If you want to make an apple pie from scratch, you must first create the universe.
Markús!
Jæja nú er komið að því að kynna hér til leiks nýjasta fjölskyldumeðliminn, hann Markús. Markús er sólpáfi eða Sun-conure. Ég fékk hann á síðasta fimmtudag eða 31. júlí sem mun vera afmælisdagurinn hans hér eftir. Ég fékk hann hjá Tjörva í Furðufuglum og fylgifiskum, við vorum svo heppin að mega koma kvöldið sem fuglasendingin kom í búðina og kíkja á hann. Ég ætlaði ekkert að taka hann með heim strax, heldur bara geyma hann í búðinni þangað til daginn eftir. En hann var svo lítill í sér eftir allan skarkalann við flutningana og vængstýfinguna að hann kúrði bara og kúrði í örygginu hjá mér og ég bara gat alls ekki fengið það af mér að skilja hann eftir einan þarna um nóttina! Hann er algert ungabarn, einungis fjögurra mánaða, nýkominn úr handmötun. Hann er búinn að vera rosalega duglegur síðan hann kom hingað til okkar. Strax búinn að læra að koma á putta og búinn að borða svo mikið af ávöxtum að það er orðið meira en allir hinir fuglarnir hafa borðað til samans síðan ég fékk þá. Hann er líka alger kelirófa og kúrir allan daginn út og inn, annað hvort inná mér eða í teppi eins og á myndinni. Hann er líka svolítill grallari og leikur sér mikið með kisudót og allskonar hringlur. Í gær í góða veðrinu kom hann meira að segja með mér út í sólbað. Aðlögunin við hina fuglana gengur líka eins og í sögu, hann og Olli dísapáfagaukurinn minn léku sér saman í leikbúrinu í gær en voru samt örlítið óöruggir báðir. Hann er alls ekki búinn að vera neitt hávær heldur en ég skil samt þetta með háværu öskrin, en þau eru fremur fátíð. Á morgun er planað að fara útí að húsvenja hann, munum við fara eftir ráðum Beggu. Við biðjum innilega að heilsa öllum fuglaunnendum þarna úti, kær kveðja Ukyo og Markús