Rottan og músin Rottan (valskan) er lítið, lágfætt spendýr (ilfeti), með langan hala. Höfuðið er frammjótt og löng veiðihár ´atrýninu. Útlimir eru smáir, einkum framfæturnir, og á þeim loppur, með löngum tám og hvössum klóm. Hún er snögghærð, en þétthærð, nema á rófunni, þar eru hringar af smáu hreistri á milli háranna. Hún étur allt, sem tönn á festir (er alæta), og hlutar fæðuna sundur með framtönnunum, sem nefnast nagtennur. Þær eru tvær í hvorum skolti og mjög sterkar og langar, en mest af þeim er hulið í kjálkanu. Þær eru glerungslausar nema að framan og vaxa jafnharðan og þær slitna (eru rótopnar); en um leið og þær slitna, verður glerungslagið að hvassri egg framan á tönninni, sökum þess að það er harðara en tannbeinið, og kjálkarnir ganga fram og aftur, þegar dýrið tyggur. Með nagtönnunum getur rottan unnið á mjög hörðum hlutum, t.d. hnotskurnum, og nagað í sundur tréílát og þiljur. Vígtennur eru engar og langt bil á milli framtanna og jaxla; þeir eru fáir og hnúðóttir og vinna vel á hörðum og stökkum hlutum, svo sem fræjum. Þegar hún étur, heldur hún fæðunni oft með framloppunum.

Rottan er uppruni í Asíu, en hefur breiðst út um allan heim á síðustu öldum (einkum með skipum), einnig hingað til lands. Þykir hún alls staðar vondur gestur, því að hún heldur sig að mannabúðstöðum, einkum í borgum og við sjávarsíðuna, og gerir oft mikið tjón á matvælum og húsum. Er mjög erfitt að útrýma henni, af því að viðkoman er mjög mikil (eins og hjá öðrum nagdýrum); hún á 6-10 unga í einu og oft á ári og er bráðþroska. Rottan hefst við í holnum, úthýsum og kjöllurum. Þar sem hún mætir ekki neinni styggð, er hún á ferli um hábjartan daginn, en annars einkum á nóttunni, þegar kyrrð er komin á.


Músin er náskyld rottunni, en miklu minni og tiltölulega stóreyrðari. Hér á landi eru tvær tegundir: Húsamúsin og hagamúsin. Hin fyrrnefnda er algrá að lit, er upprunnin í Asíu og hefur breiðst þaðan út um lönd, líkt og rottan, en miklu fyrr. Hún hefur tekið sér bólfestu í híbýlum manna og gerir þar töluvert tjón á munum og matvælum. Hin síðarnefnda er mórauð á baki og hvít að neðan. Hún hefur híbýli sín úti um hagana, grefur sér þar holur og safnar sér þangað fæðu, en þegar harðnar í ári, leitar hún til í mannabúðstöðum og leggst jafnvel stundum á sauðfé í húsum.
Plempen!