Dísur eru meðalstórir fuglar sem eiga heimkynni sín í Ástralíu. Þær eru meðal vinsælustu heimilisfuglanna. Þær aðlagast vel lífi í búrum og auðvelt er að rækta þær ef þær eru hafðar tvær og tvær saman í stærri hóp. Sumir dísuræktendur leggja mikla áherslu á að ná fram mismunandi litastökkbreytingum, en sú skyldleikaræktun, sem er nauðsynleg til að fá fram sérstaka liti, er óæskileg þegar horft er til erfðagalla. Erfðagallar sem komið hafa fram með slíkri ræktun eru meðal annars minna mótstöðuafl gegn sjúkdómum, styttri lífslíkur og útungunargallar. Lutino dísur eða hvítar, eru líklega þær sem oftast sjást erfðagallar hjá, og þar má nefna skallabletti á höfði og mikla taugaveiklunartilhneigingu (þ.á.m. ”night fright”). Hin ”venjulega” gráa dísa á mestu möguleikana á löngu og heilbrigðu lífi.
Nokkrar tölulegar staðreyndir:
Lengd: 31 cm
Þyngd: 75-100 g
Kynþroskaaldur: 6-12 mánuðir
Meðallífslíkur: 4-6 ár en geta orðið 30-32 ára.
Kaup á dísarfugli:
Ef kaupa á dísarfugl þarf ýmislegt að hafa í huga. Fuglaframleiðslubú eru sem betur fer lítt þekkt hérlendis en gott er að vera duglegur að spyrja starfsfólk dýrabúða um fuglinn því það á að hafa allar upplýsingar um hann. Best er að kaupa fuglinn beint frá ræktanda. Dísur eru mjög vinsæl gæludýr og eru oft fyrsta gæludýr barna. Mjög mikilvægt er að foreldrar geri sér grein fyrir hvað er verið að fara út í, og athugi að ekki er hægt að ætlast til að börn axli alla þá ábyrgð sem fylgir því að eiga gæludýr. Ábyrgðin verður að hæfa aldri og þroska barnsins og þótt auðvelt virðist vera að hirða um dísarfugla þarf að gæta þess að fuglinn endi ekki vanræktur í einhverju horni hússins. Því miður eru til dæmi um fugla sem svelta til dauða eða ofþorna, vegna þess að það gleymist að gefa þeim. Það segir sig sjálft að engin ánægja fylgir slíku ástandi, hvorki fyrir fuglinn né eigandann. Mikilvægt er að hafa í huga að ábyrgðin á velferð fuglsins liggur í höndum foreldranna og oft enda þeir sem umsjónaraðili fuglsins. Þessu fylgir oft mikil vinna og er hún skemmtilegri ef foreldrarnir hafa gaman að fuglum. Það þarf að ríkja sátt á milli foreldra/ábyrgðaraðila og barnsins um hvaða gæludýr er keypt, ef að foreldrarnir „þola” ekki fugla er betra að fá sér aðra tegund gæludýrs.
Eru dísur gæfar?
Ungar, handmataðar dísur aðlagast fljótt nýjum kringumstæðum og umönnun. Snemma á lífsleiðinni ætti að kynna þær fyrir nýjum aðstæðum sem þær lenda mjög sennilega í einhvern tímann á lífsleiðinni (ferðalög í bíl, heimsókn til dýralæknisins, margir gestir í heimsókn í einu, önnur gæludýr á heimilinu). Þetta gerir þær hæfari til að takast á við þessa hluti seinna á lífsleiðinni. Vera kann að það þurfi að þjálfa og móta hegðun dísarfugla til að koma í veg fyrir að þeir bíti, sérstaklega á þetta við um ofurvarkára eldri dísarfugla.
Við hverju má búast af dísum:
Dísur eru frekar hljóðlátir og skemmtilegir fuglar, sem ekki hafa mikla eyðileggingarhvöt. Þær eru ljúfir fuglar sem tiltölulega auðvelt er að sjá um og hirða og því eru þær gott val sem fyrsti fuglinn fyrir börn og byrjendur. Þrátt fyrir að þær hafi ekki tilhneigingu til að bindast ákveðnum einstakling, eru þær betri gæludýr sem stakur fugl frekar heldur en par. Þó er hægt með þolinmæði og með að veita hverjum einstakling mikla athygli, að hafa fleiri dísur saman á heimili. Talhæfileiki dísarfugla er takmarkaður (karlfuglar geta verið betri), en sumir einstaklingar eru það góðir að flauta að hægt er að þekkja lagið sem flautað er.
Er dísan karlkyns eða kvenkyns?
Ungar gráar dísur hafa gular rendur undir flugfjöðrunum. Þessar rendur ná ekki yfir allan vænginn hjá karlfuglum og hverfa alveg um 9 mánaða aldurinn. Kvenfuglar hafa þessar rendur hinsvegar alla ævi og ná þær yfir allan vænginn. Litir á höfði eru bjartari hjá kvenfuglum en karlfuglum. Litastökkbreytingar (lutino, pied, pearl) sýna ekki sama mun milli kynja í fjaðurmynstrinu. Hægt er að þekkja kynin í sundur á hljóðunum – karlfuglinn gefur frá sér blæbrigðaríkari hljóð á meðan kvenfuglinn gefur frá sér stutt eintóna köll. Dísur geta eignast unga á hvaða árstíma sem er og eru mjög duglegar að verpa. Auðvelt er að handmata ungana, en erfitt getur verið að venja þá af því.
Hvað gera dísur allan daginn?
Dísur eru leikglaðar og auðvelt er að hafa ofan af fyrir þeim með einföldum leikföngum. Þar sem þær (sérstaklega kvenfuglar) dýrka að naga verða leikföngin að vera laus við alla eitraða málma, króka, skarpa hluti eða smáhluti sem auðvelt væri fyrir þær að gleypa. Gott er að sjá þeim fyrir mjóum, ferskum trjágreinum, sem klipptar eru af trjám sem eru hvorki eitruð eða meðhöndluð með skordýraeitri. Á Íslandi er mikið af birkitrjám sem eru ekki eitruð fyrir fuglana en í görðum er að finna ýmsar tegundir sem gætu verið eitraðar. Talið við dýralækninn ykkar ef þið eruð ekki viss um hvaða tré eru í lagi.
Búrið og umhverfi fuglsins
Búrið ætti að vera eins stórt og hægt er, a.m.k. ætti að vera pláss fyrir fuglinn til að fljúga milli greina. Búrið þarf að vera hreint, öruggt, auðvelt í meðförum, úr endingargóðu, eiturefnalausu efni (forðist zink). Í búrinu þurfa að vera greinar af mismunandi stærðum, hreinar, eiturefnalausar trjágreinar. Forðist að hafa greinar staðsettar beint yfir fóðurdöllum. Fóðurdalla og vatnsdalla skyldi hafa gegnt opnanlegri hlið búrsins. Einnig þarf að vera pláss fyrir nokkrar mismunandi gerðir leikfanga í búrinu.
Hvernig á að merkja fuglinn?
Tvær aðferðir eru notaðar til varanlegrar merkingar á fuglum, húðflúr og örmerki. Þótt að hægt sé að nota númeraða fótahringi, er sú aðferð ekki áreiðanleg. En hver fugl er með einstakt mynstur á fótunum, einskonar fingrafar. Myndir af fótunum, sem eru uppfærðar reglulega eftir því sem fuglinn eldist, er hægt að nota til að bera kennsl á fuglinn og til að koma í veg fyrir svindl sem getur sést með hinum aðferðunum. Mikilvægt er að eigandi meti hvort merkja þurfi heimilisfuglinn, t.d. er ekki hefð fyrir að merkja dísur með örmerkjum né húðflúri.
Hvers vegna á að vængstýfa?
Dísum, sem leyft er að fara frjálsum ferða sinna um heimilið, eru oft minna tamdar og geta þar að auki rekist á margar hættur á ferðum sínum. Því er mælt með að vængstýfa fuglana. Markmið vængstýfinga er EKKI að gera fuglinn óflughæfan, heldur að fuglinn geti ekki forðað sér á miklum hraða á flugi og til að koma í veg fyrir að þeir fljúgi út. Vængstýfingar þarf oft að endurtaka 8-12 vikum eftir að fuglinn er í sárum.
Hvernig á að halda dísum heilbrigðum, ánægðum og öruggum:
Veitið fuglinum mikla athygli. Fóðrið með fersku, hágæða, eiturefnalausu heilfóðri, eins og Harrison´s smákögglum eða mjöli, ásamt daglegri viðbót í formi niðurskorins grænmetis og ávaxta, samkvæmt leiðbeiningum á bakhlið pokans. Gefið ekki fuglasand, það er ekki nauðsynlegt með auðmeltanlegu heilfóðri. Hafið alltaf hreint, ferskt vatn hjá fuglinum. Fjarlægið og setjið nýtt fóður og vatn tvisvar á dag til að hámarka virkni heilbrigðs fugls. Sjáið fyrir að fuglinn getið farið öðru hverju í bað, sturtu eða úðun (a.m.k. vikulega). Forðist að úða skordýraeitri í húsinu.
Hvað skoðar dýralæknirinn hjá heilbrigðum dísarfugli:
• Þurrar opnar nasir
• Sléttur goggur
• Tær augu án útferðar
• Sléttar, bjartar fjaðrir án fjaðurráka (stress bars), gegnsæi eða slitnum, úfnum brúnum
• Heilbrigði húðar
• Rétt líkamsstaða
• Engir hnúðar á fuglinum
• Jafnt skriðdýramynstur á fótum
• Klær og goggur af réttri lengd
• Kok og munnhol án útbrota og slíms
• Hlustun á hjarta, lungum og loftsekkjum
Algengustu vandamálin hjá dísarfuglum:
* Offita
* Æxlunarfæravandamál (fast egg)
* Öndunarfærasjúkdómar í efri öndunarvegi (hnerri)
* Augnvandamál (bólgur, augnrennsli)
* Chlamydia
* Fjaðurplokk
* Gullitaðar fjaðrir hjá lutino dísum
* Öndunarvandamál (nær ekki andanum)
* Blý- eða sinkeitrun
* Sníkjudýr
* Áverkar
* Ósamhæfing hreyfinga (sérstaklega lutino dísur)
Flestir sjúkdómar sem hrjá dísur eru afleiðing næringarskorts. Að fara með fuglinn reglulega til dýralæknis í skoðun getur komið í veg fyrir marga af þeim sjúkdómum sem áður eru upptaldir og hjálpar þér þ.a.l. til að eiga langt og gott samband við þinn dísarfugl.
Mikilvægt er að takmarka aðgang fugla að:
• Loftviftum
• Heitri steikingarfeiti
• Teflon húðuðum hlutum (ofhituðum) og teflon gufum frá þessum hlutum
• Fuglafóthlekkjum
• Greinum með sandpappír
• Tóbaks- og sígarettureyk, handþvottur mikilvægur
• Súkkulaði
• Avocado
• Salti
• Áfengi
• Eitruðum plöntum
• Skordýraeitri
• Eitruðum gufum
• Leikföngum sem auðvelt er að taka í sundur
• Hundum, köttum og ungum börnum
• Cedarviði, rauðviði og þrýstimeðhöndluðum tréafskurði
• Sink og járn uppsprettum
Þýtt og staðfært með leyfi Harrison Bird Foods
©Anna Jóhannesdóttir, 2009 fyrir Animalia ehf.
-Það er snákur í stígvélinu mínu