Víst að þetta áhugamál er loksins komið þá ætla ég að skrifa örfáar línur um finkurnar mínar tvær, Sindra og Ólavíu. Aðallega samt Sindra.
Síðastliðið sumar bjó ég einn, kærastan var í sveitinni og ég var bara eitthvað að dóla mér í íbúðinni okkar og það var frekar einmanalegt og ég nefndi það við hann pabba minn. Svo skemmtilega vildi til að finkuparið hans hafði einmitt nýverið tekist að koma upp unga, sem ég fékk til mín og maka með. Sindri var þá orðinn ca 3-4 mánaða gamall. En það munaði litlu að hann hefði ekki orðið eldri en nokkura daga.
Það minntist einhver á að finkupar í búri hefði ráðist á unga annars pars og drepið. Þetta er víst eðlilegt fyrir finkur í búri, ég er enginn expert, en þetta gerist víst.
Þegar Sindri var farinn að taka fjaðrir fór móðir hans að reyna að koma honum út úr hreiðurkassanum til að geta byrjað að verpa aftur. Hún gekk svo langt í þessu að hún fótbraut Sindra, beit fótinn einflaldega í sundur. Henti honum síðan út úr kassanum. Engar ýkjur!
Pabbi varð var við þetta og kom honum fyrir í öðru búri, gaf honum einhverja næringu og kom því svo fyrir að hann þyrfti ekki að hreyfa sig nema um einhverja sentimetra til að ná sér í fæðu og þetta gafst vel. Hann braggaðist hægt þar til einn daginn að búrið sem hann er í dettur í gólfið og fóturinn á Sindra brotnar AFTUR.
Sindri er þá orðinn hálfgert finkuflak. Hann lifir á botninum á búrinu, skríður um eins og mús til að komast að fæðunni og liggur í eiginn skít, klessandi fjaðrirnar sem þá hætta að veita honum skjól og hita.
Með þessu áframhaldi myndi Sindri ekki lifa næsta sólarhringinn. Pabbi tók sénsinn, setti fuglinn í bað og hreinsaði hann eins varlega og hægt var, kom honum síðan fyrir vöfðum inn í viskustykki og setti búrið við ofn og hitann upp.
Næsta dag var pabbi viss um að Sindri væri dauður þar til að hann heyrir píp í fuglinum sem er að kíkja út um fellingar á viskustykkinu.
Næstu daga grær fóturinn aftur og Sindri hoppar um á öðrum fæti á botninum. Hann braggast og nær sér, byrjar að fljúga en er alltaf rosalega hrifinn af því að fela sig í viskustykkinu og sefur helst ekki nema í matardallinum sínum. Hann var einnig orðinn nokkuð hændur að pabba og sérkennilega gæfur, sem er nokkuð sem telst frekar óvenjulegt fyrir finku. Þetta eru roooosalega heimskar skepnur.
Pabbi reddaði fuglinum maka, og þá steingleymdi Sindri öllu varðandi það að hann væri gæfur og var bara algerlega venjuleg finka. Nú er Sindri og makinn Ólavía komin á heimili hingað til mín og Sindri er frekar venjulegur að flestu leyti nema hann er ótrúlega harður í að battla spegil sem er í búrinu. Það hengur bjalla í speglinum Sindri ræðst á eftir að hafa séð sjálfan sig í speglinum, síðan spígsporar hann um og reigir sig, ótrúlega stoltur af því að hafa tekið ærlega í andstæðing sinn. Ég er ekki frá því að, miðað við finkur, sé Sindri sterklegar vaxinn en aðrar finkur. Ég hef átt 4 finkur yfir tíðina og enginn þeirra hefur verið jafn mikill “nagli” og Sindri :P