
Rjúpur eru algengir fuglar um allt land bæði á láglendi og til fjalla. Þær eru staðfuglar. Kjörlendi þeirra er gróðursælt mólendi yfir varptímann en annars eru þær alls staðar í móum, mýrum og kjarrlendi. Á veturnar eru rjúpur helst til fjalla og á heiðum en einnig í hraunum og kjarrlendi. Þá eru þær alhvítar sem er vetrarbúningur þeirra. Rjúpur verpa 9-12 eggjum í seinihluta maí og fyrri hluta júní. Fæða þeirra eru jurtir ýmis konar, helst háplöntur og sækja þær í vaxtasprota. Stofnstærð er mjög sveiflukennd en sveiflur stofnsins ná yfir 10 ára tímabil. Fjöldi er talinn vera 50.000 til 200.000 varppör og allt að einni milljón fugla yfir veturinn. Rjúpur hafa þann vafasama heiður að vera vinsælasta bráð bæði fálka og manna en veiði er leyfð frá 15. október til 22. desember.