Ástargaukar eru litlir, litríkir páfagaukar með stutt stél og tiltölulega breiðan búk. Náttúruleg heimkynni þeirra eru í Mið- og Suður-Afríku. Til eru allnokkrar tegundir af ástargaukum en þær sem oftast sjást sem heimilisfuglar eru Róshöfðar (Peach-faced), Grímu-ástargaukar (Masked) og Fischer´s ástargaukar. Oft er litið á Róshöfðann sem gáfaðasta fuglinn af þessum þremur tegundum, en hinir eru hæglátari og geðþekkari persónuleikar. Margir fuglaræktendur meta mikils mismunandi litastökkbreytingar sem hægt er að ná fram hjá ástargaukum, en sú skyldleikaræktun, sem er nauðsynleg til að fá fram sérstaka liti, er óæskileg þegar horft er til erfðagalla. Erfðagallar sem komið hafa fram með slíkri ræktun eru meðal annars minna mótstöðuafl gegn sjúkdómum, styttri lífslíkur og útungunargallar.
Við hverju má búast af ástargaukum:
Ástargaukar eru frekar skemmtilegir fuglar, sem ekki hafa mikla eyðileggingarhvöt, og geta verið mjög góðir heimilisfuglar fyrir alla fjölskylduna. Þeir eru svolitlir grallarar sem finnst gaman að fela sig t.d. undir blöðum, í skyrtuvösum eða í löngu hári. Almennt séð eru þeir lélegir að tala en geta auðveldlega lært ýmsar brellur. Ef ástargaukur er einn á heimilinu getur hann verið tiltölulega hljóðlátur og sýnt ástúðlega hegðun. Flokkhegðun ástargauka er hinsvegar með öðrum hætti þar sem þeir geta verið mjög ráðríkir á sitt svæði og geta jafnvel drepið nýja fugla í flokknum eða veika einstaklinga sem að sýna hegðunarfrávik (þar með talda unga fugla).
Er ástargaukurinn karlkyns eða kvenkyns?
Fáar tegundir ástargauka líta mismunandi út eftir kyni, því eru þeir oftast kyngreindir með DNA rannsókn eða speglun á kviðarholi. Sumir ræktendur hafa þjálfað upp hjá sér kunnáttu í að greina milli kynja út frá hegðunarmynstri (s.s. staða á greinum) og kvenfuglar eru oft aðeins þyngri en karlfuglar, en ekki er hægt að staðfesta kyn nema með fyrrgreindum aðferðum. Auðvelt er að rækta ástargauka og einfalt að handmata ungana.
Eru ástargaukar gæfir?
Ungar, handmataðir ástargaukar aðlagast fljótt nýjum kringumstæðum og umönnun. Snemma á lífsleiðinni ætti að kynna þá fyrir nýjum aðstæðum sem þeir lenda mjög sennilega í einhvern tímann í lífinu (ferðalög í bíl, heimsókn til dýralæknisins, margir gestir í heimsókn í einu, önnur gæludýr á heimilinu). Þetta gerir þá hæfari til að takast á við þessa hluti seinna á lífsleiðinni. Oft getur verið erfitt að spekja ástargauka sem eru aldir upp af foreldrafuglunum.
Hvað gera ástargaukar allan daginn?
Hægt er að hafa ástargauka eina á heimili en þeir eru mjög félagslyndir og njóta samveru annars ástargauks. Parið getur eytt mörgum stundum í að snyrta hvort annað og spjalla. Auðvelt er að hafa ofan af fyrir þeim með einföldum leikföngum og þar sem þeir dýrka að naga verða leikföngin að vera laus við alla eitraða málma, króka, skarpa hluti eða smáhluti sem auðvelt væri fyrir þær að gleypa. Gott er að sjá þeim fyrir mjóum, ferskum trjágreinum, sem klipptar eru af trjám sem eru hvorki eitruð eða meðhöndluð með skordýraeitri. Á Íslandi er mikið af birkitrjám sem eru ekki eitruð fyrir fuglana en í görðum er að finna ýmsar tegundir sem gætu verið eitraðar. Talið við dýralækninn ykkar ef þið eruð ekki viss um hvaða tré eru í lagi.
Búrið og umhverfi fuglsins ætti að vera:
* eins stórt og hægt er, a.m.k. ætti að vera pláss fyrir fugla til að fljúga milli greina.
* hreint, öruggt, auðvelt í meðförum
* úr endingargóðu, eiturefnalausu efni (forðist zink)
* með hreinum, eiturefnalausum trjágreinum af mismunandi stærðum
* með fóður- og vatnsdalla gegnt opnanlegri hlið búrsins
* með greinar sem ekki eru staðsettar beint yfir fóðurdöllum
* með leikföngum og dóti sem hægt er að flytja til í búrinu, til að koma í veg fyrir leiðindi og árásargirni
* hægt að bjóða upp á útiveru í vernduðu umhverfi stöku sinnum – ferskt loft, sólskin og hreyfing er mjög jákvætt
Hvernig á að merkja fuglinn?
Tvær aðferðir eru notaðar til varanlegrar merkingar á fuglum, húðflúr og örmerki. Þótt að hægt sé að nota númeraða fótahringi, er sú aðferð ekki áreiðanleg. En hver fugl er með einstakt mynstur á fótunum, einskonar fingrafar. Myndir af fótunum, sem eru uppfærðar reglulega eftir því sem fuglinn eldist, er hægt að nota til að bera kennsl á fuglinn og til að koma í veg fyrir svindl sem getur sést með hinum aðferðunum. Mikilvægt er að eigandi meti hvort merkja þurfi heimilisfuglinn, t.d. er ekki hefð fyrir að merkja ástargauka með örmerkjum né húðflúri.
Hvers vegna á að vængstýfa?
Ástargaukar, sem leyft er að fara frjálsum ferða sinna um heimilið, eru oft minna tamdir og geta þar að auki rekist á margar hættur á ferðum sínum. Því er mælt með að vængstýfa fuglana. Markmið vængstýfinga er EKKI að gera fuglinn óflughæfan, heldur að fuglinn geti ekki forðað sér á miklum hraða á flugi og til að koma í veg fyrir að þeir fljúgi út. Vængstýfingar þarf oft að endurtaka 8-12 vikum eftir að fuglinn er í sárum.
Hvernig á að halda ástargaukum heilbrigðum, ánægðum og öruggum!
* Veitið fuglinum mikla athygli.
* Fóðrið með fersku, hágæða, eiturefnalausu heilfóðri.
* Takmarkið viðbótarmagn við lífrænt ræktað grænmeti og ávexti.
* Gefið ekki fuglasand, það er ekki nauðsynlegt með auðmeltanlegu heilfóðri.
* Hafið alltaf hreint, ferskt vatn hjá fuglinum.
* Fjarlægið og setjið nýtt fóður og vatn tvisvar á dag til að hámarka virkni heilbrigðs fugls.
* Sjáið til þess að fuglinn getið farið öðru hverju í bað, sturtu eða úðun (a.m.k. vikulega).
* Forðist að úða skordýraeitri í húsinu.
Hvað skoðar dýralæknirinn hjá heilbrigðum ástargauk?
* Þurrar opnar nasir
* Sléttur goggur
* Tær augu án útferðar
* Sléttar, bjartar fjaðrir án fjaðurráka (stress bars), gegnsæi eða slitnum, úfnum brúnum
* Heilbrigði húðar
* Rétt líkamsstaða
* Engir hnúðar á fuglinum
* Jafnt skriðdýramynstur á fótum
* Klær og goggur af réttri lengd
* Kok og munnhol án útbrota og slíms
* Hlustun á hjarta, lungum og loftsekkjum
Algengustu vandamálin hjá ástargaukum:
* Fjaðurplokk
* Öndunarfærasjúkdómar
* Bakteríu-, veiru- og sveppasýkingar
* Graftarkýli í munnholi
* Kalkskortur
* Magavíkkun af taugafræðilegum uppruna
* A-vítamín skortur
* Eitranir
* Chlamydia
* Æxli
* Sníkjudýr
Flestir sjúkdómar sem hrjá ástargauka eru afleiðing næringarskorts. Að fara með fuglinn reglulega til dýralæknis í skoðun getur komið í veg fyrir marga af þeim sjúkdómum sem áður eru upptaldir og hjálpar þér þ.a.l. til að eiga langt og gott samband við þinn ástargauk.
Mikilvægt er að takmarka aðgang fugla að:
* Loftviftum
* Heitri steikingarfeiti
* Teflon húðuðum hlutum (ofhituðum) og teflon gufum frá þessum hlutum
* Fuglafóthlekkjum
* Greinum með sandpappír
* Tóbaks- og sígarettureyk, handþvottur mikilvægur
* Súkkulaði
* Avocado
* Salti
* Áfengi
* Eitruðum plöntum
* Skordýraeitri
* Eitruðum gufum
* Leikföngum sem auðvelt er að taka í sundur
* Hundum, köttum og ungum börnum
* Cedarviði, rauðviði og þrýstimeðhöndluðum tréafskurði
* Sink og járn uppsprettum
Þýtt og staðfært með leyfi Harrison Bird Foods
©Anna Jóhannesdóttir, 2009 fyrir Animalia ehf.
-Það er snákur í stígvélinu mínu