Eins og titill greinarinnar ber með sér langar mig til þess að segja ykkur frá fuglalífinu á Arnarstapa á Snæfelssnesi. Um helgina fór ég í útileigu með fjölskyldu minni og vinafólki okkar. Ég ásamt þremur vinum mínum löbbuðum oft ströndina á Arnarstapa þar sem björgin, skútarnir og gjárnar geyma líf mörg þúsund sjófugla.
Við gengum fyrst niður á höfnina og úti í sjónum var lítill hólmi þar sem Rita, Fýll og Svartbakur skiptu bróðurlega á milli sín plássinu. Ritan var í “bjarginu” sjálfu í hólmanum en Fýllinn og Svartbakurinn voru á grasbalanum ofan á hólmanum. Því næst gengum við að tjörn sem ber heitið Bárðarlaug. Bárðarlaug er friðlýst og á henni sáum við nokkra Óðinshana og einnig voru Svartbakar og Hettumáfar á tjörninni. Andahjón syntu einnig þarna með ungana sína. Frá Bárðarlaug gengum við að Pumpu sem er lítill “fjörður” þar sem klettar úr hálfgerðu stuðlabergi rísa hátt upp úr sjónum. Í klettunum í Pumpu var aðeins Rita með varpsvæði. Þetta voru mörg hundruðir Ritna sem verptu þarna og þegar Ritan flaug af hreiðri sínu sá maður glitta í tvo unga sem lágu þétt upp að hvor öðrum. Í mörgum hreiðrum var eggið samt ekki búið að klekjast út. Frá Pumpu gengum við í Eystrigjá. Þetta var nokkurs konar hellir þar sem Ritan var með varpsvæði. Í Eystrigjá var lítill viti og við gengum að honum og aðeins áfram og við vorum komnir á bjargbrúnina og þar sáum við Fýlinn sem lá á eggjum. Eins og í höfninni var Fýllinn á litlum Grasbala sem var í bjarginu.
Í Músargjá sem var í grennd við Eystrigjá var engann fugl að sjá. Við héldum göngu okkar áfram eftir ströndinni og alltaf var sama fuglinn að sjá, Fýl eða Ritu. Okkur fannst þetta vera svolítið einhæft að sjá aðeins þessar tvær einu fuglategundir og það var ekki fyrr en við heyrðum þennan gríðarlega vængjaþyt þegar við sáum aðra fuglategund. Það flugu nefnilega yfir okkur þessir tveir heljarinnar Hrafnar sem voru gríðarlega stórir.
Við löbbuðum ekki aðeins meðfram ströndinni á Arnarstapa til að skoða fuglana heldur fórum við í kríuvarpið þarna. Það var alveg endalaust af Kríu þarna og þær voru mjög mannýgar þarna t.d. vorum við bara að labba á einum göngustígnum þarna og einn félagi minn stígur út fyrir stíginn og inn á “yfirráðasvæðið” hjá Kríunum og þær gjörsamlega trylltust og þessi gífurlegi fjöldi af Kríum bjó sig til atlögu. Í flestum hreiðrunum hjá Kríunni voru ungarnir ekki komnir en það var þó í einstaka hreiðri þar sem maður sá tvo litla unga.
Þær fuglategundir sem við sáum mest af voru Rita, Fýll, Kría og Svartbakur. Inn á milli sáum við Stelk, Tjald, Hrafn og Hrossagauk. En meira hef ég ekki að segja frá fuglaskoðun minni á Arnarstapa um helgina og ég vona bara að þið hafið haft gaman af lestrinum.
PS. Ég hvet alla fuglaunnendur að kíkja á Arnarstapa á Snæfellsnesi því fuglalífið þar er með eindæmum mikið.
kv. Geithafu