Varpið Jæja, þar sem ég er búin að vera að síendurtaka við ykkur að vera duglegri að senda eitthvað inn, get ég auðvitað ekki verið nein undantekning á því, vona að þið takið mig til fyrirmyndar! :)
Allavega langaði mig að tala aðeins um varpið og ungana og allt sem fylgir því. Það er voðalega gaman að fá unga á heimilið, sjá hann uppgötva allt og fylgjast með honum vaxa. Persónulega finnst mér ungarnir lang fallegastir þegar þeir eru svona á milli tveggja og þriggja vikna og komnir með mest allt af fiðrinu og byrjaðir að fá fjaðrir, mér finnst þeir algjörar rúsínur þá.
Fólk er oft í frekar miklum vandræðum hvernig á að fá fuglana til að verpa, hvað það þarf að gera og svo framvegis. Þegar mínir verptu fyrir nokkrum árum síðan gerðum við hinsvegar alveg engar ráðstafanir. Það sem dugði var bara tveir fuglar af sitthvoru kyninu og varpkassi - þá kom unginn :) Lenti samt í miklum vandræðum með karlinn, alltaf þegar hún skrapp úr varpkassanum til að fá sér að borða stökk hann inn í kassann og fór að leika sér að eggjunum, velta þeim um og það endaði alltaf með að þau brotnuðu og þess vegna náðu þau bara að koma upp einum unga. Spurning hvort það sé málið að aðskilja fuglana á meðan hún liggur á, hefði allvega þurft í mínu tilviki.
Mér finnst þess vegna að það eigi ekki að vera með neinar óþarfa áhyggjur af þessu, þeir geta þetta úti í náttúrunni og auðvitað hérna líka. Það gerir samt alveg pottþétt ekkert til að gefa þeim nóg af vítamínum, því það skilar sér náttúrulega til unganna sem þurfa auðvitað á þessu að halda.
Það eru samt nokkur atriði sem þarf að hafa á hreinu, sérstaklega það að vera ekki að snerta eggin eða ónáða mikið á meðan hún liggur á. Ef eggin eða unginn þegar hann er fæddur eru snert, getur mamman afneitað þeim/honum. Þá er auðvitað hægt að handmata ungann sem er heilmikið verk, en sumir gera þetta og fuglarnir verða rosalega gæfir eftirá. Síðan er það að ef að varpkassinn er ekki tekinn eftir einhvern tíma, þá halda þau endalaust áfram að verpa. Þannig það verður að taka varpkassann til að stoppa þau af því það reynir heilmikið á kvenfuglinn að verpa eggjunum, sem eru tiltölulega stór miðað við það hvað fuglinn er lítill. Veit ekki hvort þetta er svona með alla fugla, en þau allavega hættu ekki hjá mér fyrr en kassinn var tekinn :)
Ég hef líka alltaf haldið að þegar fuglarnir ala ungana sína upp sjálfir að þá kenni pabbinn þeim að fljúga. Hafa ekki allir verið alveg sammála mér í því þannig ég ætla ekkert að fullyrða neitt um það. Það er mjög gaman að fylgjast með þessari kennslu, pabbinn flýgur á einhvern tiltekinn stað, stoppar og lítur á ungann og flýgur síðan í burtu og ætlast til að unginn endurtaki leikinn. Minn var alveg æstur í að kenna unganum sínum að fljúga á snúruna sem heldur ljósinu uppi en unginn ætlaði aldrei að þora því. Þannig minn var orðinn heldur betur óþolinmóður og endurtók þetta aftur og aftur og ætlaði sko að láta hann gera þetta. Á endanum flaug litli af stað þegar pabbinn var í ljósinu, nema hann þorði fyrir enga muni að snerta snúruna þannig hann lenti á bakinu á pabbanum sem varð alveg brjálaður og hefur aldrei snert snúruna síðan! :)

Þetta er svona það sem ég man eftir í augnablikinu, mér finnst persónulega að það eigi bara að leyfa varpinu að ganga sinn vanagang og vera ekki að skipta sér of mikið af þeim á þessu tímabili, en ef fólk vill handmata þá er auðvitað ekkert að því ef það hefur tíma og treystir sér í þetta, sem ég myndi ekki gera :)
Játs!