Brautryðjandinn
Fyrsti formaður TBR var jafnframt sá sem bar uppi starfsemi félagsins fyrsta áratuginn. Það er því ekki tilviljun að Jón Jóhannesson var stundum kallaður “brautryðjandinn” af mörgum badmintonmönnum. Jón fæddist 17. júní 1909 á Ísafirði, þar sem hann ólst upp. Foreldrar hans voru Jóhannes Kr. Jensson, skósmíðameistari og Pálína Brynjólfsdóttir, húsmóðir. Bróðir Jóns var Brynjólfur Jóhannesson leikari. Jón hét reyndar fullu nafni Jón Sigurðsson Jóhannesson. Þegar hann fæddist hinn 17. júní ákváðu foreldrar hans að skíra hann Jón Sigurðsson í virðingarskyni við þjóðhetjuna. Eiginkona Jóns var Katrín Skaptadóttir, sem b¦r nú í Reykjavík, og þau áttu saman þrjú börn.
Jón gekk í Samvinnuskólann á Bifröst og eftir útskrift þaðan árið 1929, hóf hann störf hjá heildverslun I. Brynjólfssonar og Kvaran. Árið 1936 gerðist hann síðan deildarstjóri í búsáhaldadeild SÍS og starfaði þar í tæp 6 ár. Þá stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki ásamt tengdaföður sínum Skapta Ólafssyni og rak það uns hann settist í helgan stein.
Jón átti sæti í stjórn ÍR í nokkur ár og keppti fyrir það félag í fimleikum. Hann var frábær fimleikamaður og sigraði fjórum sinnum á Fimleikamóti Íslands á árunum 1932-1937. Þá s¦ndi hann d¦fingar. Þegar byrjað var að leika á landsmótum í badminton árið 1949 var hann enn meðal bestu leikmanna landsins og varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik árið 1950. Jón Jóhannesson var formaður TBR samtals í tíu ár, lengur en nokkur annar. Hann lést í september árið 1989.
1939
Starfsemi hafin
Á fyrsta starfsári félagsins, voru helstu vandkvæðin að finna húsnæði fyrir áhugasama badmintonleikmenn. Strax í janúar fengust þó tveir tímar á viku, á þriðjudögum og föstudögum klukkan 6-7 í ÍR-húsinu og einnig fengust tímar í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar klukkan 2-4 á sunnudögum. Stjórn félagsins samþykkti að nota þá tíma til kennslu og stóð félögum til boða tilsögn Sigmundar Guðmundssonar fimleikarakennara um vorið. Ekki naut félagið krafta Sigmundar lengi, því hann lést um áramótin 1940. Þetta voru einu tímarnir sem TBR-félagar fengu til afnota þennan fyrsta vetur sem félagið starfaði.
Þessi litli tímafjöldi takmarkaði nokkuð fjölda badmintonspilara og iðkuðu einungis um þrjátíu manns badminton á vegum félagsins þennan vetur. Jón Jóhannesson flutti inn bolta þá sem notaðir voru og keypti félagið boltana af honum á innkaupsverði. Mikill skortur var á áhöldum, en í maí fékk félagið leyfi til að flytja inn badmintonáhöld fyrir 150 krónur. Í lok þess mánaðar hélt TBR útbreiðslu- og kynningarmót í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar, sem vakti nokkra athygli, og skráðu margir sig í félagið í kjölfar mótsins. Eftir að skólum lauk um vorið, fjölgaði nokkuð því fólki, sem spilaði því auðveldara reyndist að fá húsnæði þegar skólum var lokið.
Haustið eftir fengu TBR-félagar sex kvöldtíma og nokkra dagtíma á viku í fimleikahúsi ÍR, auk fjögurra tíma á viku í fimleikasal Miðbæjarskólans. Félagið leigði út spaða til félaga og var mánaðargjaldið 1 króna. Auk þess þurftu allir félagar að greiða þriggja mánaða húsaleigugjald fyrirfram. Eitthvað hafa menn misreiknað kostnað, því á stjórnarfundi í janúar 1940 var samþykkt að krefja ekki þá félagsmenn, sem greitt höfðu afnotagjald af badmintonspöðum fyrra leiktímabil vetrarins, um afnotagjald fyrir næsta leiktímabil, þar sem gjaldið hefði reynst óþarflega hátt.
Þennan vetur, stunduðu um 70 manns badminton hjá félaginu. Heildarfélagatala var þó enn hærri og í lok ársins voru 107 skráðir í TBR. Þessi fjöldi gefur þó ekki rétta mynd af áhuganum, því mun fleiri vildu spila. Hins vegar voru húsnæðisvandræðin slík að margir þurftu frá að hverfa og flestir þeir sem komust að fengu aðeins einn tíma á viku.
heimildir úr TBR í 60 á