Patrick Swayze þjáist af alvarlegu krabbameini og gæti átt aðeins fimm vikur eftir ólifaðar, samkvæmt frétt úr The National Enquirer.

Leikarinn, sem er 55 ára, var greindur með krabbamein í brisi í janúar síðastliðnum, en krabbameinið hefur síðan dreift úr sér og borist í önnur líffæri.

Hann hefur þegar undirgengist þrjár umferðir af lyfjameðferð sem urðu til þess að æxlið minnkaði, en læknar eru samt sem áður ekki ánægðir með útkomuna.

Patrick hefur reglulega flogið ásamt eiginkonu sinni, Lisu Niemi, í einkaþotu þeirra til meðferðar hjá krabbameinsmiðstöð Stanford-Háskóla í Palo Alto.

“Honum var sagt að honum stæðu til boða tvær lyfjameðferðir til viðbótar, en að krabbameinið væri ekki að bregðast við meðferð,” er haft eftir aðstandanda.

“Í stuttu máli, þá eru læknar vonlitlir um árangur.”

Patrick er frægastur fyrir hlutverk sitt í myndinni, Dirty Dancing, sem allar stelpur þekkja, en sú mynd skaut honum upp á stjörnuhimininn árið 1987.

Hann lék svo eftirminnilega í bæði Ghost, ásamt Demi Moore, og Point Break, með Keanu Reeves, á tíunda áratugnum.

Síðan þá hefur ekki mikið farið fyrir honum í kvikmyndaheiminum, en hann á hlutverk í myndinni, Powder Blue, sem kemur út á næstunni.



Bætt við 8. mars 2008 - 18:39
Já fréttin þarna að ofan er víst svoldið ýkt en hann á ekki 5 vikur eftir ólifað. En hann er samt með krabbamein sem hefur dreifst um allan líkamann hans.

Þetta er ekkert ósvipað krabbamein og pabbi minn er með. En hann er með krabbamein í gallrásinni og það er að koma bráðum 1 ár síðan sem hann fékk að vita af því.