbrigðum, hann er hvers manns hugljúfi. Syngur mjög sætt, þó hann sé kannski ekki alveg búinn að ná tökum á laglínunni, kemur einstaka skrýtinn tónn (held að hann sé að reyna að herma eftir annað hvort finkunum eða páfagaukunum í dýrabúðinni, allvegana mjög skrýtið hljóð…). Svo er hann aldrei hræddur við mig heldur finnst mjög gaman ef ég nenni að spjalla aðeins við sig. Ég veit ekki hversu mikið sé ætlast til að maður sleppi þeim út, þeir eru náttúrulega ekki eins gæfir og pásarnir, en ég prófaði samt að leyfa honum að fara út um daginn og það gekk bara ágætlega. Ég er svona farin að spá í hvort ég eigi að fá kærustu handa honum, svo hann hafi nú félagskap allan daginn. Væri kannski líka skemmtilegra fyrir hann að eiga vin, ef ég verð svo heppin að komast að í dýralækningaskóla úti í útlöndum eftir ár, en þá verður hann líklega að fá að búa hjá mömmu. En allavegana, þessi grein varð eitthvað lengri en ég bjóst við… ég mæli sem sagt hiklaust með þessum fuglum, ef einhver er að spá. Tvímælalaust myndi ég frekar taka kanarífugl en finkur, og jafnvel mæli ég frekar með þeim en pásunum. Þó svo að pásarnir séu gæfir og gáfaðir, þá leiðist mér alltaf þetta garg…

Kveðja,
Begga og Nova
- www.dobermann.name -