Það sem ber hæst er auðvitað heimsmetin tvö; hin ungi Bekele setti glæsilegt heimsmet í gær í 5000 m hlaupi innanhúss, hljóp á 12:49.60 mín og bætti gamla metið hans Gebrelaisse um 80/100. Glæsilegt hjá honum. Hann var búinn að gefa út þá yfirlýsingu að hann ætlaði sér að setja heimsmet. Þeir tveir eru í sérflokki í löngu hlaupunum og það verður spennandi að fylgjast með þeim í sumar.
Um síðustu helgi þá setti rússneska stúlkan Isinbayeva heimsmet í stangarstökki innanhúss en hún stökk 4,83 m. Isinbayeva og Feofanova eru greinilega sjóðheitar um þessar mundir og bera höfuð og herðar yfir aðra kvenkyns stangarstökkvara. Það verður gaman að fylgjast með stangarstökkskeppninni á ÓL í sumar. Hörkukeppni. Það er svo aldrei hægt að útiloka hina bandarísku Stacy Dragila en hún stendur sig alltaf vel á stórmótum. Svo er aldrei að vita nema Þórey Edda blandi sér í baráttuna en þá þarf hún að bæta sig talsvert.
Önnur rússnesk stúlka var að gera það gott í vikunni en Natalya Nazarova hljóp á glæsilegum tíma í 400m hlaupi og setti nýtt rússneskt innanhússmet, 49,68 sek. Hún var aðeins 9/100 frá heimsmeti. Ég vona að Nazarova verði í svona formi á ÓL og veiti þar Ana Guavara frá Mexíkó keppni en Guavara var ósigrandi í fyrra.
Marion Jones keppti í gær og sigraði í langstökki, stökk 6,85 m sem er talsvert frá hennar besta. Hún keppti einnig í 60 m hlaupi og varð í 2. sæti en Kim Geavert frá Belgíu sigraði á tímanum 7,13 sek. Ég veit ekki tímann hjá Marion en hún hljóp á 7,21 sek fyrir tveimur vikum síðan. Marion sagði eftir hlaupið að ef þetta hefði verið 100 m þá hefði hún unnið.
Svo af íslenskum frjálsíþróttamönnum… Silja Úlfarsdóttir, FH, setti glæsilegt Íslandsmet í 200 m hlaupi á móti í gærkvöldi. Hún hljóp á 24,06 sek en gamla metið hennar frá síðustu helgi var 24,26 sek. Það er greinilegt að Silja er í hörkuformi um þessar mundir. Þessa helgi stendur yfir Sænska Meistaramótið og þar eru þónokkrir Íslendingar, t.d. Björn Margeirsson, Sunna Gests, Sigurbjörn Árni, Vala Flosa og Fríða Rún Þórðardóttir. Vona að þeim gangi sem allra best.
Fínt í bili…
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.