Það er meira en að segja það að eiga dýr. Foreldrarnir eru sjálfsagt hræddir um að þú hugsir ekki vel um dýrið og það lendi á þeim. Jafnvel þó þú hugsir vel um dýrið, þá er ákveðið áreiti sem lendir á foreldrunum, t.d. labba kettir uppá öllum borðum, hundar geta skemmt ýmislegt þó þeir ætli það ekki, t.d. með að klóra í hurðir og skauta á parketi, páfagaukar hafa hátt og nagdýr geta lyktað illa stundum og náttúrulega líka nagað allt ef þau fá að vera laus og gleymist að passa uppá þau.
Ef þú átt dýr, þá ferð þú heldur ekkert í frí nema hafa pössun fyrir dýrið. Ef það er t.d. hundur sem er mikið mál að passa og fáir ættingjar þínir myndu nenna, hver á þá að borga hundahótelið, þú eða foreldrarnir? Hvað ef þú skreppur síðan í útilegu með vinum þínum eða jafnvel í lengra frí til útlanda, jafnvel út í nordjobb yfir sumarið eða sem skiptinemi í heilt ár? Þá lendir það náttúrulega á foreldrunum að sjá um dýrið.
Alla vega skil ég þau vel að segja nei. Þú verður bara að sætta þig við að það er þeirra hús og bíða þangað til þú flytur að heiman.