Látrabjarg Núna með þessari grein langar mig til þess að fræða aðra hugara hér á fuglaáhugamálinu um Látrabjarg og fuglalífið þar. Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands og í Látrabjargi er eitt þéttsettnasta fuglabjarg heims. Látrabjarg er vestasti oddi Evrópu og er það 14 kílómetrar að lengd og allt að 441 m. hátt við Heiðnukinn. Á sumrin er hver einasta sylla í bjarginu þéttsetin af fuglum og það má segja að Látrabjarg sé mekka fuglaunnendans því svona þéttsetið bjarg sést varla annars staðar.

Í Látrabjargi verpa margar fuglategundir og ég ætla að nefna nokkrar hér:

Álka
Lundi
Svartfugl
Langnefja
Stuttnefja
Rita
Fýll

Stærsta Álkubyggð í heimi er í Stóruurð og verpa fuglarnir í nánu sambýli og í hverjum bjarghluta má segja að ein til tvær fuglategundir séu ríkjandi þar. Náttúruöflin hafa hjálpað mikið til við að gera Látrabjarg að paradís fuglanna. Sjórinn hefur barið bergið svo um munar og þá hafa myndast klettasyllur og urðir og svo hefur vindurinn hjálpað mikið til. Þar sem svona margir fulgar koma saman eru jú auðvitað líka egg. Í Látrabjargi hefur bjargsig verið stundað síðan frá landnámi enda mikill matur er í björgunum. Bjargsig er mjög hættulegt og oft hafa orðið alvarleg slys og menn hafa látist. En núna er bjargsig lítið stundað en bændurnir í sveitinni síga oft í bjargið til að ná í egg. Dýralífið þarna er líka gríðarlegt og úti fyrir bjarginu eru klappir þar sem útselir koma sér makindalega fyrir og við sjóndeildarhringinn sjást stundum hvalir. En á bjargbrúninni verpir Lundinn í holurnar sínar og er bakkinn sundurgrafinn og er stranglega bannað að labba þangað því þá er voðinn vís.

Látrabjarg er að mínu mati fallegasti staður á Íslandi. Ég hef oft komið þangað enda er afi minn fæddur á Hvallátrum sem er lítið býli í nágrenni bjargsins. Ég fór svo á Hvallátra síðasta sumar í fyrsta skipti í 10 ár og alltaf er jafn gaman að koma þangað. Ég legg til að þið sem eruð á ferð um Vestfirðina leggið leið ykkar á Látrabjarg og ekki skemmir það ef að veður er gott. En ég vona að ykkur hafi fundist þetta skemmtileg lesning.

Kv. Geithafu