Eins og flest vor hafa nú fundist nokkrir sjaldséðir flækingar, bæði komnir frá Evrópu og Ameríku. Flækingar eru fuglar sem hafa villst út fyrir sín venjubundnu heimkynni. Flestir flækingar sem sjást á Íslandi eru evrópskir farfuglar sem hafa villst á haf út á leið til varpheimkynna og vetrarstöðva. Mun fleiri flækingar finnast á haustin en á vorin og er það bæði vegna þess að þá eru fleiri einstaklingar á ferðinni og vegna reynsluleysis ungfuglanna. Dimmviðri og sterkar SA-áttir á haustin bera því iðulega einhverja evrópska flækinga til landsins. Amerískir flækingar eru mun sjaldséðari hér en evrópskir og er það er fyrst og fremst vegna þess að suðaustlægar áttir eru ríkjandi á fartímum. Þó kemur það stundum fyrir að leifar af fellibyljum koma upp með ströndum N-Ameríku og berast til Íslands og þá sjást stundum ýmsar afar sjaldgæfar tegundir. Sumar tegundir flækinga koma þó til Íslands í fylgd íslenskra fugla sem hafa dvalið erlendis. Þetta á t.d. við um endur en þá tæla kollurnar erlenda andasteggi með sér til landsins.
Hér að neðan er getið nokkurra sjaldgæfra fuglategunda sem sést hafa að undanförnu. Ekki er fjallað um tegundir sem höfðu sést oftar en 50 sinnum fram til 1996.
Mjallhegri Egretta alba:
Tilkynnt var um hvítan hegra við tjarnir upp af Beruvík á Snæfellsnesi þann 1. maí og talið var að um bjarthegra eða ljómahegra væri að ræða. Reyndur fuglakoðari sá síðan fuglinn 5. maí og kom þá í ljós að þarna var um að ræða fyrsta mjallhegrann sem sést á Íslandi. Mjallhegrinn var í varpbúningi og benti búningur fuglsins til þess að hann væri hingað kominn frá S-Evrópu fremur en Ameríku.
Hnúðsvanur Cygnus olor:
Undanfarin ár hefur hnúðsvanur sést reglulega á Víkinga- og Skjálftavatni í Kelduhverfi, N-Þing. Hann sást fyrst í sumar þann 3. júní og var hann þá á Skjálftavatni ásamt um 15 álftum. Þetta er þriðji hnúðsvanurinn sem vitað er um að hafi flækst til Íslands og er talið nær öruggt að hann hafi komið hingað frá Bretlandseyjum í slagtogi með álftum. Árið 1958 var hnúðsvanapar flutt til Íslands og varp það við Reykjavíkurtjörn. Influttu hnúðsvanirnir sáust næstu 20 ár á Reykjavíkursvæðinu og voru þeir á milli 15 og 20 þegar mest var en dóu að lokum út. Mynd af hnúðsvani.
Brúnönd Anas rubripes:
Stakur brúnandarsteggur hefur haldið sig í Garði á Reykjanesskaga undanfarin ár. Fuglinn sást m.a. í árlegum vetrarfuglatalningum Náttúrufræðistofnunar nú í vetur og hefur sést þar síðan. Hann hefur nú parast stokkandarkollu og sjást þau oftast saman við Gerðasíkin. Brúnendur eru sjaldgæfir flækingar til Íslands og koma þær hingað frá Ameríku. Brúnendur eru líkar stokköndum í útliti en eru mun dekkri og stærri.
Taumönd Anas querquedula:
Tveir taumandarsteggir hafa fundist í rannsóknarleiðangrum Náttúrufræðistofnunar í vor. Annar þeirra sást laumast í sefi við Hofgarðatjörn á Snæfellsnesi þann 17. maí en hinn sást á Garðsvatni í Skagafirði þann 20. maí. Þar að auki fannst taumandarsteggur á Sílalækjarvatni í Aðaldal þann 3. júní. Taumendur eru evrópskir flækingar sem sjást nærri eingöngu á vorin. Þær eru með minnstu andartegundum í Evrópu og þekkjast steggirnir helst á stórum hvítum taum sem liggur ofan frá augum og aftur á hnakka.
Hringönd Aythya collaris:
Stakur hringandarsteggur hefur sést í Neslandavík á Mývatni í maí. Hringendur sjást nú orðið reglulega í skúfandahópum á Mývatni og á SV-horni landsins. Þær eru hingað komnar frá Ameríku. Hringandasteggir þekkjast m.a. á kúftu höfuðlagi, hvítum hring við nefrót og gráum síðum. Mynd af hringandarstegg.
Kúfönd Aythya affinis:
Kúfandarsteggur sást á tjörn við Rif á Snæfellsnesi þann 11. maí. Þetta er í annað skiptið sem þessi ameríska andartegund finnst á Íslandi. Kúföndin var í hóp með skúföndum en þær eru náskyldar kúföndum. Ekki er ósennilegt að skúfandarkolla hafi lokkað þennan sjaldgæfa fugl hingað til Íslands. Stundum verður vart við kynblendinga dugganda og skúfanda og geta þeir verið mjög áþekkir kúföndum í útliti.
Blikönd Polysticta stelleri:
Tvær blikendur hafa sést að undanförnu. Önnur þeirra er steggur sem hefur haldið sig í nokkur ár við Borgarfjörð-eystri. Sást hún nokkrum sinnum í lok apríl og var þá í fylgd með straumöndum. Hin bliköndin var kvenfugl og fannst hún þann 9. apríl við Nýhörn á Melrakkasléttu. Sá fugl sást síðan aftur seint í apríl en hefur ekki sést síðan. Blikendur eru mjög sjaldgæfar á Íslandi.
Flóastelkur Tringa glareola:
Flóastelkur sást í Helgavogi við Mývatn þann 30. maí. Áður var talið að flóastelkar yrpu við Mývatn en þá sáust þeir reglulega á þeim slóðum. Þrátt fyrir grun um varp þessarar tegundar hér á landi þá er hún mjög sjaldgæfur evrópskur flækingur og höfðu aðeins 26 flóastelkar sést á Íslandi fyrir 1996. Flóastelkar eru minni en stelkar, brúnir á lit og með áberandi ljósa brúnarák. Mynd af flóastelk.
Kolþerna Chlidonias niger niger:
Evrópsk kolþerna sást með um 500 kríum við Hrísatjörn í Svarfaðardal þann 19.maí. Kolþernur koma nokkuð reglulega til landsins og hafa m.a. orpið við Stokkseyri. Smávægilegur útlitsmunur er á evrópskum- niger og amerískum- surinamensis kolþernum og komið hefur í ljós að þær amerísku eru ótrúlega tíðar hér á landi.
Tígulþerna Chlidonias leucopterus:
Þann 31. maí sást tígulþerna við bæinn Grjótnes á Melrakkasléttu. Önnur slík fannst síðan vestan Langavatns, nærri Ytritungu, á Snæfellsnesi þann 1. júní. Tígulþernur eru afar sjaldgæfar á Íslandi en innan við 10 fuglar hafa sést. Þær eru náskyldar kolþernum og svipar nokkuð til þeirra í útliti. Helstu einkenni eru að vængir og stél eru áberandi ljós og stinga í stúf við kolsvartan búk og undirvængþökur. Kolþernur koma hingað frá Evrópu.
Gaukur Cuculus canorus:
Í fuglaskoðunarferð FÍ 13. maí sást grár gaukur við Garðskagavita á Miðnesi. Um 20 manns sáu fuglinn þar sem hann flaug á milli steina við bílastæðið. Grár gaukur fannst síðan dauður á Arnarnesi í Garðabæ þann 19.mai. Gaukar eru sjaldgæfir á Íslandi og sjást nær eingöngu við landið SA-vert. Líklega er þetta í þriðja skiptið sem gaukur finnst á SV-landi. Gaukar flækjast hingað frá Evrópu. Mynd af gauki.
Gulerla Motacilla flava flava:
Þann 3. maí sást gulerla við bæinn Kvísker í Öræfum. Náðist fuglinn og var hann merktur með álmerki frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem gulerla er merkt á Íslandi. Sjö undirtegundir af gulerlu eru þekktar í Evrópu og var þessi fugl af gerðinni flava en hún verpir í Skandinavíu og V-Evrópu. Gulerlur eru sjaldgæfar á Íslandi og sjást oftast á haustin. Mynd af gulerlu.
Svartsvanur Cygnus atratus:
Svartsvanur hefur sést við Akra á Mýrum síðan í apríl. Þar heldur hann sig á tjörnum skammt frá vegi og gefur ágætt færi á sér. Þetta mun vera fimmti svartsvanurinn sem vart verður við hér á landi. Svartsvanir lifa í Ástralíu en hafa verið fluttir til Bretlandseyja. Þar hafa þeir sloppið úr haldi og er fuglinn á Ökrum að öllum líkindum þaðan kominn.
Taumgæs Anser indicus:
Fjórar taumgæsir sáust um 25. maí við Húsey í Hróarstungu. Taumgæsir eru andagarðsfuglar í Evrópu sem sleppa stundum út og flækjast víð, m.a. til Íslands. Þær eru þó afar sjaldséðar hér á landi.
stjórnandi frá fornöld kubbur#2950