Af því að það er búið að tala nokkuð mikið um réttindi dýra hér á Huga langar mig að senda þessa grein inn. Hún byggist fyrst og fremst á mínum skoðunum og viðhorfi til dýra og réttinda þeirra.
Ég hef alltaf verið mikill dýravinur, frá því að ég var smákrakki. Mér hefur alltaf fundist að dýr ættu allt það besta skilið og ekkert minna en það. Sama þó að dýrið sé fluga, hestur, hundur eða fíll þá ber ég sömu virðingu gagnvart öllum tegundum og mun sennilega alltaf gera það. Það sem ég ber hinsvegar ekki virðingu fyrir er fólk sem álítur dýr vera ekki neitt, finnst allt í lagi að illa sé farið með þau o.s.frv. Í mínum augum er þannig fólk ekki neitt. Auðvitað er ég líka mannvinur, ég er ekki að segja að ég hati fólk og beri ekki virðingu fyrir því. Mér finnst líf einhvers manns ekkert mikilvægara eða merkilegra en líf einhvers dýrs og öfugt. En auðvitað eru undantekningar og mér finnst mikið verra ef hundur er drepinn heldur en ef maur er drepinn. Það er erfitt að útskýra þetta því þetta eru jú bæði dýr með tilfinningar og tilgang til þess að lifa. En ég trúi (og örugglega flestir aðrir) að hundar séu með meiri tilfinningar, skilja meira og vita meira. Þeir eru ,,nær’’ mannfólkinu í hugsun og njóta lífsins meira.
Ég tók fyrir nokkrar spurningar um dýr og réttindi þeirra og svara þeim eftir bestu getu með mínum skoðunum eins og kom fram hér fyrir ofan.
Er rétt að framkvæma tilraunir á dýrum fyrir snyrtivörur og læknisfræði?
Mér finnst það ekki rétt og algerlega út í hött. Dýr sýna ekki sömu viðbrögð og fólk við snyrtivörum og lyfjum sem þeim eru gefin. Af hverju haldið þið að dýr fái ekki sömu lyf og fólk? Það er einfaldlega af því að sömu lyf virka ekki á mannfólk og dýr. Auk þess kveljast dýrin við þessa starfsemi. Ef eitthvað lyf eða einhver snyrtivara er hættuleg gjalda greyið dýrin sem vilja ekki og skilja þetta ekki. Auk þess eru þau lokuð inni alla daga eftir því sem ég best veit. Ég veit að læknar og vísindamenn hafa náð miklum framförum í læknavísindum við að gera tilraunir á dýrum en mér finnst þetta vera rangt. Það á að gera tilraunirnar á fólki sem samþykkir þetta sjálft, ekki láta lítil saklaus dýr gjalda þess ef lyf reynast hættuleg og valda þeim skaða án þess að þau viti hvað er að gerast.
Á að lóga hundi sem bítur einhvern (fullorðinn/ungling/barn)?
Hundur er algengasta dæmið svo að ég ætla að fjalla um það ef hundar bíta fólk. Oftast finnst mér það að lóga hundi strax eftir að hann bítur manneskju vera fljótfærni. Málin eru mjög oft ekki rannsökuð nógu vel. Ég veit um mörg dæmi þar sem barn á aldrinum 4 – 10 ára hefur átt í hlut. Það er nefnilega svo oft að börnum er ekki kennt að umgangast dýr. Þau vilja toga í skottið, fara á bak og kjassast endalaust í hundinum. Það verður að kenna þeim að svoleiðis hegðun gengur ekki, bara í stutta stund en svo verður hundurinn pirraður. Barngóðir hundar þola svona meðferð hjá krökkum yfirleitt en stundum fara krakkarnir yfir strikið og auðvitað ,,slær’’ hundurinn frá sér eins og hver önnur manneskja myndi gera. Þegar það gerist að hundur bítur barn og foreldri barnsins er ekki eigandi hundsins verður mamman/pabbinn oftast fjúkandi reið/ur og vill í flestum tilvikum að hundinum verði lógað. Mér finnst einfaldlega ekki vera réttlæti í þessu þar sem hundurinn var að verja sig, hann vildi bara ekki meira. Mín skoðun er sú að hann hafi haft fullan rétt á að verja sig. Þegar svona gerist einu sinni finnst mér að það eigi að gefa hundinum tækifæri.
En hinsvegar ef eigandi hunds veit að sinn hundur er ekki barngóður á hann að hafa hundinn annars staðar en hjá krökkum sem eru í heimsókn, þá er hægt að forðast bit og það sýnir að eigandinn er ábyrgur hundaeigandi.
Svo eru til hundar sem eru grimmir að eðlisfari (í genunum) eða hafa verið illa upp aldir (ofdekur/ofbeldi). Svoleiðis hunda á aldrei að skilja eftir eina með börnum, reyndar á aldrei að skilja hunda eftir eina með börnum því allt getur gerst, sama hvað hundarnir eru barngóðir, börn geta gengið of langt. Hundar sem eru grimmir eru ekki vinsæl gæludýr og er oftast lógað en ég myndi segja að góður hundaþjálfari/hundahegðunarsérfræðingur gæti gert eitthvað í málunum.
Það sem ég er að segja er að það á alltaf að rannsaka málið ef hundur bítur manneskju/annað dýr.
Á að refsa fólki sem drepur/pyntir dýr til gamans eða vegna grimmdar?
Ætla að byrja að taka það fram að ég er ekki á móti því að fólk drepi dýr sér til matar, en að drepa dýr af einskærri grimmd og ánægju yfir að sjá þau þjást er sjúkt. Mér finnst að fólk eigi að sæta refsingu ef það gerir það. Auðvitað á að fara eftir því hvaða dýrategund á í hlut og hvort dýrið er gæludýr, villt dýr eða villt, friðað dýr. Að drepa gæludýr einhvers er eins og að drepa manneskju, gæludýr eru fjölskyldumeðlimir (það er þannig hjá mér) og það finnst mér verst. Það er nú ekkert hægt að gera í því ef fluga er drepin eða eitthvað annað skordýr enda er það líka allt annað. Hestar/hundar/kettir eru gæludýr og félagar og hafa mikið meiri tilfinningar en flugur (að mínu mati og örugglega flestra annarra). Það er ólöglegt að drepa friðuð dýr þannig að fangelsisvist myndi passa vel fyrir þann glæp. En að drepa dýr í einhverjum öðrum tilgangi en sjálfsvörn og til matar er grimmd og fangelsisvist á vel við þar því fólki sem finnst það vera í fínu lagi að drepa dýr eða pynta þau útaf engu getur líka verið hættulegt öðru fólki.
Þetta var það sem ég vildi svara. En ég hef líka séð umræður hérna á Huga um hverju eigi að fórna, manni eða dýri. Sá tilvitnun í einhvern karl þar sem hann hélt því fram að líf maurs væri jafn mikilvægt og líf sonar síns. Ég ætla að taka sem dæmi að sonur þessa manns og maurinn væru báðir í lífshættu og maðurinn gæti bara bjargað öðrum. Það er nokkuð augljóst að hann myndi velja son sinn, þó svo að hann hafi sagt þetta. En það er spurning um væntumþykju. Ef ég ætti að velja á milli gæludýrsins míns og einhvers karls sem ég þekki ekki neitt og hef aldrei séð myndi ég frekar bjarga gæludýrinu mínu. Ef valið stæði á milli bestu vinkonu minnar og t.d. hunds sem ég hef aldrei séð áður myndi ég auðvitað bjarga vinkonu minni. Það sem ég er að segja er að mér þykir jafn vænt um gæludýrin mín og fjölskyldu mína, gæludýrin mín eru fjölskylda mín.
,,Það skiptir þá máli sem ég næ að bjarga''