Silja Úlfasdóttir
Silja Úlfasdóttir hlaupakona úr FH hefur þátttöku sína á bandarískum háskólamótum af krafti. En Silja stundar nám við Clemson háskólann í N-Karólínuríki. Um helgina keppti hún á móti í Blacksburg í Virginíu og hljóp talsvert undir Íslandsmetinu í 200 m hlaupi innanhúss. Silja kom í mark á 24,62 sek., sem er 18/100 úr sekúndu betri tími en Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur, Tindastóli, sem hún setti í febrúar í fyrra. Ósennilegt verður að teljast að Silja fái metið viðurkennt því hún fór ekki í lyfjapróf eftir hlaupið. Eru Íslandsmet karla og kvenna innanhúss og utan ekki viðurkennd nema íþróttamaðurinn fari í lyfjapróf. “Þetta er því miður vandamál í Bandaríkjunum, á stundum er ekki hægt að komast í lyfjapróf á háskólamótunum eða þá að þær rannsóknarstofur sem fyrir hendi eru hafa ekki viðurkenningu alþjóðasambands eða Ólympíuhreyfingarinnar til þess að taka próf og rannsaka, sagði Egill. ”Auk þess hafa menn mjög skamman tíma til þess að fara í próf eftir að hafa sett met. Það hefur þó verið heimilað að taka það gilt fari íþróttamaður í lyfjapróf fyrsta virka dag eftir mót þar sem met er sett," sagði Egill ennfremur. Silja keppti einnig í 400 m hlaupi á mótinu og kom í mark í 7. sæti á 55,63 sekúndum og þá hljóp hún á 7,81 sek. í 60 m hlaupi. Silja varð einnig í 7. sæti í umræddu 200 m hlaupi.