Bandaríska sönkonan Britney Spears ætlar að taka sér frí frá tónlistarflutningi. Talsmaður Jive-útgáfufyrirtækisins segir hana ætla að taka sér þriggja mánaða frí eftir erfiða hljómleikaferð og enn lengra frí frá tónlistarflutningi. “Hún hefur verið á erfiðu hljómleikaferðalagi og þarf skiljanlega á fríi að halda,” sagði talsmaðurinn. “Hún mun síðan hefja vinnu við gerð næstu kvikmyndar sinnar.” Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Talsmaðurinn vísar hins vegar á bug sögusögnum um að Spears ætli að halda sig frá sviðsljósinu í tvö ár. “Hún mun taka sér frí frá tónlistinni um tíma en hún mun örugglega snúa aftur.” segir hann.

Spears sem er 21 árs, er sögð uppgefin eftir mikla vinnu, auk þess sem hún hefur verið undir miklu álagi vegna sambandsslitanna við Justin Timberlake og skilnaður foreldra sinna. Þá hafa fyrsta kvikmynd hennar, Crossroads, og veitingastaður hennar, Nyla í New York hlotið blendnar viðtökur.
HELLO!