Carl Lewis heitir réttu nafni Frederick Carlton Lewis. Hann er fæddur 1.
júlí 1961 og verður því 42 ára nú í sumar.

Carl átti ekki langt að sækja íþróttahæfileika sína en foreldrar Carls
æfðu lengi vel frjálsar íþróttir, m.a. varð móðir hans, Evelyn, í 6. sæti
í 80 m grindahlaupi á Pan-American leikunum árið 1951. Samkvæmt læknisráði
var ákveðið að senda Carl á íþróttaæfingar en hann var mjög grannur þegar
hann var lítill. Sjálfur sagði hann að á sínum allra yngstu árum hefði
hann verið lélegur íþróttamaður miðað við jafnaldra sína og hann meira að
segja tapaði kapphlaupi við yngri systur sína í kringum húsið þeirra!
Þrátt fyrir mótlæti hélt hann áfram að æfa og uppskar erfiði sitt 10 ára
gamall þegar hann vann keppni í langstökki. Það var enginn annar en
átrúnaðargoð hans, Jesse Owens, sem færði honum verðlaunin. Þegar Carl var
12 ára fór hann í fótbolta með nokkrum vinum sínum í kórnum og meiddist
illa á hægra hné, læknar sögðu hnéð það slæmt að hann myndi aldrei aftur
stökkva vel í langstökki. Það var greinilega ekkert að marka það sem
læknarnir sögðu því strax árið eftir stökk Carl 5,51 m. Takið eftir að
drengurinn er aðeins 13 ára gamall… Svo komu bætingarnar í ljós á næstu
árum, 6,07 m, 6,93 m, 7,26 m og þegar hann var 17 ára stökk hann 7,85 m!
Árið 1979 var honum boðið til að keppa á Pan-American leikunum. Hann þáði
það en mætti klukkutíma of seint á mótið vegna mistaka þjálfara hans.
Dómarar mótsins og mótshaldarar ákvaðu samt að leyfa honum að keppa og sáu
alls ekki eftir því, hann stökk í síðasta stökki sínu 8,13 m og endaði í
3. sæti, yngstur keppenda í langstökkinu, aðeins 18 ára gamall. Á sama
tíma var hann byrjaður að æfa undir spretthlaup samhliða langstökkinu og
hann átti best í 100 m hlaupi 10,67 þegar hann var 18 ára.

Árið 1980 átti hann að keppa á ÓL í Moskvu en var sniðgenginn af einhverri
ástæðu (líklegast vegna aldurs) þrátt fyrir að stökkva 8,01 m í langstökki
það ár og hlaupa á 10,21 sek í 100 m.

Árið 1981 ákvað Carl að breyta til, hann yfirgaf Birmingham og flutti til
Houston en þar var einn fremsti frjálsíþróttaþjálfari Bandaríkjanna að
þjálfa, Tom Tellez. Mjög fljótlega eftir að Carl kom til Houston keppti
hann á sterku móti í Dallas og bætti sig mikið, vann 100 m hlaupið á 10,00
sek, vann 200 m á tímanum 20,73 sek og vann einnig langstökkið, stökk 8,25
m. Seinna árið 1981 keppti hann á landsmóti Bandaríkjanna og varð
Bandaríkjameistari í 100 m hlaupi (veit ekki tímann) og setti einnig
bandarískt met í langstökki, 8,63 m. Og Carl rétt skriðinn yfir tvítugt…

Árið 1982 er ekkert sérstakt fyrir Carl fyrir utan það að bæta sig í
langstökki og þar af leiðandi að bæta metið, hann stökk 8,73 m. Hann varð
líka stabíllari í 100 m.

Árið 1983 gerir Carl allt til þess að vinna sér inn sæti í Ólympíulið USA
og árangurinn lét ekki á sér standa: Þegar hann keppti á sínu fyrsta
Heimsmeistaramóti í Helsinki vann hann þrenn gullverðlaun. Hann stökk í
langstökkinu aðeins tvö stökk vegna þess að hann var í vandræðum með
atrennuna, í báðum stökkunum var hann um 20 cm frá plankanum en stökk samt
best 8,79 m. Tveimur tímum eftir langstökkið er úrslitahlaupið í 200 m
hlaupi en hann hljóp létt í gegnum riðlakeppnina og á 20,15 sek í
undanúrslitunum. Í úrslitahlaupinu sjálfu kom hann í mark á frábærum tíma,
19,75 sek sem var aðeins 3/100 frá heimsmetinu. Þess má til gamans geta að
þegar 20 m voru eftir í mark þá setti hann hendurnar upp og tapaði þar þó
nokkuð mörgum sekúndubrotum.

Árið 1984. ÓL í Los Angeles. Hann vann þar fern gullverðlaun. Í 100 m
hlaupi á tímanum 10,06 sek (-2,2 í mótvind), 200 m hlaupi á 19,83 sek
(-0,2 í mótvind), langstökki með stökki upp á 8,71 m og í 4x100 m
boðhlaupi.

Árin 1985 og 1986 eru ekkert sérstök fyrir Carl nema það að hann hljóp
einu sinni á 9,98 sek og stökk 8,62 m. Á Goodwill leikunum árið 1986
tapaði hann á móti nýjum keppinaut, Ben Johnson að nafni. Sá hljóp á 9,95
sek en Carl á “aðeins” 10,06 sek. Árið 1987 dó pabbi Carls úr krabbameini.

1988: Á HM í Róm vann Carl tvenn gullverðlaun (í langstökki og 4x100 m
boðhlaupi) og ein silfurverðlaun (í 100 m hlaupi á eftir Ben Johnson). Það
var sagt um Ben Johnson að hann væri akkúrat andstæða Carl Lewis, ljótur,
stuttur, ræfilslegur og með hræðilegan hlaupastíl. En hann var kraftmikill
og með gríðarlega gott start þar sem hann vann var alltaf tveimur metrum á
undan Carl fyrstu 20 metrana.

Á ÓL í Seoul árið 1988 var mikið einvígi á milli þeirra, það var ekki hægt
að segja hvor yrði á undan og mikill spenningur. Carl var búinn að vinna
Ben tvisvar með stuttum fyrirvara og hljóp eitt skipti á 9,78 sek en það
var ólöglegur vindur. En í Seoul vann Ben Johnson í frægu hlaupi og setti
nýtt glæsilegt heimsmet, 9,79 sek og Carl var langt á eftir á 9,92 sek. En
það kom í ljós að Ben hafði neytt ólöglegra lyfja og því dæmdur af honum
sigurinn og settur í keppnisbann. Carl stóð uppi sem sigurvegari og á nýju
heimsmeti (9,92 sek) á meðan Ben var niðurlægður vegna lyfjamisnotkunar
sinnar. Carl kom heim með tvö Ólympíugull og eitt silfur.

Eftir ÓL í Seoul tók Carl sér stutt hlé frá frjálsum og reyndi fyrir sér í
tónlistarbransanum sem söngvari. Á meðan kom nýr keppinautur, Leroy
Burrell, og hjó nálægt heimsmeti Carls, 9,94 sek og vann Leroy Carl á
Goodwill leikunum. Á sömu leikum var Mike Powell orðinn stórhættulegur
keppinautur og Carl vann hann aðeins með 4 cm.

Árið 1991 var HM í Tókyó og þar stóð Carl sig frábærlega. Hann hljóp á
nýju heimsmeti í 100 m hlaupi, 9,86 sek. Hann endaði í öðru sæti í
langstökki á eftir Mike Powell sem stökk 8,95 m en Carl 8,91 m. Vindur var
ólöglegur. Þar með lauk sigurgöngu Carls í langstökki en hann vann 65 mót
í röð í langstökki.

Árið 1992 var ÓL í Barcelona. Þar átti hann í vandræðum með
skjaldkirtilinn og datt út í undanúrslitum í 100 og 200 m hlaupi. Hins
vegar vann hann Mike Powell í langstökkinu og 4x100 boðhlaupið og vann þar
með sitt áttunda Ólympíugull.

Á árunum ´92-´95 var Carl frekar lélegur, tapaði hverju hlaupinu á fætur
öðru og því bjóst enginn við neinu sérstöku af honum á ÓL í Atlanta ´96.
Það var einmitt það sem gerðist, hann gerði engar rósir þar nema að vinna
langstökkið með stökk upp á 8,50 m í miklum mótvind. Það var hans eina
Ólympíugull á þeim leikum og hans síðasta á ferlinum. Hann setti einnig
met því enginn hafði/hefur unnið til fernra gullverðlauna í sömu og einni
greininni. Þennan dag lauk ferlinum þó að Carl hafi komið fram á
sýningarmótum til að fullnægja aðdáendum.

Carl Lewis vann til 17 gullverðlauna samtals á Ólympíuleikum og
Heimsmeistaramótum. Samkvæmt þeirri samantekt er hann mesti íþróttamaður
allra tíma. Það met verður seint slegið og sá sem slær það mun verða mesti
íþróttamaður allra tíma.

Ég hef kynnt mér sögu Carl Lewis vel og því miður fyrir mig þá man ég
ekkert eftir honum en hef heyrt svo mikið um hann eins og allir aðrir. Ég
heyrði samt leiðinlegan hlut um Carl um daginn en þá kom í ljós að hann
hefði neytt ólöglegra lyfja fyrir ÓL í Seoul árið 1988 en það eru sömu
leikar og Ben Johnson var tekinn fyrir vegna lyfamisnotkunar. Það kom
slæmu orði á þennan mesta íþróttamann allra tíma eins og öll upplýsing
lyfjanotkunar gerir.

Lýk hér með yfirliti um mesta íþróttamann allra tíma, Frederick Carlton
Lewis.

Heimildir. www.angelfire.com
Lífið gengur út á að vera númer 1, ekki númer 2.