Heil og sæl. Og Gleðileg Jól. ;)
Ég var á ferðinni á víðförnum sveitavegi á aðfaranótt aðfangadags að ljúka við að dreifa jólakortum fyrir mömmu mína og pabba. Allt í einu sá ég eitthvað svart við vegkantinn og hægi aðeins á mér af forvitnissakir.
Þegar ég stoppaði bílinn lá þarna hálfstálpaður kanínuungi, stjarfur úr kulda. Ég náði honum strax enda var hann lamaður úr kulda (Það var hrikalega kalt þessa nótt!) og setti aumingjann í úlpuna mína og keyrði á 50-70 km hraða heim úr sveitinni. Setti á bullandi kraft í miðstöðina til þess að ná að hita kanínuna aðeins upp.
Þegar heim var komið á þéttbýlið þá var vel tekið á móti kanínunni. Kærastinn minn tók greyið og vafði því í handklæði í smátíma og reyndi að gefa því að borða. En það gerðist ekkert eins og ástandið var. Greyið var í kuldalosti og ekki batnaði það þegar það fékk hita í skrokkinn. Við fundum kassa og settum handklæði undir með vatnsskál og smá kál fyrir nóttina því að meira gátum við ekki gert þessa nótt, enda aðfangadagur að fara renna upp.
Á aðfangadag hringdi ég í alla mögulega í sveitinni og spurði hvort að það kannaðist við litla kanínu sem hafði hlaupist á brott. Enginn vildi kannast við þannig að ég baðst afsökunar á þessum truflunum og bauð gleðileg jól. Um leið og ég sagði fjölskyldunni minni svörin sem ég fékk frá bændum, þá brunaði kærastinn minn útí gæludýrabúð sem var enn opið og keypti búr, spænir , drykkjarfang og fóður.
Ég var svo innilega kát með að hann skyldi vilja gera þetta fyrir mig. Og hann er jafnhrifinn af henni og ég er af kanínunni. Já þetta er lítill stelpuhnokki sem við erum farin að kalla Stínu fínu. :D
Ég varð að deila þessu með ykkur því að nú finn ég tilgang með þessu jólatilstandi. Að hugsa um hana Stínu mína. :)
Gleðileg Jól. :)