Eftir að hafa lesið yfir aðra grein um sama efni sem send var hingað inn þá fannst mér að ég yrði að setja saman litla grein sem væri kannski aðeins gáfulegri.

Það að fuglar séu afkomendur risaeðla er alls ekki ný hugmynd og í dag eru fuglar flokkaðir í hóp sem heitir Archosaurmorpha og inniheldur auk fuglana meðal annars krókódíla og risaeðlur.

Fuglar eru taldir afkomendur risaeðla sem kölluðust Theropods en Theropods hafa almenn einkenni sem einnig fuglar hafa eins og
langur, hreifanlegur s-laga háls
lögun fóta (og þá sérstaklega tærnar) og öklaliðs
hol bein
samvaxin viðbein(óskabein) og bringubein

Dæmi um theropod er hinn frægi Tyrannosaurus rex. Innan theropod risaeðluhópsins er hópur sem kallast dromeosaur sem kemur fram seint á Júratímabilinu. Það er frá þessum hópi risaeðla sem fuglar eru taldir hafa þróast frá. Sem dæmi um dromeosaur getum við nefnt félaga T.rex úr Jurassic Park Velociraptor. Dromeosaur voru ekki risaeðlur sem maður vildi hitta á förnum vegi, þetta voru rándýr sem veiddu í hópum, rúmlega 2 m á hæð. Sameiginlegt einkenni er stór kló á afturfæti sem talið er að dromeosaur hafi notað til að kviðrista bráðina með því að sparka. Eftir því sem dromeosaur þróast þá koma fram fleiri “fugla-einkenni” eins og bygging úlnliðs og axlarliðs sem leifa hreifingar sem notaðar eru við að blaka vængjum. Seint á júratímabilinu eða snemma á krítartímabilinu, er komin fram fyrsti þekkti fuglinn, Archaeopteryx, hann er með vængfjaðrir sem er raðað eins og hjá nútíma fuglum, og sú fjaðraröðun sem er nauðsynleg fyrir flug. Einnig eru flugfjaðrirnar ósamhverfar eins og hjá fljúgandi fuglum sem bendir til að þær hafi þróast og mótast eftir þeirri loftmótstöðu sem myndast við blökun vængja. Fundist hafa steingerfingar af tveim öðrum ættkvíslum af dromeosaur, sem einnig eru fiðraðar, (Caudipteryx og Protoarchaeopteryx) sem hvorug gat flogið. Þessir steingerfingar eru samt taldir vera yngri en Aracaeopteryx. Ekki er vitað hvenær nákvæmlega dromeosaur byrjaði að fá fjaðrir eða hversu algengt það var þar sem steingerfingarnir verða að vera óvenjulega vel varðveittir í fíngerðu setlagi til að móti fyrir fjöðrunum.

Hvað varðar fjaðrir þá er talið að dúnn hafi þróast sem einangrandi lag, eins og hár hjá spendýrum og fjaðrir hafi einfaldlega verið skraut. Þetta voru svo hlutir sem nýttust vel þegar fyrstu dromeosaurarnir fóru að hefja sig til flugs.

Þróun flugs er svo annað mál og nokkrar kenningar þar í gangi og efni í aðra grein.

Vonandi að þessi grein séð eitthvað fræðandi, hún er alls ekki gallalaus enda unnin í svolitlum flýti.

Heimild: Vertebrate life
kveðja batteri ;)