Þannig var mál með vexti að ég er að gæta gullfiska kærustunnar á meðan hún er í útskriftarferð, en híbýli þeirra eru (voru) einmitt svokölluð gullfiskakúla.
Um klukkan 3:25 í gærnótt heyri ég hvell og hávaða úr stofunni. Ég fer inn og sé þá þar sem borðstofuborðið mitt hefur fengið allsvakalega vatnsmeðferð, og kúlan sjálf ákveðið að deila sér í rúmlega fimm parta. Fiskarnir sjálfir börðust við að reyna að öðlast nýja hæfileika til lifunar á þurru landi, en áður en til þess kom smellti ég báðum í sæmilega tupperware skál. Nett gegnsæ, en vart notalegt heimili til lengdar.
Næsta klukkustund fór í að þrífa upp eftir ósköpin.
Í dag fór ég sem leið lá upp í Mjódd og var nokkuð niðri fyrir. Kúluskömmin sem hafði verið versluð hjá þeim hafði ekki orðið fyrir nokkru hnjaski, ekki verið illa meðfarin heldur einfaldlega setið í hinum mestu rólegheitum á stofuborðinu þar til hún ákvað að reyna myrða hina gullnu gesti heimilisins.
Saga mín féll fyrir daufum eyrum í Dýralandi í Mjóddinni. Fyrst reyndi afgreiðslukonan að sannfæra mig um að ég hefði farið illa með kúluna. Þegar ég stóð á mínu um að eina sem hefði verið gert við draslið var að hún hafði verið þrifin hringdi hún loks í eigandann. Eftir nokkur “uhumm” og “jáhá” þar sem mér heyrðist aðilar beggja vegna línunnar vera að flissa að mér sagði afgreiðsluhnátan að ég ætti að koma með leyfar kúlunnar til þeirra. Til hvers veit ég ekki, ætli hún hafi ekki talið að ég myndi ekki nenna því og aldrei koma aftur?
Í það minnsta kom ég aftur jafnharðan með jarðneskar leifar glerfangelsisins. Afgreiðslustúlkurnar báðar (þær voru tvær) skoðuðu hvert brot gaumgæfilega, umluðu og sögðu loks “jú jú, þú færð nýja kúlu.”
Það var eitthvað við það að fá annað eintak af samskonar fiskabúri og hafði áður sprungið á stofuborðinu sem vakti með mér… tja.. viðbjóð. Því reyndi ég að sannfæra hnátuna um að einfaldlega láta mig hafa peninginn minn aftur.
Neibb, af og frá. Aldrei gert. 'Eg gæti samt keypt búr á 3800 og kúlan færi upp í verðið. Ég sagði henni að ég vildi aldrei skipta við þessa búð aftur, hvað þá láta þau hafa enn meiri pening.
Eftir nokkuð þref át ég stolt mitt og fór heim með aðra alveg eins kúlu.
Um áttaleytið í kvöld sprakk hún á eldhúsborðinu mínu.
Ég hafði vit á því að hafa hana á eldhúsborðinu ( sem er úr plasti) en ekki aftur á stofuborðinu (sem er úr við).
Fiskarnir tveir eru nú aftur komnir í tupperwareskálina.
Ég ætla rúlla með leifar kúlu númer tvö upp í mjódd á morgun, við sjáum hvernig viðbrögðin verða þá.
En hvað finnst fólki, finnst ykkur þetta rétt viðbrögð annars vegar hjá mér og hins vegar hjá starfsmönnum dýralands? Ég var tortryggður og leið í raun eins og ég hefði verið glæpamaður í þessu tilviki, sem er gríðarlega óþægilegt.
Hvernig ætli stelpurnar bregðist við því þegar ég kem með leifarnar? Nú er að bíða og sjá.