Svona í tilefni fuglaáhugamálsins langþráða ákvað ég að skrifa smá grein um fuglana mína. Ég á einn gára og eina dísu.
Gárinn minn er rúmlega eins og hálfs árs og heitir Perla. Hún er græn og gul og ekkert rosalega gæf. Ég átti par en kallinn dó fyrir ekki svo löngu síðan og þá fór hún í vængstýfingu. Það er allt önnur saga síðan það var gert og nú kemur hún á puttann og er miklu gæfari en ég hefði getað ímyndað mér. Hún er alveg rosalega mikið matargat og klárar svona nammistöng á engum tíma. Núna er hún flutt inn til annars kalls sem heitir Kúri og þau virðast bara hafa það ágætt saman.
Dísan mín er bara rétt þriggja mánaða og ferlegur kjáni ennþá. Hún heitir Kilja og er grá. Hún er alveg ótrúlega gæf og vill helst ekki sjá búrið sitt. Hún lætur sko líka óspart vita ef henni mislíkar hlutirnir. Eins og Perla er hún ferlegt matargat, jafnvel þó að hún vilji ekki líta við neinu nema korninu sínu og cheeriosi. Hún er nýlega búin að uppgötva gólfið og er alltaf að rölta um það og týna upp eitthvað rusl (mestmegnis hennar eigin matarleifar :) Eyrnalokkar, hringir og aðrir aukahlutir finnst henni ferlega spennandi og lítur á það sem sína eign og verður ferlega móðguð ef maður fjarlægir það.
Þær Kilja & Perla eru ekki sérlega góðar vinkonur, Perla tók á móti Kilju í fyrsta sinn með að bíta hana í fótinn og Kilja öskrar hreinlega á Perlu þegar þær hittast núna. Ég veit ekki af hverju í ósköpunum það er, en þær eru báðar ferlegar frekjur. Vekja mann fyrir allar aldir þrátt fyrir yfirbreiðslur, bíta báðar dálítið mikið en þó alls ekki fast og halda hreinlega að þær eigi heiminn :)
Kveðja
Fia, Kilja & Perla