Ég á lítinn vin sem heitir Dindill og mig langar að segja ykkur aðeins frá honum. Hann er 7 mánaða kanínustrákur og rosalega sætur. Dindill er hálfur Rex og hálfur dvergur og er í “Rex-litunum”, þ.e. brúnn að lit en ljós á kviðnum og undir hökunni. Dindillinn á honum hvítur að neðanverðu ef maður má orða það þannig, en þar sem kanínur eru með dindilinn upp á við sér maður rosalega sætan hvítan hnoðra ef maður horfir aftan á hann. Þaðan kemur nafnið Dindill.

Þegar hann kom fyrst til mín þá var hann svo hræddur í nýja heiminum, hann var aleinn, engin mamma og engin systkini. Ég fann rosalega til með honum fyrsta sólarhringinn. En auðvitað jafnaði hann sig fljótt. Dindill er innikanína, en ég hef alltaf passað mig á því að leyfa honum að vera líka á gólfinu og leika sér, það er ekki hægt að bjóða svona stuðbolta að vera bara í búrinu. Ég hef líka leyft honum að fara út í beysli og honum finnst það æði. Hann var reyndar ekki mjög sáttur við þessa spennitreyju til að byrja með en er alveg sama í dag.

Hann er rosalega skemmtilegur, hann var frekar styggur þegar hann kom til mín en tók fljótt við sér og er í dag ekki styggur, en hann er soldið sjálf síns herra þegar hann er á gólfinu. Þá vill hann ekkert láta kjassa í sér því hann er upptekinn við að kanna heiminn og spretta úr spori. Mér finnst alltaf jafn æðislegt að koma heim því hann tekur alltaf vel á móti manni. Og auðvitað er hann löngu búinn að fatta hvaðan maturinn kemur, í hvert skipti sem ískápurinn opnast setur hann sig í stellingar og bíður eftir þjónustu. Það er rosalega sætt.

Hann hefur ferðast með mér í sveitina, ég held að ég hafi aldrei séð kanínu una sér jafn vel og þá. Hann fékk að vera úti með okkur allan daginn, það var svo gott verður og svo vorum við öll úti þannig að hann fékk að rannsaka mikið. Hann var svo uppgefin á kvöldin þegar við fórum inn að hann hennti sér á hliðina í búrinu og svaf vært.

Hann er góð kanína, ég get ekki sagt annað. Það er ótrúlega mikill félagsskapur af honum og ég á eftir að sakna hans. Eins mikið og ég hef gaman að honum þá verð ég því miður að láta Dindil frá mér. Ég hef auglýst á gæludýrasíðum eftir nýjum eiganda en ekkert hefur gengið, það vilja víst allir unga. Ef ég væri að fá mér kanínu í dag þá myndi ég sjálf velja stálpaða kanínu umfram unga því mín reynsla er allavega sú að Dindill er mikið skemmtilegri í dag en þegar ég fékk hann.

Ef þú getur tekið hann og hugsað vel um hann þá endilega hafðu samband, hann vantar nauðsynlega nýjan eiganda.

Kær kveðja
Kolbrún
kolbrun_a@torg.is