Silja Úlfarsdóttir og Óðinn Björn Þorsteinsson frá FH keppa á Evrópumeistaramóti unglinga fyrir 22 ára og yngri sem fram fer í Bydgoszsz í Póllandi og hefst nk. fimmtudag.
Silja keppir í 400m grindahlaupi á mótinu og Óðinn Björn í kringlukasti.
Þau mundu bæði hefja keppni á fyrsta degi mótsins á fimmtudaginn, en mótið stendur í fjóra daga.
Metþátttaka er á mótinu, en 867 keppendur eru skráðir til leiks frá 46 af 49 þjóðum Evrópu sem eiga aðild að frjálsíþróttasambandi Evrópu.
33 keppendur eru skráðir til leiks í kringlukasti karla og 18 í 400m grindahlaupi kvenna.
Silja hélt utan í morgun, ásamt Sigurði Pétri Sigmundssyni fararstjóra í ferðinni, en Óðinn Björn kemur til móts við þau í Kaupmannahöfn í dag, en hann hefur búið í Helsingborg í Svíþjóð frá sl. áramótum og æft þar undir handleiðslu Vésteins Hafsteinssonar fyrrverandi landsliðsþjálfara FRÍ.

Nánari upplýsingar um mótið í Bydgoszsz er að finna á heimasíðu EAA